Er hættulegt að taka of mikið af vítamínum?

Til þess að líkaminn geti starfað eðlilega þurfum við að fá 13 mismunandi vítamín út fæðunni sem við neytum. Þessi vítamín gegna margvíslegum hlutverkum í líkamanum og skorti eitthvert þeirra er hætta á hörgulsjúkdómi.

Vítamín skiptast í vatnsleysanleg vítamín annars vegar og fituleysanleg hins vegar. Til vatnsleysanlegra vítamína teljast B-vítamínin, sem eru 8 alls, og C-vítamín. A-, D-, E- og K-vítamín eru hins vegar fituleysanleg. Þessi grundvallarmunur á vítamínflokkunum tveimur hefur mikið að segja ef við fáum of mikið af einhverju vítamíni. Sé vítamínið vatnsleysanlegt skilst umframmagnið út með þvagi og afleiðingarnar eru að mestu skaðlausar. Sé vítamínið aftur á móti fituleysanlegt safnast það fyrir í líkamanum, einkum í lifrinni, og getur haft mjög skaðleg áhrif.

Fituleysanleg vítamín

Safnist of mikið af A-vítamíni fyrir í líkamanum getur það verið mjög skaðlegt. Einkenni A-vítamíneitrunar eru höfuðverkur, hárlos, ógleði, uppköst, flögnun húðar, lifrarskemmdir og óeðlilegur fósturþroski hjá barnshafandi konum. Of mikið A-vítamín á fyrsta þriðjungi meðgöngu hefur til dæmis verið tengt við fósturgalla, eins og andlits- og taugagalla.

Of mikið af D-vítamíni getur leitt til aukinnar kalkupptöku úr meltingarveginum og jafnvel endurupptöku kalks úr beinum. Aukið kalkmagn í blóði getur haft í för með sér óeðlilegar kalkútfellingar í mjúkum vefjum, svo sem hjarta og lungum, og dregið þannig úr starfsgetu þeirra. Helstu einkenni eru vöðvaslappleiki, höfuðverkur, lystarstol, ógleði, uppköst og beinverkir. Fái barnshafandi konur of mikið D-vítamín getur afleiðingin orðið skertur andlegur eða líkamlegur þroski barnanna.

E-vítamíneitrun er nánast óþekkt þótt það geti einnig safnast fyrir í líkamanum. Helstu einkenni of mikils magns af E-vítamíni eru ógleði, höfuðverkur, þreyta, vöðvaslappleiki og sjóntruflanir. Hjá fólki sem tekur blóðþynningarlyf eykst hætta á blæðingum og marblettum, en E-vítamín eykur áhrif þessara lyfja.

K-vítamíneitrun er einnig mjög sjaldgæf. Helst er hætta á henni hjá fólki sem þarf að taka blóðþynningarlyf, en vítamínið truflar verkun þeirra.

Vatnsleysanleg vítamín

Of stórir skammtar af B-vítamínum eru oftast einkennalausir og eru eitranir af þeirra völdum sjaldgæfar. Hér verða þó talin upp helstu einkenni B-vítamíneitrana.

Einkenni þíamíneitrunar (B1-vítamín) eru hraður eða óreglulegur hjartsláttur, lágur blóðþrýstingur, höfuðverkur, ofnæmisviðbrögð, slappleiki og krampar.

Þvagið verður skærgult ef tekið er inn of mikið af ríbóflavíni (B2-vítamíni), en eitrunareinkenni eru ekki þekkt.

Helstu einkenni um of stóran skammt af níasíni (B3-vítamíni) eru húðroði, kláði, sog- eða blísturshljóð við öndun, höfuðverkur, niðurgangur og uppköst.

Eitrun af völdum pýridoxíns (B6-vítamíni) getur valdið hraðri öndun, sviðaverkjum í augum, nefi og eyrum, skorti á vöðvasamhæfingu og jafnvel lömun.

Stórir skammtar af fólínsýru ( B9-vítamíni) valda sjaldnast einkennum., en of mikið magn hennar getur hins vegar falið lífshættulegan sjúkdóm sem stafar af skorti á B12-vítamíni og heitir illkynja blóðleysi (e. pernicious anemia). Mjög stórir skammtar af fólínsýru geta jafnframt skaðað miðtaugakerfið.

C-vítamín skolast yfirleitt út með þvagi, en ef tekið er inn 1-2 grömm í einu getur það valdið niðurgangi og óþægindum í meltingarfærum.

Ráðlagðir dagskammtar

Að lokum skal tekið fram að áhrif stórra skammta af einstökum vítamínum geta farið eftir því hvaða önnur næringarefni er verið að innbyrða um leið. Best er að fá ráðlagða dagskammta (RDS) af öllum vítamínum úr fæðunni. Ef það reynist erfitt er í flestum tilfellum óhætt að taka fjölvítamíntöflur með málmsöltum samkvæmt leiðbeiningum. Þar eru ráðlagðir dagskammtar af vítamínum og helstu málmsöltum sem við þörfnumst. Þótt við fáum með þessu ef til vill örlítið meira en ráðlagðan dagskammt af einhverju þessara bætiefna er það í flestum tilfellum svo lítið að það kemur ekki að sök. Sjálfsagt er að ráðfæra sig við heimilislækni áður en byrjað er að taka inn fæðubótarefni, þá sérstaklega ef um margar gerðir er að ræða. Ýmis lyf geta jafnframt haft áhrif á vítamínupptöku. Það er því vert að hafa í huga að það er ekki bara magn og samsetning vítamína sem skiptir máli, heldur einnig hvaða lyf eru tekin samhliða.

-Þuríður Þorbjarnardóttir, líffræðingur.

untitled

SHARE