Skilnaður – Haltu þig á mottunni, barnanna vegna!

Það er sorgleg staðreynd að skilnuðum fjölgar með hverju árinu. Margir, ef ekki flestir, sem eiga börn í kringum mig eiga fleiri en eitt barnsforeldri. Ég held að hluti af vandanum sé hvað við, hér á landi, erum að flýta okkur að eignast börn og erum þá kannski alltof óþroskuð til að takast á við það og allt sem því fylgir. Oft er fólk ekki búið að klára allan þann þroska sem það á eftir og þá eiga pör það til að þroskast í sundur. En ég ætla nú ekki að fara að gefa mig út fyrir að vita ráðgátuna á bakvið skilnaði á Íslandi.

Ég hef séð ótrúlega marga „subbulega“ skilnaði og sambandsslit og það sem er  verst við það er hvernig það fer með aumingja börnin sem eiga í hlut. Við skulum ekki gleyma því að ekkert af þessum börnum báðu um það að koma í heiminn og þess þá síður báðu þau um að verða skilnaðarbörn.

Ef skilnaðir enda í leiðindum sem svo oft vill verða, reynið þá í guðs bænum að grafa stríðsöxina, fyrir börnin ykkar. Ég hef séð aðeins of oft fólk vera að tala illa um barnsföður eða barnsmóður svo barnið heyri. Sumir segja hlutina bara beint út en flestir sykurhúða leiðindin aðeins og segja t.d. „pabbi þinn getur aldrei keypt neitt handa þér“ eða „já er það ekki tíbískt mamma þín, hún hefur ekkert breyst“ eða „pabbi þinn er alltaf svo upptekinn“ og svo framvegis. Börn eru ekki vitlaus og þau finna alveg að það eru leiðindi í gangi og það má ekki gleymast að þessi manneskja sem verið er að tala um er mamma eða pabbi barnsins og því ætti maður að vanda orðavalið.

Reyndu að muna frekar eftir því jákvæða í fari barnsforeldris þíns og ekki einblína á galla manneskjunnar. Þetta er manneskja sem verður alltaf í lífi þínu og mun mæta í fermingu, brúðkaup og aðra stórviðburði í lífi barnsins og því verður ekki breytt. Það er undir okkur sjálfum komið hvernig við viljum hafa þessi samskipti.

 

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here