Hollari valkostir í afmælið

Veitingar í barnaafmælum þurfa ekki endilega að vera uppfullar af sykri.

Það eru alltaf fleiri og fleiri sem vilja bjóða upp á hollari valkosti í afmæli, enda alveg óþarfi að dæla ótæpilegu magni af sykri í blessuð börnin. Eins og við flest vitum getur sykurinn nefnilega haft neikvæð áhrif á bæði heilsufar og hegðun.

-Hægt er að finna uppskriftir að allskonar girnilegum sykurlausum kökum á netinu, en þá eru döðlur og bananar oft notaðir til að gefa sætt bragð. Börn sem ekki eru vön að borða sykur elska svona kökur, og jafnvel hin líka.

-Þá getur verið sniðugt að bjóða upp á rúsínur og popp í staðinn fyrir sælgæti. Rúsínur er til að mynda hægt að fá í litlum handhægum pökkum sem krökkunum finnst oft mjög spennandi að fá í hendur. Það er jafnvel hægt að líma skemmtilegar myndir á rúsínupakkana í stíl við þemað í afmælinu.

-Popp í pokum eða skemmtilegum ílátum er líka alltaf vinsælt og er yfirleitt étið upp til agna í barnaafmælum. Þeir fullorðnu lauma sér gjarnan í það líka, enda stendur popp alltaf fyrir sínu. Pokana með poppinu má svo skreyta til að lífga upp á afmælisborðið.

Sjá einnig: Hollari valkostir sem eru í alvöru bragðgóðir

-Grænmetis- og ávaxtabakkar geta vakið lukku hjá börnum, sérstaklega ef grænmetinu og ávöxtunum er raðað upp á skemmtilegan hátt, sett á spjót, eða notað sem skreytingar.

-Smápítsur með heilhveitibotni eða grófu spelti munu pottþétt slá í gegn. Börn elska allt sem er svona lítið og sætt og auðvelt að grípa í höndina.

-Bananabitar á spjóti, sem dýft er í dökkt súkkulaði, eru næstum eins og íspinnar og getur verið spennandi að borða. Það er jafnvel hægt að skreyta banana með kökuskrauti til að gera þá enn skemmtilegri.

 

Heimildir: Fréttatíminn

SHARE