Undirbúningur barns vegna flutnings

Hvernig má draga úr streitu vegna flutnings?

Flutningur er stór ákvörðun fyrir alla fjölskylduna. Fullorðnum hættir ef til vill til að einblína á hagnýt vandamál, en barnið er upptekið af því, sem það missir við flutninginn. Auk þess er það fullorðna fólkið sem tekur ákvörðunina um flutninginn og barnið finnur vanmátt sinn þegar það hefur ekki möguleika á að hafa áhrif á framvindu mála.

Hvað gerir gagn?

Mikilvægt er að tala við barnið. Gott er að ræða flutninginn sem oftast og það í tæka tíð til að barnið geti vanist tilhugsuninni. Barnið þarf nógar upplýsingar með tilliti til aldurs og þroska.

Yfirleitt er barnið mjög upptekið af því hvað það muni missa við flutninginn, eins og vini og kunnuglegt, öruggt umhverfi.

Búast má við því að þegar talið berst að flutninginum vilji barnið aðeins tala um hann stutta stund og snúi sér síðan að öðru. Þannig ræða lítil börn málin. Ekki gera ráð fyrir því að barnið geti setið heila kvöldstund og rætt um flutninginn og afleiðingar hans, betra er að grípa tækifærið þegar það gefst, t.d. þegar barnið spyr eða sýnir áhuga.

Sum atriði eru til þess fallin að leyfa barninu að taka þátt við undirbúninginn. Barnið getur fengið að aðstoða við að skipuleggja, innrétta herbergi, velja liti o.fl. Þannig finnst því það vera þátttakandi, en ekki út undan.

Ef hægt er að koma því við er ráðlegt að leyfa barninu að koma á nýja staðinn nokkrum sinnum til að venjast honum og gera hann raunverulegan fyrir því.

Hvaða viðbrögð er líklegt að barnið sýni?

Allt frá eftirvæntingu og vandræðalausum flutningi yfir í grát og gnístran tanna og að barnið verði eins og smábarn.

Sum lítil börn fara að sjúga á sér fingurna, pissa undir, tala smábarnamál eða hanga stöðugt utan í foreldrunum. Eldri börn geta neitað að borða, sofið illa eða hamast í hárinu á sér, borað í nefið, orðið feimin eða uppstökk. Skólabörn geta fundið fyrir svefntruflunum, einbeitingarörðugleikum, maga- og höfuðverki. Hjá sumum börnum geta komið fram hegðunarvandamál– þau fara að ljúga eða stela.

Þetta eru allt streituviðbrögð. Þegar barnið skilur ekki hvað er í gangi, né getur tjáð sig um flóknar tilfinningar sínar kemur streitan fram á þennan hátt.

Grundvallarþarfir allra barna eru holl fæða og nægur svefn/hvíld. Auk þess er mikilvægt að barnið eigi að minnsta kosti einn fullorðinn að, sem gefur því tíma, athygli og tækifæri til að tjá sig. Á þessum breytingatíma er innihaldsrík samvera með foreldrunum það langmikilvægasta fyrir barnið.

  • Hvernig er flutningurinn fyrir börn undir 6 ára aldri?

Börn undir 6 ára aldri eiga auðveldast með að flytja. Heimsmynd þeirra byggist á örygginu, sem foreldrarnir veita og yfirleitt hafa þau mikla öryggistilfinningu ef þau eru samvistum við foreldrana.

Best er að undirbúa þau með margendurteknum, einföldum útskýringum. Á þessum aldri er gott að segja sögur, sem fjalla um flutninga, og söguhetjan á gjarnan að vera á svipuðum aldri og barnið.

Sjá einnig: Lítil skref í átt að láta barnið hætta með bleiu

Þegar kemur að því að pakka er ráðlegt að útskýra fyrir barninu, að það sé bara verið að pakka niður dótinu til að taka það upp á nýjum stað, þannig að barnið haldi ekki að dótið þess muni hverfa.

Það gerir illt verra að lofa barninu gæludýri eða því um líku, ef ekki er hægt að standa við það því þá finnst barninu það hafa verið svikið.

Þetta er ekki rétti tíminn til að skipta um húsgögn eða rúm barnsins. Allt sem er öðruvísi veldur óöryggi og allt sem er gamalt er kunnuglegt og gott.

Ef hægt er, er ráðlegt að barnið sé í pössun daginn sem flutt er, svo að því finnist það ekki vera utangátta eða fyrir á meðan mamma og pabbi eiga annríkt.

  • Hvernig er flutningurinn fyrir skólabarnið?

Skólabarnið er gífurlega upptekið af spurningunni um hvernig nýi skólinn og nýju skólafélagarnir muni verða. Skólinn er mikilvægur þáttur í lífi barnsins og miklu máli skiptir að því líði vel í skólanum. Deila má um hvort sé heppilegra að flytja í sumarfríinu eða á miðju skólaári. Ef barnið flytur í sumarfríinu hefur það lengri tíma til að aðlagast, en þá líður heilt sumarfrí án vina og skólafélaga, en þá fær það líka að byrja upp á nýtt með nýjum félögum, eftir fríið.

  • Hvernig er flutningurinn fyrir unglinginn?

Unglingurinn skilur yfirleitt til fulls hvað flutningur er og hvers vegna. Flutningur getur samt raskað lífi unglingsins heilmikið. Við flutninginn missir hann oft tengsl við félaga sína, sem skipta meginmáli í lífi hans. Hann getur lent í því að þetta trufli ástarsamband og flutningur milli skóla getur tekið ótrúlega mikið á krakka á þessum aldri þegar sjálfsmyndin er á brauðfótum og viðurkenning félaganna er sáluhjálparatriði. Unglingurinn getur brugðist harkalega við og gert uppsteyt. Forðist óraunhæfar setningar, eins og: „Þetta verður allt í lagi, tíminn læknar öll sár“ o.s.frv. Mikilvægt er að hlusta á unglinginn og sýna þessum erfiðleikum hans skilning og reyna í sameiningu að leysa málin, ef mögulegt er.

Hvað á að gera, þegar stundin rennur upp?

Flutningsdagurinn er dagur umbreytinga og ekki verður aftur snúið. Herbergið sem mest liggur á að koma í lag er barnaherbergið. Gott er að byrja á barnaherberginu svo að barnið fái sínar öruggu bækistöðvar. Það stuðlar að öryggiskennd þess og hugarró.

Reynið eftir fremsta megni að halda matmálstíma og háttatíma. Ef viðkomandi er úrvinda er ráðlegt að fá aðstoð. Biddu vin, systkini eða afa og ömmu um hjálp.

Ekki er víst að barnið sé reiðubúið að fara í skólann strax eftir flutninginn. Barnið þarf að venjast nýjum aðstæðum og jafna sig aðeins fyrst.

Í skólanum er reiknað með 6 vikna aðlögunartíma. Ef barnið er ekki búið að jafna sig eftir 6-8 vikur í skólanum og á heimilinu gæti verið ráðlegt að leita aðstoðar fagmanneskju, svo að barnið sé ekki of lengi að aðlagast og að það reynist því ekki of erfitt.

Einkenni, sem benda til þess að barnið hafi ekki aðlagast geta komið fram sem höfuðverkur, magapína, þunglyndi, einangrun, lægri einkunnir eða hegðunarörðugleikar eins og að ljúga eða stela.

Hvað getur verið jákvætt við að flytja?

Fyrir utan upprunalega ástæðu fyrir flutningum, sem getur verið af hinu góða, getur flutningurinn verið góð reynsla fyrir fjölskylduna, ef rétt er að málum staðið. Flutningurinn og allur undirbúningurinn og samskiptin, sem honum fylgja, geta þjappað fjölskyldunni saman og bætt samskiptin innbyrðis þegar rætt er um tilfinningar og væntingar. Við flutninginn gefst foreldrunum líka tækifæri til að kynnast börnunum sínum betur, viðbrögðum þeirra og tilfinningum. Ef vel gengur geta foreldrarnir komist að raun um að börnin þeirra hafa öðlast aukið sjálfstæði.

 

SHARE