6 einföld ráð til að léttast

Það sem við gerum dags daglega hefur, eins og gefur að skilja, mikil áhrif á okkur. Við erum ekkert nema vaninn og erfitt getur verið að brjóta hann upp, en stundum er bara einfaldlega þörf á því. Ef þú ert að leitast eftir að léttast og langar að gera það án mikillar fyrirhafnar eru hér nokkur ráð fyrir þig. Eins og með öll svona ráð, eru þetta ekki töfralausnir heldur bara einföld ráð sem gott er að hafa bak við eyrað.

Horfðu minna á sjónvarp

Flest vitum við að við innbyrðum meira og fleiri kaloríur ef við borðum þegar við erum annars hugar (horfandi á sjónvarp, í tölvunni, að lesa o.þ.h.). Þetta einskorðast samt ekki við át fyrir framan sjónvarpið því við brennum hreinlega minna þegar við liggjum fyrir framan imbann! Við brennum meiru við að sofa heldur en þegar við horfum á sjónvarp svo er ekki upplagt að fara í göngutúr, lesa bók eða bara fara að sofa frekar en að eyða öllum þessum tíma fyrir framan sjónvarpið.

 

Drekktu volgt vatn

Flest veljum við að drekka vatnið okkar kalt fremur en volgt eða heitt, en ef þú ert að leitast eftir að grenna þig, er spurning um að endurskoða þessa ákvörðun. Heitara vatn framkallar saðsemistilfinninguna fyrr en ella, þannig að þú borðar ósjálfrátt minna. Ef þú getur ómögulega drukkið heitt vatn er sniðugt að setja smá jurtate út í til að fá smá gott bragð.

 

Ekki borða í “kósý gallanum”

Rannsóknir hafa sýnt fram á það að við borðum meira ef við klæðumst víðum eða mjög teygjanlegum fötum. Þetta hentar okkur sem förum í kósý gallann um leið og við komum heim, ekkert rosalega vel en í stað þess að vera í víðum jogging buxum, gætum við kannski valið okkur leggings og hlírabol í staðinn. Þannig líður okkur vel en erum meðvitaðar um línurnar.

 

Borðaðu meira af “góðum bakteríum”

Bakteríur gegna mikilvægu hlutverki í efnaskiptum líkamans og einnig hafa þær áhrif á matarlyst okkar. Sagt hefur verið að með því að auka við inntöku á mat sem inniheldur þessar vinveittu bakteríur, getir þú aukið brennslu líkamans og ekki sé þá þörf á að minnka kaloríuinntöku. Þessu ráði tek ég þó með fyrirvara því ekki fann ég neinar rannsóknir sem styðja staðfastlega við þetta. Hins vegar er alltaf jákvætt að styrkja jákvæðu bakteríuflóru líkamans.

 

Kryddaðu matinn þinn

Nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á það að við neyslu á sterkt krydduðum mat, sérstaklega ef notaður var Cayenne-pipar, jukust efnaskipti líkamans. Eftir neyslu á piparnum, borðaði fólk ósjálfrátt færri kaloríur í næstu máltíð en einnig hefur verið sýnt fram á það að piparinn hægir á vexti fitufrumna.

 

Drekktu vín

Vísindamenn eru ekki vissir hvers vegna, en það hefur sýnt sig að þær konur sem drekka eitt eða tvö vínglös á dag, bæta síður á sig aukakílóum. Þær sem voru að fá sér vín-dreitil daglega, voru að taka inn færri kaloríur yfir daginn en um leið og glösin voru orðin fleiri en tvö voru einnig kaloríurnar fljótar að telja.

 

Munum samt að öll erum við einstök og við eigum að elska okkur eins og við erum!

SHARE