Fegin þegar 17 ára dóttirin varð þunguð

Lilja var farin að fikta við kannabisneyslu og Kristrún, móðir hennar, óttaðist um hana. Henni var því létt þegar dóttirin varð óvænt þunguð og hætti neyslunni. Lilja er nú komin 13 vikur á leið og þjáist af meðgönguþunglyndi, en hún leyfir fólki að fylgjast með sér á snapchat. Kristrún er dóttur sinni stoð og stytta, enda þekkir hún þunglyndi af eigin raun og varð sjálf ung móðir.

 

Það er líklega ekki alltaf tilfellið að mæður finni fyrir feginleika þegar sautján ára dætur þeirra verða þungaðar. Það var þó tilfinningin sem Kristrún Úlfarsdóttir upplifði þegar dóttir hennar, Lilja Dögg Eysteinsdóttir, sagði henni að hún væri ólétt. Hún hafði verið að fikta við kannabisneyslu um tíma og Kristrún óttaðist að hún leiddist út í harðari efni. Þungunin gerði það hins vegar að verkum að Lilja tók sig á og hefur ekki snert kannabis síðan hún varð meðvituð um ástand sitt. Hún er nú gengin þrettán vikur og önnur vandamál hafa tekið við. Lilja glímir við meðgönguþunglyndi og kvíða, en hefur ákveðið að deila reynslu sinni og upplifun af meðgöngunni með alþjóð í gegnum snapchat undir nafninu: mommytobe-june.
Blaðamaður hitti þær mæðgur á fallegu heimili þeirra í Hafnarfirði, sem sannarlega er komið í jólabúning.

Verða átta á heimilinu

„Ég frétti að það væru stelpur sem hefðu áhuga á að fylgjast með mér og sjá hvernig það er að vera 17 ára og ólétt í skóla. Svo langaði mig líka að sýna að meðganga er ekki dans á rósum. Það eru stelpur sem fá snemma meðgönguþunglyndi, eins og í mínu tilfelli. Ég er líka með kvíða og er að reyna að kljást við þetta.“

Lilja býr heima hjá foreldrum sínum ásamt barnsföðurnum, Daníel Ottó Viney, og þau stefna á að búa þar áfram eftir að barnið fæðist – allavega fyrst um sinn. Þau eru sjö á heimilinu nú þegar, Kristrún, maðurinn hennar, þrjá dætur og tveir kærastar. Þannig það verður fjör þegar ungbarn bætist í hópinn.

Viðbrögðin við snappinu hafa verið góð og fjölmargir hafa bæst í fylgjendahópinn á síðustu dögum. Lilja viðurkennir að hún viti ekki alltaf hvað hún eigi að tala um, en gerir ráð fyrir að efniviðurinn verði meiri eftir því sem líður á meðgönguna. Annars ætlar hún bara að leyfa fólki að fylgjast með lífi sínu sem ung, ólétt stúlka sem glímir við meðgönguþunglyndi og kvíða. Sumar þeirra sem fylgjast með Lilju eru í svipaðri stöðu en aðrar vilja einfaldlega fylgjast með.

Kristrún líka með kvíða og þunglyndi

Lilja hefur glímt við kvíða í tíu ár og hefur gengið til sálfræðings vegna þess. „Fyrst áttaði ég mig ekki á því hvað var að hrjá hana. Þetta virtist tengjast því þegar við vorum að borða. Þá lagðist hún í sófann, hélt um magann og titraði öll. Fyrst hélt ég að hún væri kannski með mjólkuróþol. Það var ekki fyrr ég sjálf fékk kvíðakast að ég áttaði mig á því að þetta gæti verið kvíði hjá henni,“ segir Kristrún

Hún þekkir því kvíða af eigin raun, en hún hefur leitað sér hjálpar og náð þokkalegum tökum á honum. „Ég fékk líka mikið fæðingarþunglyndi eftir að ég eignaðist börnin mín þrjú. Þannig ég veit hvað hún er að ganga í gegnum. Það var samt ekkert gert fyrir mig fyrr en yngsta dóttir mín var fimm ára. Þetta var þá búið að vera mjög erfitt. Mér var alltaf bara sagt að fara út að hreyfa mig eða hætta þessari leti. Ég hef sjálf verið dugleg að skrifa um mitt þunglyndi og því fannst mér fínt að kynna Lilju aðeins,“ segir Kristrún en hún setti í vikunni færslu inn í hóp á netinu og hvatti fólk til að fylgjast með dóttur sinni og því sem hún er að ganga í gegnum.

