Fær að lifa eins og drottning í tvær vikur

Arna Ýr Jónsdóttir var krýnd Ungfrú EM á dögunum. Hún fær afnot af svítu með öllu tilheyrandi og kort til að kaupa það sem hugurinn girnist á meðan hún sinnir verkefnum fyrir keppnina

 

„Ég vissi ekkert hvað ég var að fara út í. Hvort ég væri að fara að keppa í fótbolta á háhæluðum skóm, eða hvað,“ segir Arna Ýr Jónsdóttir, Ungfrú Ísland og nýkrýnd Ungfrú EM., Keppnin Miss EM er haldin á fjögurra ára fresti í tengslum við EM í knattspyrnu og var Örnu boðið að vera með í ár vegna þátttöku íslenska landsliðsins í mótinu.

Bjóst alveg við að vinna

„Ég fékk boð um að taka þátt í þessari keppni í janúar á þessu ári en skilaboðin fóru í „spam“ hólfið á facebook. Yfirleitt fær maður símtöl með svona tilboðum en þetta fór í gegnum facebook. Ég var svo bara heppin að rekast á skilaboðin í mars og sagði strax já.“
Þrátt fyrir að Arna vissi lítið við hverju hún sagði já, þá skýrðist það fljótlega, enda skipulagið á keppninni mjög gott og upplýsingagjöfin til fyrirmyndar, en Miss EM er í eigu Miss Germany corporation.

Aðspurð segist Arna alveg eins hafa búist við því að vinna, enda það tilgangurinn með því að taka þátt. „Ég ætlaði mér að vinna og bjóst alveg við því að geta staðið mig vel. Þetta var lítil keppni og ég er með góða enskukunnáttu. Stelpurnar töluðu reyndar allar þýsku og ég hélt á tímabili að ég væri út úr myndinni vegna þess. Ég væri utanaðkomandi og talaði ekki tungumálið. Hélt að það væri klíka í þessu,“ segir Arna, en í ljós kom að svo var ekki. Hún fékk svo að vita það síðar að hún hefði verið með helmingi fleiri stig en keppandinn í öðru sæti.

Með einka sundlaug

Arna fer út aftur í lok júlí þar sem hún mun starfa fyrir Miss Germany corporation í tvær vikur í ýmsum verkefnum. Og það mun ekki væsa um hana á meðan.

„Ég fæ svítu á fimm stjörnu hóteli með einka spa og sundlaug uppi á toppnum á byggingunni og einka líkamsræktarstöð. Svo fæ ég kort og má kaupa það sem ég vil. Þau koma fram við mig eins og algjöra drottningu. Það verður gaman að fá að upplifa það í tvær vikur,“ segir Arna sem að öllu jöfnu er bara venjuleg stelpa sem vinnur í World Class og stundar nám í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, en hún stefnir á að útskrifast um jólin.

Sátt við allar ákvarðanir

Arna frestaði útskriftinni sinni vegna þátttöku í Miss World í lok síðasta árs og segist alls ekki sjá eftir því. Hún var reyndar farin að dragast aftur úr í náminu vegna flutninga til Akureyrar og stífra æfinga með landsliðinu í frjálsum íþróttum. „Ég er vön að elta mína drauma og skólinn er þarna alltaf, en ekki líkaminn, íþróttirnar og þessar keppnir. Ég er glöð með allt sem ég hef gert og allar ákvarðanir sem ég hef tekið. Ég veit hvað ég ætla að gera í framtíðinni og liggur ekkert á,“ segir Arna sem stefnir á að verða ljósmóðir. „Ég er búin að fá að ferðast mikið og fá að upplifa meira en flestir jafnaldrar mínir og ég hefði alls ekki vilja missa af því.“

Mynd/Rut

 

Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE