Ferðalög: Átta sjóðheitir áfangastaðir fyrir einhleypa

Ertu á leið í sumarfrí? Langar þig að safna fyrir fyrirheitnu ferðinni næsta ár? Ertu einhleyp/ur? Veistu ekki hvert er best að fara?

 

Ekki missa móðinn. Fjölmargar náttúruperlur víðsvegar um jarðarkringluna eru nær klæðskerasniðnar að lífstíl einhleypra, bjóða upp á guðdómlega náttúrufegurð, ógleymanlegar heilsulindir, bros á hverju andliti og umfram allt; rómantískt yfirbragð sem hæfir alþjóðlegu samfélagi einhleypra.

 

Honolulu:

Svalandi kokteill á sundlaugarbakkanum, sólin sem allt græðir og svo þessi heiti þarna hinu megin við laugina. Að ekki sé talað um hvítar strendur, unaðslegt nudd að siði Hawai-búa og fliss út í nóttina. Veðráttan er dásamleg í Honolulu – þar fellur aldrei snjókorn úr lofti og sumarið dokar við allt árið um kring. Sem svo aftur veitir gestum sem gangandi tækifæri á að gera “nær allt” í skjóli hins eilífa sumars. Dásamleg sólstrandarparadís með unaðslegum heilsulindum, freistandi veitingastöðum og ekki spillir verðlagið …

 

 

Los Cabos:

Mexikó er fyrirheitna land allra raunverulegra vinkvenna. Og Los Cabos er undursamleg náttúruperla, suðræn og seiðandi, gneistar af töfrum (og töffurum á öllum aldri) en best geymda leyndarmál Los Cabos er svalandi sjávargolan. Sérfræðingarnir mæla með Grand Solmar Lands End Resort & Spa og þá sér í lagi parameðferðum sem gilda jafnt um vinkonur sem pör. Los Cabos býr yfir töfraljóma sem hefur gert ófárri sálinni kleift að ganga í endurnýjun lífdaga sinna, undursamlegum ilmjurtum og umfram allt – rómantík á hverju strái.

 

 

Sidney:

Stelpur, sperrið augun – við greindum nýverið frá því að kynþokkafyllstu karlmenn heims koma frá Ástralíu; landinu sem lúrir hinu megin á hnettinum. Hnyttnir, karlmannlegir og ómótstæðilega strákslegir eru þeir í henni gömlu Sidney en það er ekki allt. Sidney er gríðarleg menningarborg og iðar af listsköpun, tónlistarviðburðum og hrífandi alþjóðlegum áhrifum. Ef stórborgir koma þér á bragðið, þá er Sidney málið.

 

 

Nashville:

 

Settu upp kúrekahattinn, keyptu þér tyggjó og skelltu kántrí á fóninn! Nashville, ótrúlegt en satt, er í gríðarlega örum vexti og hefur sótt í sig veðrið sem eftirsóttur áfangastaður þeirra sem kunna að meta líflegt næturlíf, rómantíska stefnumótamenningu og listrænt umhverfi. Viltu ganga alla leið og drekka í þig dramatískan andann? Jafnvel laumast óboðin inn í brúðkaup hjá bláókunnu fólki og taka með þér vasaklút? Við getum ekki lofað þér inngöngu að athöfninni sjálfri, en á hinu sögufræga Union State Hotel sem reyndar er gömul járnbrautarstöð getur þú svifið einhleypum (og fisléttum) fótum um salarkynnin sem eru margrómuð og blikkað einhvern sjarmörinn. Með blómum skrýtt hár og gloss á vör, kúrekahatt á höfði og vonarglampa í augum.

 

 

New Orleans:

 

Borgin sem grætur göldróttum tárum getur ekki valdið einhleypum vonbrigðum. Á Burboun Street má finna lifandi jazz og blús í hverjum krók og kima, guðdómlegan mat, vingjarnleg andlit og rafmagnaða stemningu. Þar fæddust drottningar voodoo galdra og konungar álaga; sértu í leit að álögum sem laða ástmann að þér – þá skaltu leggja leiðina til New Orleans. Vandinn er sá að þú gætir fallið kylliflöt fyrir áleitinni orku borgarinnar sjálf og bundist New Orleans ævarandi tryggðarböndum.

 

 

 

Montréal:

Hið fullkomna andsvar Norður-Ameríku við París er hin seiðandi Montréal. Margslungin, tælandi og lifandi borgin er þekkt fyrir að magna upp ferðabakteríuna í jafnvel harðskeyttustu hornrekum. Ástleitnir lystigarðar, matreiðsla á heimsmælikvarða og glampandi sólskin gera borgina að áningarstað þeirra þyrstu og þreyttu; þeirra sem skortir innblástur í lífið og tilveruna. Ó. Og vel á minnst. Í Montréal er ógleymanlega jazztónleika að finna.

 

 

 

Edinborg:

 

Edinborg er einfaldlega sexí borg. Ekki af því að Skotar séu óaðfinnanlega myndarlegir, heldur vegna þess að hreimurinn er aðlaðandi. Karlmannlegur. Og sérstakur. Bíddu þá bara þar til þú sérð karlmann í skotapilsi, gleiðfættan og spígsporandi rétt eins og sá hinn sami sé á leið til hinstu orrustu. (Svona í plati en ekki í alvöru auðvitað). Og þú veist hvað þeir segja um alvöru Skota … eða hvað?

 

 

Porto:

 

Porto er ein af ódýrari borgum Evrópu, liggur í alfaraleið og státar af seiðandi sumrum. Þá er dásamlegt að vera einhleyp/ur í Porto, þar sem strendur borgarinnar eru hvorki meira né minna en tuttugu talsins; hvítvín í glasi og ferskur fiskur er á hverju strái og kaffihúsin ekki af verri endanum í ofanálag. Undursamlegt útsýni af hótelsvölunum, en sjálf borgin er á þjóðminjaskrá og nýtur verndar vegna náttúrufegurðar einnar saman.

SHARE