„Ég vaknaði með skrítið bragð í munninum“ – Stúlka segir frá reynslu sinni

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

Maður hefur svo oft lesið greinar um nauðganir nú til dags. Eina sem þarf er bara einn hugrakkann aðila til að flest allir þori að koma út.

Ég, sjálf, hef bara sagt mjög fáum manneskjum og til dagsins í dag hef ég enn ekki sagt foreldrum mínum. Það eru svona um það bil 6 vinir mínir sem vita af þessu og vinir sem ég treysti fyrir lífi fjölskyldu minnar ef einhvern tímann kæmi að því (vonandi samt aldrei).

Auðvitað veit gerandinn af þessu.
Ég kynntist þessari undarlegu manneskju á síðu sem vinkona mín lét mig fyrst byrja á.. svona í gríni. Það var svo sem ekkert að því, fór mjög varlega í þetta og hvern ég hitti. Allt í allt þá hitti ég bara tvær manneskju inn á þessari síðu því að ég var alin upp með að vera alveg svaka varkár þegar kemur að einhverju svona.
Köllum aðilann bara Helgi (það er samt sem áður alls ekki nafnið hans! Vil taka það fram núna)
Ég byrjaði á því að skrifast eitthvað á við Helga í byrjun, við höfðum eitthver sömu áhugamál. Hann virtist alveg fínn náungi fyrst um sinn. Ég komst að því að hann bjó bara rétt hjá mér, hann stakk upp á að við myndum hittast einhvern tímann, sem ég var alveg til í. En þar sem maður hefur heyrt þessar sögur um að þetta geta verið eldgamlir menn að nýta sér ungar stúlkur, þá tók ég ekki mikla á hættu og hitti hann í opnu rými þar sem auðvelt er að forða sér (ef ske kynni) og ég jafnvel tók vinkonu mína með til öryggis.
Hitti hann og hann var sá sem hann sagðist vera. Hægt og rólega byrjaði ég að hanga eitthvað með honum.
Það var samt eitthvað við hann sem sagði mér að ekki treysta honum, en þú veist, hverjir fara eftir þeirri hugsun?
Kemur svo í ljós að við erum skyld fjárin hafi það, búum auðvitað á Íslandi. Mér fannst þetta frekar skondið en ekki honum, því hann var farinn að verða smá hrifinn.
Við tengdumst mjög mikið yfir þann tíma sem ég hékk með honum og hans vinum, hann vann inn traust mitt, en ég sá samt í gegnum alla „töfrana“ sem hann hafði gagnvart öllum stelpum sem hann stjórnaði. Þær hoppuðu þegar hann sagði þeim að hoppa, hann gat sagt þeim að fara heim til hans og gera ákveðna hluti og þær hlupu til eins og kettir þegar þeir sjá lazer.

Á þessum tíma bjó hann hjá fjöldskyldu sinni
Stundum, eins og gerist stundum á Íslandi, þá komu þessi hræðilegu veður þar sem ekki var hægt að keyra.
Þannig að það stóð til að ég hafði ekkert val og þyrfti að gista hjá honum því enginn gat sótt mig og að labba var samt frekar langt og ennþá lengra í „óveðri“.
Það var svo sem í fínu lagi. Þar byrjaði ég að svo sem treysta honum meir og meir. Hann reyndi ekkert og var alveg „herramannslegur“.

Það var ekki fyrr en mörgum mánuðum seinna sem eitthvað skrítið gerðist, Ég gisti stundum þar þegar við ætluðum hvort eð er að hittast hjá honum næsta dag með vinum. Fyrst hélt ég bara að ég væri að ímynda mér.
Fyrsta kvöldið sem þetta gerðist þá dreymdi mig mjög skringilega, mjög óvenjulegur draumur miðað við alla drauma sem ég hafði fengið. Mér fannst, ég sver, að einhver væri að segja fyrirgefðu við mig, svo um morguninn þá leið mér rosa undarlega ég bara gat ekki sett fingurinn á hvað það var. Svo ég pældi nú ekkert eitthvað rosa mikið í þessu.

Síðan byrjaði þetta að koma oftar fyrir. Ég vaknaði með skrítið bragð í munninum eða það var einhver skrýtin lykt af mér. Eins og ég sagði þá hélt ég bara að ég var að ímynda mér. Kannski var þetta bara lykt vegna þess hversu heitt það var í herberginu. Síðar meir, pældi ég meira í þessu, þetta var bara að gerast heima hjá honum. Þetta var aldrei heima hjá mér né þegar ég gisti hjá vinkonum mínum.
Seinna meir hætti ég eiginlega að gista hjá honum, þá gerðist ekkert, en það kom til eitt kvöld að veðrið var svo hræðilegt að ég gat ekki labbað heim, en þar sem vinur hans var ennþá þarna þá leið mér margfalt betur. Þar til hann sagðist ætla heim. Ég náttúrulega bjó lengra frá Helga en vinur hans, vinur hans bjó ekki fimm mínútur í burtu frá honum.

Þetta kvöld vaknaði ég við eitthvað skrýtið, ég vaknaði við að ég lá á maganum og hann, skulum nota orðið notfærði sér það að ég hafi verið sofandi. Eftir það þá var erfiðara að vera í kringum hann, ég hætti að gista og labbaði heim í gegnum hættulegt hverfi um 5 að morgni í stað þess að gista því að ég bara gat það alls ekki.

Í dag hata ég Helga mjög mikið. Það tók mig frekar langan tíma til að segja vinkonu minni frá þessu og hún tók þessu furðulega, varð smá hissa en ekki studdi mig ekki.  Það var ekki fyrr en ég sagði lang besta vini mínum þessar fréttir. Hann varð svo reiður að hann vildi drepa Helga og var mjög nálægt því.
Því miður þá var ég ekki eins sterk og ég er núna og eitt kvöldið þá þurfti ég því miður að gista þar aftur en þá fór ég ekki að sofa. Helgi sagði að ég gæti verið í sófanum, þar sem að kærastinn minn var vinur hans. Seinna sagðist hann ekki nenna að ganga frá á sófanum og lét mig sofa við hliðina á honum. Ég var andvaka allt kvöldið, þegar klukkan var orðin fimm um morgunn, þá var ég svo þreytt en ég leyfði mér ekki að sofna, Helgi samt inn á milli knúsaði mig og ég reyndi alltaf að ýta honum til baka, ég hélt mér vakandi þar til kærastinn minn kom, ég hélt í höndina á honum, hann vissi alveg hvað Helgi hafði gert, og ég sagði með daufri röddu að ég reyndi að halda mér vakandi þar til hann mundi koma og svo rotaðist ég.

Eftir þetta gisti ég auðvitað ekki aftur hjá honum, lenti í rifrildi við hann (sem betur fer) og ég forðast þess helst að tala við hann og um hann, en þar sem ein vinkona mín er alveg föst á honum og ég bið hana um að hætta að tala um hann þá heldur hún samt áfram. Ég persónulega er að bíða eftir að ég verði svo pirruð að ég öskri á hana því að ég vil ekkert segja henni hvað gerðist, ég treysti henni ekki baun fyrir þessu þannig ég er ekkert að fara að segja henni það.

Ég er nýhætt að „fríka“ út í hvert sinn sem ég tók strætó nálægt hans húsi, ég er nýhætt að vera bara dauðhrædd í strætó að hann mundi allt í einu labba inn. Nýhætt að vera hrædd að líta út úr bílglugganum eða strætóglugganum niður hjá götunni hans um að hann gæti séð mig. Hætt að vera hrædd um að hann væri að koma að sjoppunni sem ég fer í og hætt að vera hrædd að hann kæmi í vinnuna hjá mér.

Það tók mig 2 ár til að geta hætt að vera hrædd. Núna er ég frekar á stiginu þar sem ég er bara reið. Stundum út í sjálfa mig, oftar en út í hann. „Vinkona“ mín gerir ekkert annað en að tala um hann. Maður hittir hana í tíu mínútur og hún talar um hann. „Ohhhh af hverju er Helgi svona vondur og erfiður? Hvað þarf ég að gera til að hann hafi áhuga á mér? búhú!“ Ég hef sagt henni svo oft hvað ég fyrirlít þessa mannveru en hún gerir ekkert annað en að tala um hann og nú fylgir óttinn minn mér í skólanum alla daga, þá meina ég ALLA daga.

Um daginn þá var ég að sækja hana heima hjá Helga, ég hringi í hana og hún svara ekkert, ég bíð í smá og þar sem ég þekki Helga betur en allir þá fer ég að hafa áhyggjur og neyðist til að fara og banka á hurðina og þar er hann og hagar sér eins venjulega og hægt er, hann talar eins og ég hafi bara hitt hann í gær og værum bestu vinir. Fyrirlitningin sem ég fann fara í gegnum mig. Þar sem það var fólk þarna þá varð ég að vera„kurteis“. Ég var alin upp við að vera kurteis, þarf ekki að líka við manneksju en vera kurteis. En því þessi indæla stúlka gat ekki bara þagað í þessi mörg skipti sem ég bað hana um það þá er óttinn minn komin aftur, núna bara hefur hún færst á annan stað sem ég er oftar á en annarstaðar, skólanum.

