Allt leyfilegt á veisluborðið í fermingum þetta árið

Veitingar í fermingarveislum breytast eftir tíðarandanum hverju sinni. Áður fyrr svignuðu veisluborðin undan hnallþórum en síðustu ár hefur val á veitingum orðið sífellt frjálslegra.

Ef marka má umræður í fermingarhópum á Facebook virðast margir ætla að sleppa eða fækka stóru kökunum en bjóða þess í stað upp á ís og ávexti og jafnvel poppkorn. Poppið gefur sannarlega tóninn um að stemningin sé önnur og léttari en áður hefur verið. Sér í lagi nú þegar hægt er að fá poppkorn með allskonar bragði og áferð sem ekki þekktist áður.

Þá verður sífellt algengara að gamla góða kransakakan fái andlitslyftingu. Margir bjóða upp á Rice Krispies kransaköku með súkkulaði eða Rice Krispies kransaköku með sykurpúðum.

Fyrir þá huguðustu er rétt að benda á kleinuhringi í fermingarveisluna. Það hefur vart farið framhjá neinum að tvær stórar alþjóðlegar keðjur selja nú hringi sína hér á landi og á Krispy Kreme er hægt að fá kleinuhringjastanda að láni. Þá er hægt að velja sér sína uppáhalds hringi og raða þeim upp eftir kúnstarinnar reglum. Þarna er kannski kominn áhugaverður valkostur við hefðbundnu kransakökuna. Alla vega fyrir þá huguðustu.

 

SHARE