Árekstrar við tengdaforeldra

„Ég hata tengdamömmu, hún er búin að reyna allt til að eyðileggja samband okkar Péturs. Meira að segja núna, þegar hún er veik, spúir hún eitri milli okkar. Sússa lítur á mig bálvond. Ég efast ekki um að þar sé ósvikið hatur. „ Í fyrsta skipti, sem ég hitti tengdamömmu fann ég strax á henni að henni fannst ég púkalega klædd, og að ég væri ekki rétta konuefnið fyrir son hennar. Í áranna rás hefur það heldur ekki farið á milli mála, að börnin mín frá fyrra hjónabandi gætu ekki reiknað með neinu frá henni. Við buðum henni í fermingarveislu yngsta barnsins, en tengdamamma komst ekki, því að hún þurfti endilega að keppa í golfmóti. Hún sendi ekki einu sinni skeyti. Ég er orðin þreytt á illskeytni hennar, og maðurinn minn andmælir henni aldrei, svo að nú vil ég skilnað. Hann tekur meira tillit til mömmu sinnar og fjölskyldu en til mín og barnanna. Hann getur bara átt þessa fjölskyldu sína í friði, því að ég er farin!

Þessi tengdamóðir hefur a.m.k. þrjár ástæður til að kæra sig ekki um Sússu, tengdadóttur sína. Í fyrsta lagi er hún ekkert lík Rósu, fyrri konu Péturs. Í öðru lagi er Sússa ekki af nógu fínu fólki, pabbi hennar rekur byggingavöruverslun. Í þriðja lagi er yngri systir Péturs í þann mund að flytja að heiman. Tengdamóðirin er í sálarkreppu, sem fylgir því að ungarnir flytja úr hreiðrinu. Og maðurinn hennar, pabbi Péturs, heldur sig utan við þetta. Hann leiðir það hjá sér. Það er útilokað að Sússa geti átt góð samskipti við tengdamóður sína. Henni finnst að Pétur og pabbi hans standa saman á móti henni.

En aðrar ástæður gætu legið að baki togstreitunnar milli tengdamóður og tengdadóttur. Til dæmis gæti verið um að ræða afbrýðisemi á báða bóga. Hugsanlega sækjast börnin eftir að vera hjá afa og ömmu, frekar en heima hjá önnum köfnum foreldrum sínum. Og ef tengdaforeldrarnir blanda sér í barnauppeldið er voðinn vís!

Sumar mæður hringja í unga fólkið í tíma og ótíma – t.d. til að spyrja hvort þau séu komin á fætur á sunnudagsmorgni, eða hvað þau ætli að hafa í matinn. Í slíku geta leynst dylgjur um, að tengdadóttirin sofi of mikið, eða hún hugsi ekki nógu vel um manninn sinn. Hún matreiðir aðra rétti en móðir hans.

Annar ásteytingarsteinn gæti verið þegar tengdamamma kaupir handa unga fólkinu gjafir, sem það neyðist til að hafa uppi við, þótt það hafi annan smekk. Ef „vofa móðurinnar hangir í loftinu á heimilinu, situr á miðju matarborðinu eða rúmstokknum, er þröngt á þingi í hjónabandinu. „Mömmu finnst – mamma segir. Það getur stofnað hjónabandinu í bráða lífshættu að blanda skoðunum annarra í innanhússmálin. Oftar á þetta við um móður konunnar en mannsins. Gift fólk verður að gera það upp við sig, hvort það ætlar að vera háð foreldrum sínum framvegis eða öðlast sjálfstætt líf og taka meira tillit til maka síns en foreldranna.

Sjá einnig: Stjörnumerkin og veikleikarnir

Rannsóknir sýna að það eru oftast tengdamæður og -dætur, sem lenda í deilum. Vafalaust tengist þetta „sonardýrkun, sem er dálítið feimnismál, raunverulegt engu að síður. „Mömmunni finnst tengdadóttirin ekki samboðin elsku litla drengnum hennar. Hún álítur hana ruddalegt tálkvendi, sem hefur narrað soninn til sín. Tengdadóttirin leggur sig í líma við að gera tengdamömmu til geðs, en það er vonlaus barátta, því að engin er nógu góð fyrir hann. Tengdamömmusögurnar – eftirlætisefni skrýtluteiknara – eru ekki úr lausu lofti gripnar. Þær eru raunverulegar. Við getum minnst ítölsku móðurinnar úr sjónvarpinu, sem fannst 42 ára sonur sinn of ungur til að flytja að heiman. Ung móðir sagði mér að hún ætti í miklum vandræðum með tengdamóður sína, sem væri ekkja og væri mjög einangruð og einmana. Þegar hún heimsótti þau í fyrsta skipti eftir að barnið fæddist, bar hún barnið undir lampann, kinkaði kolli og sagði: „Já, hann hefur ættarsvipinn úr okkar fjölskyldu. Tengdadóttirin hafði einna helst á tilfinningunni að tengdamóðirin hafi efast um að sonur hennar væri faðir drengsins. Þetta var mjög kvikindislegt og særandi.

Slæm samskipti við tengdafólkið valda ólgu í hjónaböndum og geta leitt til skilnaðar. Við eigum sömu foreldrana alla ævi og áhrif bernskunnar fylgja okkur alla tíð. Þegar við giftumst, fylgir fjölskylda makans og öll hans ætt með í kaupunum. Galdurinn er að halda tengslum við fjölskyldu sína og jafnframt halda sjálfstæði sínu. Ekki er víst að makinn beri sömu tilfinningar til foreldra manns og maður sjálfur. Það er ekki sanngjarnt að ætlast til þess af maka sínum að eyða öllum sunnudögum í kaffidrykkju eða matarboð hjá foreldrunum. Samband okkar við fjölskyldu okkar og tengdafólk er miklu mikilvægari þáttur í lífi okkar en almennt er viðurkennt í nútíma þjóðfélagi. Margir vísindamenn halda því fram að fjölskyldutengslin séu okkur lífsnauðsynleg.

 

SHARE