Albert eldar – Stór veisla undirbúin

Alberteldar.com hefur verið til frá því í ársbyrjun 2012 en það er hann Albert Eiríksson sem heldur úti síðunni.  „Áður vorum við með uppskriftir á blöðum um allt eldhúsið, bæði í skúffum, á ísskápnum og í möppum. Hugmyndin var að koma skipulagi á uppskriftirnar með því að hafa þær allar á einum stað. Setja þær á netið. Þetta spurðist út og úr varð að ég gerði síðuna opinbera. Hún varð strax mjög vinsæl og hafa vinsældirnar aukist ár frá ári,“ segir Albert.
Um síðustu áramót setti Albert sér það markmið að setja inn færslu á föstudögum allt árið um borðsiði – það hefur vakið mikla athygli og fjölmargir þakklátir þessum færslum. „Þó borðsiðir Íslendinga séu stórfínir þá getum við gert enn betur,“ segir Albert. Undanfarna mánuði hafa bæst við skrif um veitinga- og kaffihús og höfum við fengið leyfi Alberts til að birta greinar hér á Hún.is.

Í þessari frábæru grein hans Alberts eru frábærar leiðbeiningar um hvernig á að halda stóra veislu:

Stór veisla, undirbúningur og framkvæmd – nokkur ráð

Stór veisla, undirbúningur og framkvæmd – nokkur ráð. Þann 16. ágúst giftum við Bergþór okkur. Við lögðum vinnu í undirbúning og skipulagningu og fengum aðstoð frá fjölmörgum. Góð kona benti okkur á að því meiri tíma sem við legðum í undirbúninginn, því eftirminnilegri yrði giftingardagurinn.

Engar tvær veislur eru eins og það sama á við um undirbúninginn. Hef fengið hvatningu til að setja hér inn nokkra punkta um hvernig undirbúningurinn og veislan sjálf var, punkta sem geta nýst fólki sem er að fara að skipuleggja stórar veislur. Til að forðast misskilning þá eru þetta engar reglur, aðeins punktar um hvernig við gerðum þetta.

Giftingin kynnt í kaffiboði. Við héldum fjölmennt kaffiboð með góðum vinum og fjölskyldumeðlimum tveimur mánuðum fyrir giftinguna og sögðum þar frá hvað við ætluðum að gera. Þannig myndaðist eftirvænting sem smitaðist út til annarra boðsgesta.

Fasbókarsíða. Við stofnuðum lokaða Fasbókarsíðu og settum þar inn efni á hverjum degi. Lítið og stórt. Fengum t.d. góða punkta frá kirkjuverðinum sem við settum inn. Við sögðum frá fyrirkomulaginu í Salnum, frá gjöfum, kynntum prestinn, veislustjórann og fleiri til sögunnar og ýmislegt fleira.

Gestalistinn. Stóri höfuðverkurinn hjá flestum er gestalistinn. Við hefðum viljað hafa mjög, mjög marga í veislunni en … Fyrst skrifuðum við niður „alla”, síðan var farið að fækka á honum, sem var ekki sársaukalaust, stundum þurftum við t.d. að velja fulltrúa ákveðins hóps ef hópurinn var of stór. Betra er samt ef hægt er að komast hjá því. Veit að gestalistinn er höfuðverkur hjá mörgum. Held að flestir skilji að það er ekki hægt að bjóða öllu samferðafólki.

Boðskortin. Við sendum út boðskortin tæpum mánuði fyrir giftinguna. Öðrum megin á boðskortinu var mynd af okkur á staðnum sem við hittumst á og hinum megin var boðið til giftingarinnar í bundnu máli. Við báðum fólk að svara á netföngin okkar eða með símtali. Okkur finnst þægilegra fyrir alla aðila ef fólk er beðið að svara frekar en að standi: ef þið komist ekki.

Í gírinn. Til að auka ennfrekar stemninguna þá báðum við fólk að setja inn myndir á fb-síðunu daginn fyrir giftingu og sama dag – frjálslegar stemningsmyndir og fólk var beðið að taka sig ekki of hátíðlega.  Þetta vakti mikla lukku.

Klæðnaður. Þegar við höldum í brúðkaup förum við í okkar fínasta. Það er víst ekki viðeigandi að konur mæti svartklæddar í brúðkaup, þar sem það er litur sorgarinnar. Í þessari giftingu var engin brúður, en að öllu jöfnu þykir heldur ekki við hæfi að konur mæti í hvítu, til að draga ekki athygli frá brúðinni. Við vorum ekki með dress code en umræðan á fb-síðunni gaf hinsvegar tóninn varðandi hárskraut, kjóla, hálsskraut og hatta.

Ljósmyndari. Það er ekki að ástæðulausu sem giftingardagurinn er kallaður Stóri dagurinn. Gleðivíman er í hæstu hæðum og fólk vill varðveita gleðina t.d. í myndum. Við fengum faglærðan ljósmyndara til að fanga stemninguna. Hún er afar listræn og kom með fjölmargar hugmyndir og tók bæði myndir við undirbúninginn, í kirkjunni, veislunni og dagana á undan. Myndirnar sem eru með þessari færslu eru frá henni.

