„Eina vandamálið er mamma hans“

ATH. Þessi grein er aðsend. Lesendum er frjálst að senda inn greinar undir nafnleynd í Þjóðarsálina, en þær skoðanir sem birtast hér í Þjóðarsálinni endurspegla hvorki ritstjórnarstefnu né skoðanir HÚN.IS 

Ég las grein hérna um „7 ástæður til að flýja ef kærastinn þinn er mömmustrákur“ og sá þar að allt þetta passar við kærastann minn! Hann býr reyndar einn en foreldrar hans búa í næstu götu. Við erum búin að vera saman í rúmt ár og erum í sambúð, það gengur rosalega vel og við erum mjög ástfangin. Eina vandamálið er mamma hans, eða sambandið hans við móður sína réttara sagt.

Hann gerir liggur við ekki neitt nema með hennar samþykki, hún er alltaf fyrsta símtalið hans á daginn og síðasta líka. Kannski hljómar það ekki svo slæmt en þegar þú vilt eiga rómantískt kvöld með kærastanum þínum þá er það soldið „turn-off“ þegar hann hringir svo í mömmu sína þegar þið eruð búin að njóta ásta! Það sem mér finnst samt meira „turn-off“ er að þegar hann talar við hana þá breytist í honum röddin og hún verður barnalegri. Það er ekki eins og hann sé svo ungur að hann viti ekki betur, hann er kominn yfir þrítugt! Hann hefur farið með móður sinni og verslað hluti inn á heimilið okkar, hluti sem við ætluðum að versla saman og þótt að mér finnist hlutirnir alveg ágætir þá vil ég hafa eitthvað um það að segja hvað kemur inn á heimilið mitt.

Ég veit ekki alveg hvað ég á að gera, alltaf þegar ég ræði þetta við hann þá finnst honum ég vera að gagnrýna mömmu hans og segir að ég þoli hana ekki og að ég þurfi bara að kynnast henni betur. Mig langar ekkert endilega að vera með tengdamóður mína inn á heimilinu mínu stanslaust eða þurfa að bíða eftir því að hún gefi samþykki á það sem við ætlum að gera. Kannski er þetta eðlilegt, mamma míns fyrrverandi var ekki í lífinu hans og því hef ég ekkert viðmið. Mér líður samt ekki vel með þetta og finnst við vera 3 í þessu sambandi, er einhver með ráðleggingar handa mér? Er þetta eðlilegt?

 

SHARE