15 atriði sem ég vildi að ég hefði vitað sem unglingur

Fyrir mér voru unglingsárin ekki auðveldur tími. Þau voru bara nokkuð strembin og hausinn á mér var bara ekki alveg rétt skrúfaður á held ég. Ég fór í fyrsta skipti að heiman í 10. bekk og varð svolítið að sjá um mig sjálf og fannst það nú ekkert tiltöku mál. Eftir á að hyggja þá þakka ég bara fyrir að hafa þó komist eins heil og ég er þó, frá þessum árum.

Það var ótrúlegt hvað maður var sannfærður um að maður væri nú bara gott sem fullorðin og gæti sko alveg hugsað um sig sjálfur. Það er svo fjarri því!

Hér eru 15 atriði sem ég vildi að ég hefði vitað þegar ég var litla stelpan með unglingaveikina:

1. Að strákurinn sem ég var skotin í á þeim tíma væri ekki ástin í lífi mínu
2. Að það var margt hægt að gera um helgar og í frítíma annað en að djamma
3. Að fyrsti kærastinn minn yrði ekki eiginmaður minn
4. Að ruslfæði og sælgæti er hvorki gott fyrir líkama né sál
5. Að það er ekki merki um heimsku að spyrja spurninga í tímum
6. Að konurnar sem mig langaði að líta út eins og, eru í raun ekki svona fullkomnar
7. Að þegar ég yrði um þrítugt yrði ég ekki orðin fullorðin, með hús, bíl, hund, börn og mann
8. Að ég á eftir að eignast fullt af nýjum vinum með árunum
9. Að lífið er ekki bara svart og hvítt, þetta gráa getur verið nokkuð gott sko
10. Að dæma ekki fólk eftir útlitinu
11. Að mistökin mín eru það sem myndu kenna mér hvernig ég vil EKKI vera
12. Það að hugsa um heilsuna er ekki bara fyrir gamalt fólk
13. Að ég þarf ekki að vera sammála öllum til þess að vera samþykkt
14. Að þó ég eigi ekki dýrustu og flottustu hlutina þá er ég samt flott stelpa
15. Að foreldrar mínir eru ekki hallærislegir og alltaf að reyna að koma í veg fyrir að ég skemmti mér


SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here