Flensan og orlof vegna veikinda barna

Þá hefur flensan náð hámarki. Út um allt land eru heimilin undirlögð af hóstandi og illa höldnum flensusjúklingum, flest af yngri kynslóðinni. því flensan leggst víst af sérstökum þunga á unga fólkið að þessu sinni. En auðvitað liggur fólk á öllum aldri. Og það er sko ekkert grín að fá flensuna. Hár hiti, höfuðverkur, beinverkir og uppköst eru fastir fylgikvillar. Flensan kostar sjúklinginn 5-7 daga í rúminu, allt eftir því hversu illa menn nú eru haldnir. Ég hef heyrt um börn sem urðu að halda sig við rúmið í eina tíu daga. Það er bara að vona að þetta gangi nú hratt yfir svo að pestarsjúkir landsmenn komist á ról á nýjan leik. Eina ráðið er víst að taka öllum með ró í vissunni um það að öll él styttir upp um síðir.

Þegar börnin taka að hópast heim, hóstandi og illa á sig komin af flensunni, þá þýðir nú lítið annað fyrir foreldrana en að halda í humátt á eftir börnunum. Ekki dugar að láta skinnin liggja eftirlitslaus með þessa illvígu hitapest. Það þarf þjónusta litlu flensusjúklingana á alla lund og allir vilja gera sitt besta til þess að þeim verði nú rúmlegan ögn bærilegri. En það er eins gott fyrir foreldrana að flensurnar verði ekki fleiri í ár. Og það er líka eins gott að ekki leggist nema tvö börn ef báðir foreldrarnir vinna úti, eitt ef fyrirvinnan er aðeins ein. Því réttur foreldra til þess að vera heima frá vinnu vegna veikinda barna sinna nemur eins og einni flensulegu, sjö til tíu dögum.

Eftir það falla launin niður, nema hjá félagsfólki í VR sem fær stuðning frá sínu félagi. Og hvað gera foreldrar þá, ef flensan dregst á langinn, eða ef fleiri börn leggjast í pestina? Og til hvaða ráða grípa foreldrar næst þegar einhver pestin segir til sín, þegar hálsbólga eða gubbupest barnanna verður til þess að aftur þarf að fá frí úr vinnu? Þá er flensan búin að eyða upp öllum veikindakvótanum og góð ráð verða dýr. Sumir eru svo heppnir að eiga góða vinnuveitendur sem hlaupa undir bagga og leyfa foreldrunum að taka sér aukafrí. Það er þó ekkert grín að þurfa að eiga slíkt undir vinnuveitendum. Því réttindin eru ekki fyrir hendi og veikindi barnanna geta kostað foreldrið vinnuna ef sá gállinn er á vinnuveitandanum. Aðrir grípa til ömmu eða jafnvel afa, ef þau eru ekki upptekin í vinnu. Oftast „reddast” málið einhvernvegin, þó það geti kostað margskonar vesen, streitu, tekjumissi og samviskubit gagnvart ólíklegustu aðilum þegar blessuð börnin veikjast í meira en sjö daga á ári. (börnunum, afa og ömmu, vinnuveitendum, makanum, samstarfsfélögum, frænku sem hleypur í skarðið…….o.s.frv. ). En pestirnar fara ekki eftir stimpilklukku. Ef um verulega langvarandi veikindi er að ræða, þá versnar nú fyrst málið. Langvarandi veikindi barna geta kostað fjárhagslegt hrun fjölskyldunnar.

Sjá einnig: Hvort er þetta flensa eða kvef?

Já, það er erfitt þegar blessuð börnin veikjast. En veikindi barnanna þyrftu ekki að valda svona miklum áhyggjum foreldra gagnvart vinnu og tekjum. Ekki ef hér giltu sömu reglur og á hinum Norðurlöndunum . Þar hafa foreldrar rétt á 90 til 120 daga fjarvistum frá vinnu á ári vegna veikinda barna sinna. Halda foreldrar þá allt að 85% launa á meðan á veikindunum stendur. Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna sömu reglur gilda ekki hér á landi um veikindaorlof vegna veikinda barna eins og hjá frændum okkar á Norðurlöndunum. Ætli ástæðan sé ekki fyrst og fremst sú að íslenskir foreldrar hafa aldrei sett kröfu um úrbætur í þessum málaflokki á oddinn? Á meðan við foreldrar segjum ekkert, þá er ekki von á því að stjórnmálamennirnir láti sig málið varða. Og á meðan við látum okkur hafa það að okkur, íslenskum foreldrum, eru búin verstu skilyrði á Norðurlöndum þegar börnin okkar veikjast, þá er bara að halda áfram að harka í vinnuveitendum og ömmum næst þegar flensan bankar á dyrnar.

 

SHARE