„Ég bý við þá staðreynd að hafa misst manninn minn til annarar konu“

ATH. Þessi grein er aðsend. Lesendum er frjálst að senda inn greinar undir nafnleynd í Þjóðarsálina, en þær skoðanir sem birtast hér í Þjóðarsálinni endurspegla hvorki ritstjórnarstefnu né skoðanir HÚN.IS 

 

Á þessum árstíma eiga margir um sárt að binda. Þetta er árstíminn sem fjölskyldur koma saman og gleðjast og njóta samvista við hvort annað. Mikill skilningur og samúð ríkir í samfélaginu fyrir þeim sem hafa misst ástvini á árinu og eru þar af leiðandi að upplifa sín fyrstu jól án ástvinarins. Það að þurfa að halda jól í fyrsta skipti eftir missi á maka, er þungt á sálinni. Þegar skilnaður verður á árinu þá er það líka í fyrstu jól án makans.

Mis mikill skilningur er í samfélaginu
fyrir því þegar manneskja
er ekki bara fegin að vera laus

Jafnvel kemur þá sorg og stundum samviskubiti yfir því að syrgja. Eflaust varst það þú sem vildir skilnað, eða það var sameiginleg ákvörðun að skilja, kannski vildir þú ekki skilnað. Mis mikill skilningur er í samfélaginu fyrir því þegar manneskja er ekki bara fegin að vera laus, sérstaklega ef hjónabandið hefur ekki verið sérstaklega gott og annar aðilinn verið beittur óréttlæti, hvers vegna er þá sá aðili ekki bara feginn að vera laus? Hvers vegna þarf sá aðili að syrgja?

Þegar missir á maka verður er alveg eðlilegt í augum samfélagsins að manneskja fari í gegnum sorgarferli. Til eru margir pistlar hvernig gott er að fara í gegnum þessar tilfinningar sem fylgja sorginni og söknuðinum. Margir pistlar eru líka til um hvernig gott er að takast á við tilfinningarnar sem fylgja skilnaði, sem að eru líka sorg og söknuður.

Ekki virðist samt eins mikill skilningur fyrir því að tilfinningalega upplifunin er á þessum tíma árs er alveg jafn mikill. Þegar skilnaður fer ekki fram í góðu, annar aðilinn er ósáttur eða jafnvel báðir. Þá myndast oft fleiri erfiðar upplifanir. Þegar manneskja kemur úr erfiðu hjónabandi, þá virðist eins og samfélagið sé sammála um að hún eigi nú bara að vera feginn að vera laus úr þessu sambandi. En raunin er samt sú að manneskjan þarf að fara í gegnum sama sorgarferlið og aðrir.

Ég skammast mín fyrir að syrgja

Ég bý ekki við þá hörmulegu upplifun að hafa misst manninn minn í dauðann, ég bý við þá staðreynd að hafa misst manninn minn til annarar konu. Maðurinn minn til 18 ára valdi það að fara frá mér og börnunum fyrir aðra konu og ég skammast mín fyrir að syrgja. Núna er kominn sá tími að ég þarf að halda mín fyrstu jól án mannsins míns, mannsins sem ég var búin að elska í 18 ár. Hann er ennþá á þessari jörð en hann er bara ekki lengur maðurinn minn.

Ég syrgi í hljóði, ég græt þegar enginn sér til, því að ég á ekki að vera að syrgja, ég á að vera fegin. Hjónabandið var ekki mjög gott, það einkenndist af andlegu ofbeldi, kúgun og niðurlægingu. Þannig að umhverfið segir mér að ég eigi bara feginn að vera laus, eigi að vera bara glöð að hafa fengið sjálfræðið mitt aftur og að geta verið sjálfstæð. Og jú auðvitað er ég fegin að geta verið sjálfstæð, en það er einmitt ástæðan fyrir því að ég skammast mín fyrir að syrgja og að ég græt bara þegar enginn sér til. Ég er í raun og veru ekki að syrgja hann, eða það sem var, heldur er ég að syrgja það sem aldrei verður. Ég er að syrgja vonina.

Ég syrgi í hljóði,
ég græt þegar enginn sér til

 

 

Í 18 ár bjó ég með von í brjósti um að einn daginn myndi hann elska mig jafn heitt og ég hann, að einn daginn myndi hann sjá að sér og hætta að koma svona illa fram við mig. Vonin er sterkur vinur og óvinur. Ég syrgi vonina, trúna og draumana sem hefðu getað orðið en verða aldrei.

En ég skammast mín fyrir að syrgja því ég ætti bara að vera feginn.

Þegar við syrgjum erum við nefnilega ekki svo mikið að syrgja það sem við áttum heldur líka það sem við munum ekki koma til með að eiga. Það að syrgja maka, alveg sama hvort það er eftir skilnað eða við andlát, þá erum við mikið að syrgja draumana, vonirnar og langanirnar. Það sem við ætluðum að hafa og það sem átti eftir að koma, ekki það sem við vorum búin að búa til.

Þökkum fyrir góðu minningarnar og alla reynslu, en leyfum okkur að syrgja það sem við þurfum að syrgja. Enginn ætti að þurfa að syrgja einn og sérstaklega ekki að þurfa að skammast sín fyrir það. Sýnum kærleik og hlýju, gefum knús og verum til staðar.

Höfundur: Jóhanna

 

Tengdar greinar:

Þjóðarsálin: Keypti ónýtan bíl á 600.000 á Facebook
Hefur mér verið nauðgað? Eða hef ég verið misnotuð?
Ég er móðir, ég á 2 börn, ég er einstæð

 

SHARE