Þjáist af aðskilnaðarkvíða

Meðgönguþunglyndið gerði snemma vart við sig Lilju. „Ég var mjög leið og alltaf grátandi og er enn. Mér leið mjög illa, en það var mamma sem áttaði sig á því að líklega væri ég með meðgönguþunglyndi. Þá fór ég sjálf að kynna mér það og öll einkennin eiga við mig,“ segir Lilja, en hún ætlar að ræða þessi mál við ljósmóðurina sína í mæðraverndinni og fá þá aðstoð sem hún þarf. „Ég vil reyna að laga þetta, bæta líðanina,“ segir hún ákveðin.

Kvíðinn hjá Lilju hefur ýmsar birtingarmyndir, en hún þjáist til að mynda af aðskilnaðarkvíða gagnvart foreldrum sínum og á erfitt með að vera annars staðar en heima hjá sér. Hún fór til dæmis til Parísar með kærastanum sínum á dögunum og þótti það ansi erfitt. „Mér finnst alltaf best að vera heima,“ segir hún hálf feimnislega og lítur á móður sína, sem hefur fullan skilning á því hvernig dótturinni líður.

Handtekin og kannabis í blóðinu

Þungunina bar óvænt að, enda var Lilja ekki á þeim buxunum að verða móðir strax þó vissulega langaði hana að eignast barn einhvern tíma. Jafnvel fyrr en síðar. En hún var í öðrum hugleiðingum fyrir nokkrum mánuðum og stefndi út af beinu brautinni. Var farin að neyta kannabisefna endrum og sinnum, og undir vökulu auga móður sinnar sem lét hana reglulega skila til sín þvagprufum til að fylgjast með ástandinu. „Ég var búin að taka prufur hjá henni sem komu alltaf neikvæðar, en svo í ágúst í fyrra þá kom jákvætt. Þá tók hún sig á og það gekk vel þangað til það kom aftur jákvætt núna fyrr á þessu ári. Hún fékk að vita að þetta væri ekki í boði,“ segir Kristrún sem reyndi að taka á vandanum frá upphafi og beina dóttur sinni aftur inn á rétta braut.

„Ég hlustaði alveg á mömmu en ég gerði þetta samt,“ segir Lilja og viðurkennir að hafa verið í smá uppreisn, sem betur fer náði ekki að vara lengi. „Mig langaði bara að prófa og mér fannst þetta gaman. En ég var bara að nota kannabis,“ segir hún hreinskilin.
„Það er mjög erfitt að passa upp á börnin þegar þau vilja ekki hjálp. Hún vildi ekki hjálp og hlustaði ekki á mig fyrr en ég greip til aðgerða, eins og að færa kærastann í annað herbergi. Næsta skref var að drengurinn flytti út. Það kom þó aldrei til þess.“

Einn góðan veðurdag var Lilja handtekin. „Ég var ölvuð og með kannabis í blóðinu,“ segir Lilja hálf skömmustulega. „Hún var að byrja í veseni,“ segir Kristrún. „En það hætti um leið og ég komst að því að ég væri ólétt,“ segir Lilja. Kristrúnu fannst það því að mörgu leyti jákvætt að dóttirin yrði þunguð, þó hún væri ung að árum. „Mömmu fannst þetta jákvætt,“ ítrekar Lilja og þær hlæja báðar. Það má því með sanni segja að örlögin hafi gripið í taumana.

Sagði frá á löggustöðinni

Nokkrum dögum eftir að Lilja var handtekin fór hana að gruna að hún gæti verið ólétt og tók óléttupróf. „Það var mjög mikið sjokk að sjá tvær skýrar línur á prufunni. Ég var mjög hissa, en spennt á sama tíma, því mig hefur dreymt um að verða móðir síðan ég var lítil. Ég var reyndar hrædd líka.“ Lilja segist alls ekki hafa verið stressuð yfir því að segja móður sinni frá þunguninni, hún kveið meira fyrir því að segja föður sínum. „En þó tóku þessu bæði vel,“ segir Lilja sem hefði þó viljað segja foreldrum sínum frá þunguninni með öðrum hætti en raun bar vitni.

„Ég var tekin aftur upp á stöð tveimur dögum eftir að ég tók óléttuprófið því lögreglan sá bílinn minn og vildi fá mig niður á stöð. Þar átti ég að skila þvagprufu en þá fór að blæða,“ útskýrir Lilja.

„Lögreglan hringdi strax í mig en þetta var bara eftirlit. Hún hafði ekkert verið að gera af sér en þeir vildu samt taka aftur blóð- og þvagprufu. Svo hringdi Lilja í mig því hún varð hrædd þegar fór að blæða,“ segir Kristrún, en það var þannig sem hún komst að því að hún væri að verða amma.

Vissi að hún yrði ung móðir

„Ég var á sama aldri þegar ég varð ólétt að elstu dóttur minni og ekki með kærasta. Þannig það var aðeins öðruvísi. En Lilja sagði auðvitað að ég gæti ekki sagt neitt við því að hún væri ólétt því ég var á sama aldri,“ segir Kristrún og skellir upp úr. „Mér kom þetta ekkert á óvart. Ég vissi alltaf að hún yrði ung móðir. Ég vissi það líka um leið og hún fæddist að hún yrði erfiður krakki. Hún hefur alltaf verið þannig. Hún fór til dæmis í hjartaðgerð þegar hún var þriggja ára og rak hjúkkurnar út þegar þær ætluðu að vesenast meira í henni. „Út með ykkur,“ sagði hún.“

Kristrún viðurkennir að hún hafi verið orðin hrædd um dóttur sína og óttaðist að kannabisneyslan gæti þróast út í neyslu á harðari efnum. „Frændi hennar dó ungur, vegna fíkniefnaneyslu. Hann var fíkill. Þannig að ég hef alltaf verið á tánum.“ Lilja segist þó alls ekki hafa verið orðin háð kannabis. Hún fann ekki fyrir stöðugri löngun, að eigin sögn. Fannst neyslan meira bara spennandi og skemmtileg. „Mig hefur ekkert langað í meira eftir að ég komst að því að ég væri ólétt. Ég hætti strax.“

Ætlar að klára stúdentsprófið

Lilja stefnir á að byrja í Menntaskólanum í Kópavogi eftir áramót og klára nokkra áfanga áður en barnið kemur í heiminn í júní. Hún tók þá ákvörðun eftir að hún komst að því að hún væri ólétt. „Mig langar að vera búin með eitthvað og svo þegar barnið fer í leikskóla þá ætla ég að halda áfram í náminu. Þetta er allavega planið. Mig langar að klára stúdentspróf. Mér gengur reyndar frekar illa að vakna snemma á morgnana og veit ekki hvernig það verður. En ég er ekkert stressuð fyrir náminu sjálfu. Ég þarf að bara að ná að mæta.“

Kristrún og Lilja eru duglegar að ræða málin og þær breytingar sem eru að fara að eiga sér stað á lífi þeirra beggja. Þær mæðgur hafa alltaf verið nánar og eru góðar vinkonur, en það á reyndar við um Kristrúnu og allar dætur hennar. Lilju þykir mjög dýrmætt að eiga mömmu sem skilur nákvæmlega hvað hún er að ganga í gegn um, bæði hvað varðar meðgönguna og þunglyndið.

Þær eru aðeins byrjaðar að undirbúa komu barnsins með því að kaupa það sem þarf, eins og bílstól. „Ég er líka búin að kaupa ömmustól og leikteppi,“ segir Kristrún og spenningurinn fyrir fyrsta ömmubarninu leynir sér ekki. „Hún er meira að segja komin með smá kúlu,“ bætir hún við og lítur kímin á dóttur sína.

Hægt er að fylgjast með Lilju á snapchat: mommytobe-june

Mynd/Rut

Viðtalið birtist fyrst í helginni, fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE