Fyrrverandi kærasta mín er geðveik!

Mér finnst fátt meira óheillandi en karlmenn sem tala stanslaust illa um sína fyrrverandi. Það er ekki bara merki um að hann hafi enn tilfinningar til hennar, heldur er það líka nokkuð víst að ef þú verður einhvern tímann þessi ‘’fyrrverandi’’ þá áttu líklega eftir að fá sömu útreið. Það er klassískt að heyra eitthvað eins og “hún er geðveik” eða eitthvað því um líkt, án þess að fá þó nein rök fyrir því.

Það eiga allir einn eða eina fyrrverandi sem þeim kannski líkar ekkert rosalega vel við af einhverjum ástæðum. Það er hins vegar ekki gott umræðuefni á fyrsta deiti. Mér er persónulega alveg sama þó fyrrverandi kærastan þín hafi verið geðveik að þínu mati. Stelpur gera þetta líka og auðvitað hafa allir einhvern tímann látið eitthvað ljótt út úr sér í særindum. Það er samt eitt sem ég held að allir ættu að reyna að muna…

Það var einhver ástæða fyrir því að þú varðst ástfangin/n af þínum/þinni fyrrverandi. Það var einhvern tímann ást,gleði og hamingja á milli ykkar og mikil væntumþykja. Á einhverjum tímapunkti gastu ekki séð líf þitt án þessarar manneskju. Þér fannst þessi manneskja frábær og hún gaf þér mikla gleði og svoleiðis hlutum má maður ekki gleyma.

Auðvitað eru undantekningar ef fólk hefur verið í ofbeldissamböndum eða þessháttar, hvort sem það er líkamlegt eða andlegt ofbeldi. Það er kannski annað mál.

Mér finnst það samt rosalega sorglegt þegar fólk, sem hefur jafnvel eytt mörgum árum af ævi sinni saman getur ekki einu sinni heilsast á förnum vegi.

Það er enginn að tala um að þú þurfir að vera í sambandi við fyrrverandi á hverjum degi en mér finnst að manneskjan sem maður eitt sinn elskaði eigi skilið virðingu frá manni, ef ekki virðingu þá allaveganna kurteisi.

 

Sýnum hvort öðru kurteisi, við erum öll bara mannleg.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here