Gelgjuskeiðið og grái fiðringurinn

Það getur verið samhengi milli unglingafársins og gráa fiðrings fullorðna fólksins (Milli 35 og 50 ára.)

Margar konur vilja skilja einmitt um fertugt.„Fyrst réðu pabbi og mamma yfir mér, síðan maðurinn minn og núna eru krakkarnir mínir á unglingsaldri farnir að ráðskast með mig. Nú er nóg komið.„

Ég spyr: „Hvers vegna hefur þú látið ráðskast með þig?„ Þetta er reyndar holl spurning fyrir mann sjálfan ef manni finnst maður vera kúgaður. Í stað þess að skilja væri athugandi að segja nei og krefjast þess að fjölskyldan virði mörk manns.

Það er um fertugt sem mamma kastar sér út í ný verkefni, fer í nám í viðskiptafræði eða félsgsráðgjöf og pabbi tekst allur á loft ef ókunnugar konur segja honum að hann sé yndislegur og ef til vill verður hann ástfanginn og leiðist út í framhjáhald.

Sjá einnig: Sjö ástæður fyrir því að þú vilt aldrei verða unglingur aftur

Mamma er frek og segir nei. Pabbi er viðkvæmur og hörundsár og börnin lenda í miðri orrahríðinni. (Gelgjuskeiðið byrjar um 12-13 ára aldurinn). Því er ekki að undra að hitni í kolunum á heimilinu.

Sænski sálfræðingurinn Johan Cullberg skrifar í bókinni „Kreppa og þroski„: „Það virðist sem þessi umbreyting verði ómeðvitað hjá mörgum og fólk reyni ekki mikið að sporna við henni. Lífið er komið í fastar skorður og fólki finnst það hafa staðnað. Það finnur fyrir köfnunartilfinningu og reynir að brjótast út. Fólk fer að æfa af kappi, klæðist unglingfötum og gefur þannig gárungunum höggstað á sér á ýmsan hátt.„

Sjá einnig: Breytingaskeið karla – er það til?

Það er líka á þessum aldri sem fólk lítur um öxl og tekur púlsinn á því hverju það hafi áorkað um ævina. Sumir fara í framhaldsnám, aðrir fara á fullt í pólitík, enn aðrir henda sér út í ástarsamband, sem mætir litlum skilningi. Það hriktir í stoðum hjónabandsins en oft er það líka endurnýjað ef fólk finnur aftur gagnkvæma ást, finnur á ný að makinn er ástarinnar verður. Þetta blæs fólki í brjóst auknum krafti til að endurskoða líf sitt og getur vakið hnignandi hjónabandið til lífsins aftur ef það er nógu traust til að standast álagið.

Gelgjuskeiðið getur verið kyrrlát og hægfara breyting en alla jafna er það kvalafull sprenging þar sem unglingurinn berst um á hæl og hnakka við að finna sjálfan sig, eigin skoðanir, persónuleika og hæfni og taka afstöðu til tilverunnar. Samtímis er látið reyna til hvers hann er nýtur.

Tilfinningarnar sveiflast milli þvermóðsku, vantrúar og stundum þunglyndis. Að hluta til vill maður halda aðeins lengur í bernskuna, á hinn bóginn verða fullorðinn helst strax á morgun. Maður er milli steins og sleggju, vegur salt á brúninni.

Það er ekkert gaman að vera „litla barnið„ en það er ógnvekjandi að verða fullorðinn og eiga að standa undir öllum kröfum sem því fylgja; að vera ekki orðinn gjaldgengur í hópi fullorðinna en eiga heldur ekki lengur heima með börnum. Þetta er sjálfstæðisbarátta og liður í því að brjótast frá foreldrunum, þetta er fiðrildið, sem skríður úr púpunni.

Sjá einnig: Breytingaskeið kvenna

„Maður er þreyttur og latur og langar mest til að grenja eða öskra en ætlast er til að maður sýni stillingu og skynsemi.„ „Ef ég reyni að taka ábyrgð á sjálfum mér og eigin lífi og taka sjálfstæðar ákvarðanir mæti ég því viðhorfi frá fullorðna fólkinu að ég láti eins og pelabarn og það heimtar að ég læri af reynslu þeirra. Þetta segja foreldrar mínir,„ kvartaði 14 ára stúlka hástöfum, „og svo bætir pabbi við: Við vitum þrátt fyrir allt betur hvað er þér fyrir bestu og ef þú ferð þínu fram muntu iðrast þess síðar og kenna okkur um, að við höfðum ekki vit fyrir þér.„

Eftir því sem barn er í nánara tilfinningasambandi við foreldra sína þeim mun meiri ofsi er í sjálfstæðisbaráttunni.

Gelgjuskeiðið er sálarkreppa og telst vera eitt átakamesta þroskatímabilið. Foreldrar og börn lenda í harkalegum átökum innbyrðis – þetta bitnar líka oft á kennurum. Unglingunum finnst þeir auðmýktir og að traðkað sé á þeim, finnst fullorðna fólkið koma fram við sig eins og ósjálfstæð smábörn, af algeru skilningsleysi.

Mörgum foreldrum líst ekki á blikuna þegar litli stúfurinn þeirra fer að vera afundinn og ögrandi og tekur meira tillit til félaganna en fjölskyldunnar. Hann lætur varla sjá sig á matmálstímum og gengur um heimilið eins og hótel, kemur og fer að eigin geðþótta. Um daginn gaf hann út þessa yfirlýsingu: „Mér er skítsama um ykkur. Þið eruð ekkert annað en smáborgaralegt pakk sem hugsar ekki um annað en peninga, dauða hluti og álit nágrannanna.„ Þetta sagði ein móðir mér, örvilnuð og sakbitin að sonur hennar hafi sagt við sig. Sonurinn, Sölvi, 14 ára, hafði verið staðinn að refsiverðu athæfi. Hann hafði ásamt félögum sínum stolið bjórkassa og hafði komið heim á „skallanum„ um miðja nótt. Bæði hún og pabbinn báru við slæmum félagsskap úr skólanum. Það væri ástæða þess að Sölvi „litli„ hefði hrasað og stolið.

Það er skiljanlegt að foreldrar reyni að afsaka hegðun barna sinna því að þau óttast hag barnanna í framtíðinni og sjá fyrir sér skuggalega mynd af litla drengnum sínum sem síbrotamanni á Hr auninu.

Þau ásaka sig og hvort annað fyrir að uppeldið hafi misheppnast. Hvað gerðum við rangt? Sumir velta fyrir sér hvort sonurinn hafi leiðst út í glæpi vegna erfðagalla. Sat ekki einn frændi þinn í fangelsi? spurði ein móðirin manninn sinn örvilnuð.

Foreldrarnir standa ráðþrota frammi fyrir ástæðu þess að hann hafi skyndilega tapað allri skynjun og skilningi á öðru fólki. Hvað verður um hann þegar hann er farinn að stela, reykja hass, drekka áfengi og vanrækja skólann.

Ég held því fram að strákum leiðist skelfilega í vel skipulögðu þjóðfélagi. Þeir fá ekki eðlilega útrás fyrir orku og reiði, þeir eru því að springa og það brýst út. Þeim er eðlilegt að hafa gaman af hávaða og látum en því er tekið sem hegðunarvandamáli af því að fullorðna fólkið er viðkvæmt fyrir þessu. Það eru ekki margir foreldrar sem þola heila hersingu hávaðasamra unglinga á heimilinu til lengdar og á þessum aldri hafa unglingarnir þörf fyrir að hópa sig saman. Það byggir upp sjálfstraustið að vera innan um sína jafningja.

Stelpur eru líka til vandræða á þessum aldri en oft á annan hátt. Þær varðar ekki baun um annað fólk – og sérstaklega ekki foreldra sína og fjölskyldu.

Þær geta líka verið mótþróafullar en oft beinist reiði þeirra inn á við, þær verða grátgjarnar og vonlausar. Þær geta speglað sig tímunum saman og fárast yfir því hvað þær séu ljótar og ómögulegar. Heimsendir er á næstu grösum af því að þær fengu bólu á nefið og þær eru gjörsamlega miður sín. Þær eru á hreinlætisaldrinum og geta hertekið baðherbergið svo að enginn annar kemst þar að. Sumar fara í algeran baklás og liggja undir sæng dögum saman.

Hér er dæmi:

Lísa byrjaði að skrópa í skóla fyrir tveimur árum og móðir hennar taldi það hafa átt upptök sín þegar hún fékk kennara sem hún þoldi ekki. Hún, sem hafði annars alltaf verið dugleg og samviskusöm stúlka, gerði uppreisn þegar hún var 12 ára. Lísa var 15 ára þegar foreldrar hennar báðu um aðstoð. Á þeim tíma var ég fjölskylduráðgjafi á vegum bæjarfélagsins.

Lísa harðneitaði að gera nein húsverk, sögðu foreldrarnir, og herbergið hennar, sem hún hafði áður lagt metnað í að hafa sem hreinast, var nú líkast svínastíu. Móðirin hélt áfram: „Þú ættir bara að sjá þetta – allt á rúi og stúi. Fötin í hrúgu á gólfinu, bæði hrein og óhrein, geisladiskarnir líka, og það er ekki hægt að drepa niður fæti fyrir drasli. Hún gerir sig heimakomna í fataskápnum mínum og tekur ófrjálsri hendi það sem henni sýnist, en er svo í fötunum mínum þangað til þau lenda í bingnum á gólfinu hjá henni. Hún hikar ekki við að gramsa í snyrtivörunum mínum, meira að segja skartgripunum mínum. Hún tók ilmvatn sem systir mín hafði gefið mér, og velti því um svo að það sullaðist allt í gólfið og lyktin var kæfandi út um allt hús. Nú er hún farin að vera úti á nóttunni og neitar að segja okkur hvar hún hafi verið. Stundum er undarleg lykt af henni og okkur grunar að hún sé að reykja hass en hún segir að þetta sé reykelsi. Ég er að guggna af þessu öllu og ef ég fer að gráta gerir hún gys að mér og kallar mig ofverndaða væluskjóðu sem skilji ekki neitt, og segir mér að láta sig í friði. Svo getur hún af og til verið alveg yndisleg og um daginn gátum við rætt alvarlega seman og daginn eftir þreif hún herbergið svo vel að sápulöðrið þeyttist út um allt. En í morgun var allt komið í gömlu hrúguna aftur.