Eins og ég gerði áður (sem ég var ný búin að losna við) þá vakna ég stundum á kvöldin opna augun eins hratt og ég get vegna hræðslu um að hann sé þarna, ég þarf stundum að kíkja tvisvar á kærstann minn til að vera alveg 100% viss um að þetta sé ekki hann, (kærastinn minn veit ekkert af þessu) og um leið og ég er alveg fullviss um að þetta sé kærastinn minn þá held ég mjög fast utan um hann og tekur mig stundum 2-3 klukkutíma að sofna.

Ég sjálf hef hjálpað mörgu fólki og hlustað á margar sögur um svona og reynt að láta þeim líða betur og aldrei sagt orð um þetta og hræðsluna sem fylgir þessu. Ég hjálpa þeim því ég veit hvernig maður lítur á sjálfan sig eftir þetta, hvað ef ég hefði gert þetta í stað þess að gera hitt hvað ef ég hefði haft meiri meðvitund um það sem var að gerast.. hvað ef ég hefði bara vaknað fyrr!! hvað ef ég hefði fattað fyrr hvað var að gerast.
Það sem ég þoli ekki er þegar ég heyri sögurnar frá fólki sem ég þekki mjög vel er að þeim finnst þetta þeim að kenna, ég var þar ég veit hvernig það er, en það er til fólk sem lenti í þessu fyrr en ég sem gátu ekkert ráðið og voru aðeins krakkar og kenna sér um, þau hefðu ekki átt að þurfa þess.. enginn á að þurfa að kenna sér sjálfum um fyrir gjörðum annara!

Nauðgun er nauðgun sama hversu smá hún er. Hún nær til manns á hætti sem fólk sem hefur ekki lent í þessu skilur ekki. Maður sér þessa manneskju allstaðar, og óttinn við að manneskjan sé í kringum er svo slæm, persónulega finnst mér tilfinningin á kvöldin verst.. tíminn þar sem það er myrkur og þér líður eins og manneskjan sé þarna starandi á þig, svo mikill ótti alltaf.

Fyrir suma þá fela þeir þessar tilfiningar eða breyta þeim í hatur. Fyrir aðra þá fer þessi tilfinning aldrei, það er ekki til hlutur sem heitir „get over it“ þegar kemur að svona hlutum og þeir sem halda það persónulega finnst mér þær manneskjur mjög fáfróðar eða eiga sérstakt pláss í helvíti það er enginn millivegur.
Maður sér á svo mörgum commentum á svo mörgum síðum alltaf eitt eða fleiri sem reyna að brjóta manneskjunna niður sem er að segja sína sögu og hvað gerðist…
Til að svara þessu heimskulegu spurningum sem koma alltaf því fólk er heimskt. Ég svaf í öllum fötunum mínum, ég var í gallabuxum (ekkert þröngar), ég var í hlýrabol, brjóstarhaldara innanundir og ég svaf í peysunni minni líka og hún var alveg rennd upp. Ó og já í sokkum líka 🙂 (of fáklædd?).

Ég drakk ekkert… ekki einn einasta sopa… ég drakk ekki á þessu tímabili.. Ég sýndi mig ekki mikið, ég tældi hann ekki baun og ég vildi þetta ekki og bað alls ekki um þetta á neinn hátt rétt eins og allar stelpur og karlmenn sem eru nauðguð. Það biður enginn um nauðgun.

Ég kærði hann aldrei, móðir og faðir minn hafa allt mitt traust, en ég bara get ekki sagt þeim þetta á neinn hátt, ég vil ekki að þau viti að þetta hafi komið fyrir varkáru dóttur þeirra og ég veit að móðir mín mundi myrða drenginn og faðir minn ætti afganginn. Ég vil frekar að hann eigi hræðilegt líf og „karma“ eða „örlög“ komi í þetta og hann mun lenda í einhverju hræðilegu.

Afsakið hvað þetta var frekar langt, ég vildi líka setja smá skilaboð til fávitanna sem halda því fram að maður biðji um nauðgun og til þeirra sem halda að þetta sé þeim að kenna að það er alls ekki þeim að kenna.

SHARE