Fín lína milli þess sem er eðlilegt og þráhyggja

Íþróttaátröskun er algengari en margan grunar, en um er að ræða falinn sjúkdóm sem alls ekki er bundinn við útlitstengdar íþróttir, eins og ballet og fimleika. Hlaupakonan Birna Varðardóttir þekkir íþróttaátröskun af eigin raun en hún glímdi við sjúkdóminn á unglingsárum sínum.

Birna var 12 ára þegar hún tók þátt í sínu fyrsta víðavangshlaupi og það var strax ljóst að þar var á ferðinni efnileg hlaupakona. Áhuginn á íþróttum kviknaði eftir að Birna skipti um skóla vegna eineltis og hún fann fljótlega hvað hlaupin gerðu henni gott. „Hlaupin gáfu mér rosa mikið og ég öðlaðist sjálfstraust við að ná góðum árangri. Það var mikil viðurkenning.“ En það var einmitt ásóknin í betri árangur og meiri viðurkenningu sem fór smám saman að hafa slæm áhrif á Birnu. „Ég bætti mig mikið á skömmum tíma um 13-14 ára aldurinn, setti aldursflokkamet í nokkrum vegalengdum og fleira kom til. Ég fann fyrir sjálfstrausti sem ég hafði ekki fundið fyrir áður og kunni eiginlega ekki að fara með það. Ég vildi alltaf gera betur og ná betri árangri. En það er mjög fín lína á milli þess sem er eðlilegt og þráhyggju. Ég var mjög upptekin af mataræðinu og vigtinni og æfði mikið. Þetta spilaði allt saman.“

 

Fékk hrós frá öðrum hlaupurum

Í fyrstu sá Birna mikinn árangur í hlaupunum. Hún skýldi sér á bak við þá staðreynd að hún væri hlaupari og þess vegna mætti hún vera létt. Hún ætti í raun að vera þannig til að ná árangri. Hún var með afsakanir á reiðum höndum og tilbúin svör við öllum þeim spurningum sem vöknuðu hjá fólkinu í kringum hana. „Ég fékk líka mikið hrós frá öðrum hlaupurum fyrir það hvað ég væri öguð og dugleg, borðaði aldrei óhollt og missti aldrei úr æfingu. Ég var því sannfærð um að ég væri að gera eitthvað rétt.“

Með tímanum fór sjúkdómurinn hins vegar að hafa áhrif á orku og einbeitingu. Það kom mjög glögglega í ljós þegar Birna var á sextánda ári, nýbyrjuð í Versló. Fyrstu viðbrögð hennar við þessum einkennum voru að hugsa að hún væri líklega ekki að gera nóg og þess vegna liði henni svona. „Þetta gekk samt alltaf lengra og lengra og það kom að því að ég hætti að geta hlaupið og átti það til að dotta í skólanum og mæðast við að ganga upp stiga.“

Það var þá sem móðir Birnu náði að gera henni grein fyrir því að eitthvað væri að. Hún vann hana á sitt band og fékk hana til að leita sér aðstoðar. Birnu gekk vel að ná bata en fór óhefðbundna leið í þeim efnum. Hún fékk aðstoð hjá þjálfara í Boot Camp líkamsræktarstöðinni sem hjálpaði henni að komast á réttan kjöl.

Fylgir hjartanu og hlustar á líkamann

Í dag á Birna í heilbrigðu sambandi við mat, hún nemur næringarfræði við Háskóla Íslands og heldur úti síðunni www.birnumolar.com. Þar birtir hún girnilegar uppskriftir sem eiga það sameiginlegt að vera næringarríkar, einfaldar og bragðgóðar. Fyrir rúmu ári gaf hún líka út bókina Molinn minn sem fjallar um reynslu hennar.

Birna hefur síðustu ár verið að fikra sig áfram í hlaupunum aftur eftir að hafa tekið sér árshlé vegna veikindanna. Hún er meðvituð um eigin líkama og leggur áherslu á gæði umfram magn, eins og hún orðar það sjálf. Hún æfir alla jafna 6 sinnum í viku en þar af eru tvær æfingar þar sem áherslan er á góðan styrk og tækniæfingar. „Þannig næ ég að viðhalda heilbrigðri sál, sterkum búk og árangri á brautinni.“ Í fyrra hljóp hún sitt fyrsta maraþon í Kaupmannahöfn og setti þar aldursflokkamet en áherslan í sumar er á hálfmaraþon vegalengdina.
,,Ég þrífst samt svolítið á fjölbreytninni og hef mjög gaman af því að klæða mig í utanvegaskóna líka. Allt er þetta spurning um að fylgja hjartanu og hlusta á líkamann hverju sinni.“

birnav2

[stextbox id=”stb_style_736679″]

Heillaráð Birnu

Fólk má ekki ætla sér of mikið. Hlauparar eiga það oft til að vera mjög trúir sínu plani. Þeir eru kannski með 16 vikna prógramm sem þeir ætla sér að fylgja frá upphafi til enda.
Við þurfum að taka mið af líðan hverju sinni sem og öðrum verkefnum sem við erum að fást við. Við þolum bara ákveðið álag og áreiti í einu og stundum er betra að breyta út af plani en að þjösnast á þreyttum eða meiddum líkama.
Markmiðið er að geta hlaupið eða hreyft sig allt lífið og þess vegna þurfum við að stefna í þá átt. Þetta snýst um langtíma heilbrigði.

Hóflegt álag og sveigjanleiki er lykillinn að því að haldast meiðslalaus. Leyfa skrokknum og sálinni svolítið að stýra þessu. Þannig viðhöldum við líka áhuganum.
Agi og ástundun skiptir miklu máli ef við ætlum að ná árangri en ef við hlustum ekki á líkamann og horfum bara á æfingaplanið þá getur það orðið til þess að áhuginn dvíni eða við meiðumst. Hvíldin gegnir líka sínu hlutverki.

Ef meiðsli gera vart við sig er æskilegt að taka mark á því sem fyrst í stað þess að hundsa þau. Maður verður að vinna með líkamanum en ekki á móti honum.
Góð regla er að hlusta á líkamann á meðan hann er heill því hvíldin getur orðið löng ef við lokum eyrunum gagnvart skilaboðum hans.

Svo er það hugmyndin um að aukaæfingin skipti svo miklu máli. Við þurfum svolítið að slaka á þeim skilaboðum, sérstaklega þegar um unga krakka er að ræða. Það er oft talað um að aukaæfingin skapi meistarann, en það er svo margt annað sem kemur til, eins og mataræði, hvíld og ekki síst andlega hliðin.

Hlauparar, sem og annað íþróttafólk, þurfa að vera duglegir að næra sig. Þegar við borðum erum við að leggja inn fyrir auknum árangri. Þá þarf að leggja inn gæði.
Horfum á næringargildið og samsetninguna og gætum þess að líkaminn sé að fá allt sem hann þarfnast. Neikvætt orkujafnvægi mun seint vinna með okkur á hlaupunum.
Svo má ekki gleyma því að drekka vel af vatni.

[/stextbox]

Viðtalið birtist fyrst í amk, nýju fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE