Ekki gera þér þetta! – „Mig langaði bara að verða eins og allar flottu konurnar“

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

————————

Þetta byrjaði allt, ja líklega þegar maður varð unglingur hvenær sem það er. Það gerist allavega á ákveðnum tímapunkti að margir verða uppteknir af líkama sínum og það kom fyrir mig. Mér fannst lærin mín og rassinn alltof stór og maginn ekki nógu flatur. Ég fór því að stunda íþróttir af krafti og fór að mæta mikið í ræktina.

Ég grenntist aðeins og var bara heilbrigð, svo borðaði ég líka hvað sem ég vildi og þurfti ekkert að hugsa um mataræðið. Fólk í kringum mig var duglegt að hrósa mér fyrir það hversu flott ég væri og í flottu formi. En þannig leið mér ekki. Á þessum tímapunkti var ég 56 kíló. En mér fannst lærin, rassinn og maginn ekki nógu flott og hélt því fram að fólk væri bara að segja þetta af kurteisi.

Helvítið fór af stað

Þegar ég var 17 ára fór ég svo í kjálkaaðgerð og þá fór helvítið af stað. Ég var á fljótandi fæði í einn mánuð og á þessum mánuði varð ég heltekin með mat. Ég skoðaði uppskriftir, hugsaði um mat og talaði um hann endalaust. Svo þegar ég mátti fara að borða, þá borðaði ég sko sannarlega af krafti! Ég missti fimm kíló vegna aðgerðarinnar en þegar ég fór að borða fór ég upp í 57 kíló. Ég sá þessa tölu eftir tvo mánuði og uppáhalds gallabuxurnar mínar rifnuðu (rassinn var búin að stækka of mikið) þá tók ég ákvörðun. Þessi litla ákvörðun hafði og hefur enn mikil áhrif á líf mitt.

Fannst hún sterk að geta sleppt mat

Ég ákvað að ég væri núna að verða of feit ef ég héldi þessu áfram svo ég ætlaði bara aðeins að breyta mataræðinu sem ég gerði. Um sumarið þá borðaði ég meira af ferskmeti og hreyfði mig gífurlega mikið með sundi og hjólreiðum. Í rauninni var ég bara nokkuð heilbrigð og varð 54 kíló. En svo um haustið fór ég á ræktarnámskeið þar sem flestar konur voru í yfirþyngd og ég fór að miða mig að ráðunum sem voru gefnar þeim, að sleppa brauði, borða ekkert nammi, drekka bara vatn og fleira í þeim dúr. Þá var ég farin að bæði minnka matarskammtana og borða enn þá takmarkaðara enn áður.

Bannlistinn minn fór alltaf stækkandi. Þegar námskeiðið var búið var ég orðin 50 kíló og þá fór ég beint á annað, fit pilates en ég hætti að mæta á það eftir stuttan tíma. Ég skrópaði í skólann, ég hætti að hitta vini, hætti að njóta þess að lifa. Ég hugsaði bara um mat, hvað mig langaði í mat en ég gat sleppt því og orðið flott. Og fannst ég sterk að geta sleppt því. En aftur á móti lá ég undir sæng heima í fullt af fötum dauðuppgefin og að deyja úr kulda. Ég var farin að verða orkulaus og stöðugt kalt. Vinir og fjölskylda sáu mun á mér, ég var grá og guggin og hætt að hlæja og grínast eins og ég hafði alltaf verið. Ég var innantóm og var einfaldlega ekki að lifa þó ég andaði.

„Ég elskaði að fara svöng að sofa“

Ég fór í fjölskylduafmæli og þá var boðið upp á köku í eftirrétt, ég var hrædd að vekja athygli svo ég ákvað að fá mér eina mjög litla sneið en eftir hana varð ég fárveik. Mér var svo óglatt og leið svo illa að mig langaði að deyja. Þá sá mamma að ég væri með átröskun. Það var átröskunin sem gerði mig veika eftir kökuna, ekki maginn.
Þá ákvað ég að viðurkenna það fyrir mér, þó ég væri kannski ekki svona hættulega mjó eins og maður sá á plakötum og þannig en ég var samt með átröskun.

Ég fékk þá hjálp en þurfti að bíða í 1,5 mánuð eftir að komast í meðferðina. Á þessum einum og hálfa mánuði versnaði mér hræðilega, ég byrjaði að svelta mig meira og meira. Mér leið nefnilega eins og ég þyrfti að vera mjórri þar sem ég væri að fara í átröskunarmeðferð, ég var hrædd um hvað öðru fólki myndi finnast ef stelpa sem er 48 kíló og 165 cm á hæð væri að fara í meðferð gegn átröskun. Að ég væri ekki nógu mjó til þess eða eitthvað þannig. Ég elskaði tilfinninguna að fara svöng að sofa eða bara vera svöng yfirhöfuð. Ég elskaði að vera svöng og hugsa um djúsí mat eða fara inn í eldhús og þefa af alls konar mat. Því minna sem ég borðaði því uppteknari varð ég af mat. Það er einfaldlega út af því að líkaminn vantar virkilega mat og sendir þá heilanum skilaboð að nú sé komin tími til að fá mat en ég tók skilaboðunum ekki þannig á þessum tíma.

Tölurnar á vigtinni stjórnuðu líðaninni

Ég hætti alveg að hreyfa mig og lá í rúminu flesta daga, hitti enga nema fjölskylduna og borðaði mjög lítið. Ég svaf í þykkum sokkum með tvær sængur og eina sem ég gerði var að lesa eða hanga á netinu. Hápunktur dagsins var þegar ég vigtaði mig og sá að ég var enn þá að léttast eða gerði ummálsmælingu og sá hvað tölurnar lækkuðu sífellt. Þessar tölur sem ég skoðaði oft á dag réðu algjörlega hvernig mér leið, ef þær voru eins eða höfðu hækkað varð ég ótrúlega þunglynd.

Jólin voru ekki góður tími enda er mikið um mat í kringum hann. Mér leið illa yfir hátíðirnar, lá ég að mestu uppí rúmi, starði á vegginn og grét. En í byrjun janúar fór ég í meðferðina. Þá var ég 42 kíló og var hætt að geta legið á gólfinu því beinin stungust á gólfið og var það mjög sárt. Ég gat haldið utan um lærið á mér efst uppi. Brjóstin mín voru horfin og rassinn alveg flatur.

„Ég er að takast á við anorexíu“

Þessi tími er búin að vera sá versti í lífi mínu. Mig langaði bara að verða eins og allar flottu konurnar sem maður sér alls staðar, í blöðum, sjónvarpi. En ég gerði mér bara ekki grein fyrir að ég var að miða mig við óheilbrigðar konur eða manneskjur sem er búið að photoshoppa svo mikið að þær eru óþekkjanlegar. Áður en ég tók til aðgerða var ég flott, ég var heilbrigð og í góðu formi eins og fólk sagði. En ég neitaði að trúa því, átröskunin var á þeim tímapunkti búin að planta sér í hausnum á mér og stjórnaði öllu. Núna er ég hins vegar á batavegi og er ótrúlega þakklát fyrir að fólkið í kringum mig hafi hjálpað mér að gera mér grein fyrir hversu alvarlegt ástand mitt var og fékk mig til að hlusta.

Ég er að takast á við anorexíu þegar hún er bara búin að vera alvarleg í rúmlega hálft ár á meðan sumir takast á við hana þegar þeir hafa glímt við hana í tugi ára. Það eru núna minni líkur á að ég hafi eyðilagt einhverja starfsemi líkama míns og er ég svo glöð með það því að þessi sjúkdómur hefði auðveldlega getað eyðilagt svo margt ef hann hefði náð að ganga lengra og mögulega drepið mig á endanum. Átröskun er sjúkdómur og getur leitt til dauða. Við erum öll með mismunandi líkama, með mismunandi orkuþörf, hættum að miða okkur endalaust við aðra og lærum að elska líkama okkar. Ef við borðum fjölbreytt og nokkuð hollt, hreyfum okkur, sofum vel og erum í kringum fólkið sem við elskum þá erum við að lifa heilbrigðu lífi. Tala á vigt eða það sem aðrir segja um mann hefur ekkert að segja um hvort maður sé heilbrigður.

Þetta er ekki eftirsóknarvert líf

Þetta er reynsla mín á anorexíu og ég vona að þeir sem lesi þetta geri sér grein fyrir að þetta er ekki eftirsóknarvert líf, það að vera mjór gerir mann svo sannarlega ekki hamingjusaman. Svo langar mig bara að segja að ef þú ert með einhverja átröskun, fáðu hjálp! Það er ótrúlega erfitt að reyna takast á við þetta einn, miklu auðveldara að fara í gegnum þetta með góðum stuðningi.

SHARE