Fyrstu einkenni sykursýki geta hæglega farið framhjá þér

Fyrstu einkenni sykursýki tegund 2  geta hæglega farið framhjá þeim sem hafa sjúkdóminn. Erlendar tölur sýna að allt að þriðjungur veikra gangi um  án þess að gera sér grein fyrir að þeir hafi sjúkdóminn.

Fyrstu einkenni eru:

  • Þorsti/tíð þvaglát                   Því getur fylgt hungurstilfinning eða lystarleysi,munnþurrkur og breyting á líkamsþyngd
  • Höfuðverkur                           Einnig þreyta og óskýr sjón
  • Sýkingar                                 Útbrot eða kláði í húð,tíðar sveppasýkingar eða þvagfærasýkingar
  • Kyndeyfð                                Sykursýki getur skemmt æðar og taugar m.a. til kynfæra. Það getur orðið erfiðara að fá fullnægingu. Konur finna fyrir þurrki í leggöngum og karlmenn geta fengið ristruflanir.

Kannist þú við þessi einkenni  skaltu leita til þíns heimilslæknis og fá mældan blóðsykur.

Hvað er sykursýki?

Sykursýki er sjúkdómur, sem gerir það að verkum að sykurmagnið (glúkósi) í blóðinu er meira en venjulega.

Til eru tvö afbrigði af sykursýki:

  • Insúlínháð sykursýki, eða týpa 1, sem er algengari hjá ungu fólki og börnum
  • Insúlínóháð sykursýki eða týpa, 2, sem er algengari hjá eldra fólki

Þar að auki eru til önnur afbrigði:

  • meðgöngusykursýki er kemur í kjölfar þungunar og hverfur yfirleitt eftir fæðingu og
  • sykursýki í kjölfar t.d. briskirtilsbólgu og í tengslum við vissar lyfjameðferðir.

Fjöldi einstaklinga með insúlínóháða sykursýki fer vaxandi. Litið er á sjúkdóminn sem lífstíðarsjúkdóm. Sykursýki týpa 2 er gjarnan í tengslum við offitu og hreyfingarleysi.

Hver er orsök sykursýki?

Sykur er brennsluefni líkamans. Blóðsykurstjórnun er flókið ferli þar sem insulin hormón gegnir aðalhlutverki en margir aðrir þættir hafa einnig áhrif á sykurstjórnina, s.s líkamsáreynsla, fæði, geta lifrar til framleiðslu á blóðsykri og ýmis önnur hormón en insulin.

Briskirtillinn framleiðir hormónið insulin. Í stuttu máli sér insulinið um að flytja blóðsykurinn úr blóði og inn í frumur líkamans þar sem það er notað sem orkugjafi

Í insulinháðri sykursýki framleiðir briskirtillinn af einhverjum ástæðum ekki insúlín og þá hækkar blóðsykurinn.

Í insulinóháðri sykursýki framleiðir briskirtillinn nóg insúlín en það nýtist ekki líkamanum til að til að ná sykrinum úr blóði og nota sem orkugjafa  og þá hækkar blóðsykurinn.

Þegar sykurinn safnast upp í blóði í stað þess að fara inn í frumur getur það leitt af sér tvö vandamál. Annars vegar fá frumur ekki þá orku sem þær þurfa til að starfa eðlilega og hins vegar getur það leitt á lengri tíma til skemmda á augnbotnum,nýrum,taugum og hjartavöðva.

Hver eru einkenni sykursýki?

  • þorsti
  • tíð þvaglát, þegar blóðsykurinn verður of hár skilst hluti hans út með þvagi.
  • þreyta
  • lystarleysi og þyngdartap
  • kláði umhverfis kynfæri
  • sýkingar í húð og slímhúðum.

Þessi einkenni eiga við bæði insúlínháða og insúlínóháða sykursýki. Einkenni insúlínháðrar sykursýki koma fram á nokkrum vikum en þróun insúlínóháðrar sykursýki á sér yfirleitt lengri aðdraganda (allt upp í 10 ár) og sjúklingurinn getur verið einkennalaus eða einkennalítill mjög lengi.

Báðar tegundir sykursýki eru ættgengar. Þó eru mun meiri líkur til að skyldmenni einstaklings með týpu 2 fái einnig sykursýki heldur en skyldmenni einstaklings með týpu 1.

Insúlínóháð sykursýki (týpa 2) kemur frekar fram hjá einstaklingum sem

  • eiga ættingja með sykursýki
  • hafa fengið sykursýki á meðgöngu
  • eru of þungir
  • hafa of háan blóðþrýsting
  • þjást af æðakölkun (t.d.kransæðastíflu)
  • hafa of háar blóðfitur (kólesteról og þríglýseríða).

Hvernig greinir læknirinn sykursýki?

Greiningin byggist á blóðsykursmælingu,annars vegar með blóðdropasýni úr fingir og hins vegar er dregið blóðsýni úr handlegg. Þar eru meðal annars fundin meðalblóðsykurgildi síðustu 2ja-3ja mánaða og fastandi blóðsykur.

  • Ef blóðsykurinn mælist yfir 11 mmol/l í skyndiprófi eru töluverðar líkur á að um sykursýki sé að ræða.
  • Til enn frekari staðfestingar er mældur fastandi blóðsykur og ef gildið er hærra en 6,7 mmol/l er greiningin staðfest.
  • Í sykurþolsprófi er blóðsykurinn mældur tveimur tímum eftir upphaf prófs. Eðlilegt er að blóðsykurinn sé undir 7,7 mmol/l en ef hann er hærri en 11,1 mmol/l er um að ræða sykursýki. Mælist gildið hins vegar á milli 7,7 og 11,1 mmol/l þá er líklegt að viðkomandi hafi skert sykurþol.

Hver er meðferðin?

Sykursýki er meðhöndluð með

  • mataræði
  • hreyfingu
  • lyfjum

Insulinháð sykursýkir er meðhöndluð með daglega insulínsprautum og sykurskertu mataræði. Lyfjameðferð beinist að því að hafa áhrif á insúlínbúskap líkamans, sem svo stjórnar blóðsykrinum. Einnig má minnka upptöku á glúkósa í þörmum með töflum.

Meðferðin felur í sér mikla sjálfshjálp, sem þýðir að lögð er áhersla á hæfileika sjúklingsins til að annast sig sjálfan. Ítarleg kennsla í insúlínmeðhöndlun er nauðsynleg fyrir þá sem þurfa að nota insúlín. Mikilvægur þáttur í meðhöndluninni er sykursýkisdagbókin, sem er notuð til að fylgjast með blóðsykursgildinu. Eftir þörfum fer sjúklingurinn í skoðun annaðhvort hjá innkirtlasérfræðingi eða heimilislækni þar sem fylgst er með blóðsykrinum og viðkomandi er skoðaður með tilliti til fylgikvilla.

Mikilvægasta tæki sjúklingsins er blóðsykurmælirinn sem gerir honum kleift að mæla blóðsykurinn og á einfaldan hátt stýra meðferðinni dagsdaglega.

Fylgikvillar

Léleg blóðsykurstjórnun hvorrar tegundarinnar sem er leiðir til fylgikvilla.

Bráðir fylgikvillar:

  • blóðsykurfall vegna rangrar meðferðar
  • ketónblóðsýring (ketoacidosis) hjá einstaklingum með insúlínháða sykursýki. þetta er lífshættulegt ástand af völdum insúlínsskorts.

Aðrir fylgikvillar:

  • augnsjúkdómar
  • taugabólgur
  • nýrnasjúkdómar
  • æðakölkun.

Þessir fylgikvillar koma yfirleitt ekki fram fyrr en nokkrum árum eftir greiningu sjúkdómsins. Einstaklingar með insúlínóháða sykursýki eiga frekar á hættu að vera komnir með ýmsa fylgikvilla við greiningu þar sem slík sykursýki greinist oft seint vegna vægra einkenna.

Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að með góðri blóðsykurstjórn má að mestu koma í veg fyrir þessa fylgikvilla.

Eftirlitsmeðferð.

Eftirlit sykursjúkra fer fram hjá heimilislækni, á göngudeild eða hvoru tveggja. Markmið eftirlitsins er annars vegar að fylgjast með því hvort meðferð sé rétt og hins vegar að athuga hvort sjúkdómurinn hafi versnað með tilliti til fylgikvilla.

Eftirfarandi þættir koma m.a. inn í eftirllitið:

  • tekið blóðsýni til að athuga HbA1c (Segir til um blóðsykursgildi sl. 6 vikur)
  • farið yfir dagbók með blóðsykurgildum
  • matarvenjur ræddar
  • mældur blóðþrýstingur
  • líkamsþyngd
  • einstaklingsbundnar rannsóknir því eftirlit verður alltaf að einhverjum hluta einstaklingsbundið.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE