40 stelpur voru valdar áfram – Hver verður næsta Solla Stirða?

Fjörutíu stelpur komu í Þjóðleikhúsið í dag til þess að spreyta sig í prufunum fyrir Sollu stirðu. Þessar stelpur voru valdar úr hópi tæplega 200 umsækjenda sem sóttu um hlutverkið fyrir helgi.

Það er nú þegar orðið ljóst að valið mun verða leikstjóra og öðrum aðstandendum sýningarinnar erfitt. Stelpurnar eru hver annarri hæfileikaríkari og hér hefur verið sungið og dansað í allan dag. Máni Svavarsson, tónlistarstjórinn í Latabæ, hefur séð um að prófa raddir stúlknanna og Unnur Eggertsdóttir, sem sjálf hefur verið Solla stirða í tæp fjögur ár, kenndi þeim réttu danssporin. Allt fór þetta fram undir vökulu auga Rúnars Freys Gíslasonar en Rúnar er leikstýrir þessari nýju sýningu.

Á morgun verður hluti stúlknanna kallaður aftur inn í leikhúsið en val á nýrri Sollu stirðu mun liggja fyrir í lok vikunnar. Æfingar á verkinu hefjast svo strax í næstu viku og er ljóst að mikil vinna er framundan hjá þeirri sem hreppir hlutverkið. Þessi nýjasta afurð Magnúsar Scheving verður síðan frumsýnd á fjölum Þjóðleikhússins þann 14. september næstkomandi og má gera ráð fyrir því að einhverjir séu þegar farnir að hlakka til.

Myndirnar sem fylgja með eru annars vegar auglýsingin fyrir prufurnar og hins vegar mynd sem tekin var í prufunum sem fram fóru í dag.

Solla_Casting[4]

SHARE