Skreytingar. Þrjár listrænar stúlkur úr fjölskyldunni sáu um skreytingar og fengu til þess aðstoð héðan og þaðan. Þær töluðu sig saman og komu með hugmyndir sem við svo ræddum. Þær skreyttu bæði salinn og líka bílinn sem við fórum í frá kirkjunni í Salinn.

Netfærslur. Eins og margir hafa upplifað hanga margir í símum sínum öllum stundum. Á fb-síðunni báðum við fólk að geyma allar netfærslur og njóta þess að vera á staðnum (það sem kallað er að vera í núinu). Við vorum ekki með # en báðum fólk að setja inn myndir á lokuðu fb-síðuna að lokinni veislunni.

Gengilbeinur. Til að allt gangi snurðulaust fyrir sig þarf vana þjóna, helst faglærða, en ef þess er ekki kostur, helst fólk sem hefur augu á hverjum fingri og getur leyst þau mál sem upp koma. Við héldum fund með gengilbeinunum okkar og fórum yfir málin, fengum ráð frá þeim og sögðum okkar hugmyndir.

Veislustjóri. Í veislum er veislustjóri mjög mikilvægur. Hann setur upp dagskrána, kynnir og tengir saman það sem þarf. Það er mikilvægt að fólk komi upplýsingum fyrirfram til veislustjórans, einkum til að tímamörk fari ekki úr böndunum. Veislustjórinn okkar er með fyndnustu, en jafnframt snjöllustu veislustjórum um þessar mundir og hún notaði m.a. margnefnda fb-síðu til að kynda undir galsa og eftirvæntingu. Ekkert gerist af sjálfu sér.

Lengd atriða. Ef hægt er að heilla Evrópu í söngvakeppninni á þremur mínútum þá er það líka hægt í veislu. Við vorum þess fullvissir að fjölmörg atriði yrðu á sviðinu og á  fb-síðunni óskuðum við eftir því að tónlistarfólk tæki aðeins eitt lag. Ræðufólk var beðið að vera innan sama tímaramma, þeas 3-5 mín. Allir sáu hve mikil snilld það var að hafa tímamörk. Vel undirbúin atriði á sviði gera það að verkum að öllum líður vel.

Leikir. Fátt er skemmtilegra en samkvæmisleikir þar sem allir taka þátt. Til að brjóta upp dagskrána vildum við hafa „hreyfileik” og fjöldasöng. Hvort tveggja gekk eftir. Ofan á þetta tvennt bættist svo HÚH-klappið fræga sem breyttist í HOMM í veislunni

Veitingar og drykkir. Við viljum að fólk kynnist og að gestir í veislunni okkar kynnist öðrum gestum. Þessvegna vildum við síður hafa sitjandi borðhald. Veislustjórinn bað gesti að tala við a.m.k. fjórar manneskjur sem þeir höfðu ekki talað við áður. Allir voru ánægðir með þessa hugmynd (veislustjórinn, sem er snillingur, bætti þó við í léttum dúr að ef fólk sæi einhvern sem það hefði sofið hjá, ætti það að high-fæva hann). Veitingarnar voru smáréttir sem hægt var að raða á servíettu sem fólk gerði og gekk svo á milli og kynntist nýju fólki. Boðið var upp á hvítvín og sódavatn með. Okkur var ráðlagt að sleppa dísætu gosdrykkjunum.

Brúðartertan. Það er auðsótt að fá fólk til að aðstoða og flestir buðu fram aðstoð að fyrra bragði. Við fengum nokkrar konur til að baka pönnukökur sem síðan voru fylltar með rjóma og sultu. Pönnukökunum var raðað á brúðartertudisk á mörgum hæðum og hann svo skreyttur með hrútaberjum og öðru. Þetta vakti mikla lukku.

Dansinn stiginn. Að lokinni dagskránni á sviðinu voru pönnukökur snæddar og að þeim loknum var stiginn dans. Til að auka enn frekar á stemninguna fengum við vanan viðburðastjóra til að koma með hugmyndir varðandi lýsingu og fleira. Síðan var dúndrandi diskótek í hálftíma áður en fólk fór heim.

Salur. Stundum lendum við í veislum þar sem svo mörg skemmtiatriði eru að fólk fær lítinn tíma til að ræða saman. Okkur grunaði að það yrðu fjölmörg skemmtiatriði í veislunni og vildum að fólk fengi næði til að njóta þeirra. Þessvegna varð Salurinn í Kópavogi fyrir valinu. Veislan byrjaði frammi, síðan var haldið inn í tónleikasalinn, þar sem fólk gat setið eins og í leikhúsi og þar var skemmtidagskrá á sviðinu. Að henni lokinni var farið aftur fram, borðaðar pönnukökur með kaffi og stiginn dans. Með þessu fékk fólk frið til að spjalla frammi og þeir sem komu fram á sviðinu fengu frið til þess.

Þakkir. Það er sjálfsögð kurteisi að þakka fyrir sig, sama hvernig boð er. Við fórum þá leið að ýmist senda fólki tölvupóst eða hringja og þakka fyrir.

Fleiri tugir fólks aðstoðuðu okkur við undirbúninginn og framkvæmdina. Við erum þessu fólki óendanlega þakklátir og án allrar þeirrar aðstoðar hefði þetta ekki heppnast svona vel.

0R7B2232-1-1024x683

SHARE