Ég óttast hvað verður um hana og við hjónin erum sammála um að þetta sé okkur að kenna, við höfum ofdekrað hana. Reyndar er hún miklu almennilegri við pabba sinn en mig og hann er á því að þetta sé bara tímabil og að ég eigi að slappa aðeins af. En hann getur trútt um talað. Mér er ómögulegt að gera stúlkukindinni til hæfis og um daginn henti hún tebolla framan í mig og það skvettist út um allt eldhús. Henni finnst ég ömurlega hallærisleg og hún gerir gys að mér þegar ég borða, það fer í taugarnar á henni hvernig ég tygg matinn. Allt, sem ég segi er tóm þvæla og vitleysa og ég er fáfróð um lífið.

„Eins og þú veist er ég uppeldisfræðingur, ég hef lesið um þetta en aldrei ímyndað mér að mitt barn gæti orðið svona. Okkur leið svo vel þegar hún var lítil og hún var alltaf svo geðgóð og þæg stúlka.„

Ég reikna með að þessi frásögn hljómi kunnuglega – a.m.k. sumt – í eyrum foreldra með unglinga í heimahúsum.

Það er huggun harmi gegn að þetta tímabil tekur enda, það gerir það oftast. Ef ég er spurð hvenær í ósköpunum þessu ljúki svara ég því að gelgjuskeiðið sé örugglega búið um 26-27 ára aldurinn.

Á meðan foreldrarnir eru í miðri hringiðunni geta þau sjálf lent í sálarkreppu með tilheyrandi andvökum og kvíðaköstum og allt getur farið í hnút, svo nauðsynlegt getur reynst að leita utanaðkomandi aðstoðar.

En hvað getum við sjálf gert?

Þegar við fórum að kanna málið, kom í ljós að Lísa hafði verið æði frakkur krakki, sem hafði stjórnað foreldrum sínum með harðri hendi. Faðirinn sagði m&eacute ;r, og það skein í stoltið, að strax tveggja ára hafi hún verið tekin við stjórninni á heimilinu. „Hún var alger kjarnorkusprengja. Við nutum þess þá hvað hún var skýr, það hefðu allir foreldrar gert.„

En foreldrar Lísu komust að því að þau hefðu betur sett henni skýrari mörk. Því eitt er tveggja ára stuðbolti, annað er framhleypinn og óþolandi táningur sem ekki er húsum hæfur.

Börn verða öryggislaus af að finna að þau geta stjórnað foreldrum sínum. Þau þurfa að fá að vita hvað þeim líðst. Þau þurfa að vita sín takmörk. Þau takmörk markast ekki af aldri barnsins heldur þroska og er ein mikilvægasta krafan til foreldra í uppeldi.

Foreldrar Lísu komust að því eftir viðtöl hjá mér að það skásta í stöðunni væri að leyfa henni að vera dálítið í friði. Að þau gæfu því meiri gaum að því sem hún segði og forðuðust að vanda of mikið um við hana.

Faðirinn viðurkenndi að hann væri svolítið viðkvæmur fyrir litlu stúlkunni sinni þegar móðirin sagði, að henni fyndist hún utangátta og í samkeppni við dótturina um athygli föðurins. Þetta hafði honum ekki dottið í hug, hann hafði staðið í þeirri trú að hann væri betri uppalandi en konan hans og að það væri þess vegna sem Lísa væri honum auðsveipari.

Móðirin ákvað að forðast að ögra Lísu og koma sér bara burt ef dóttirin væri óstöðug og stefndi í uppistand.

Það kemur fyrir að unglingarnir valda svo mikilli togstreitu á heimilinu að hjónabandið stefnir í upplausn. Það er ábyrgð foreldranna en ekki unglinganna að grípa í taumana.

Þetta er aldrei barninu „að kenna„. Það eru samskipti fullorðna fólksins sem hrinda unglingnum út í vitleysuna. Ef hjónabandið er í andarslitrunum og hætta á skilnaði er það kærleiksverk að ræða við unglinginn um að fara í heimavistarskóla frekar en að skilja.

Ég hef kynnst fullorðnu fólki sem er sannfært um að foreldrar þeirra hafi skilið vegna þess að það sjálft hafi hagað sér eins og fáráðar og þjáist af samviskubiti yfir því.

Fleiri heilsutengdar greinar má finna á 

doktor.is logo

SHARE