Heimagerðar blautþurrkur – Hagstætt og gott fyrir barnið

Þegar ég átti yngsta barnið mitt núna í nóvember sl. þurfti ég að fara að hugsa um ótrúlegustu hluti aftur, semsagt barna-tengda hluti, því ég var ekki búin að vera með kornabarn í nokkur ár. Eitt af því var hvernig ég ætlaði að hreinsa litla viðkvæma bossann! Ég lenti í því með miðjubarnið mitt að bossinn brann alveg rosalega og það skipti engu hvað við foreldrarnir gerðum eða hvaða krem við notuðum. Meira að segja reyndi ég að breyta um mataræði því hún var brjóstabarn og ég vildi bara vera alveg viss um að þetta hefði ekkert með mitt mataræði að gera.

Ég man nú ekki alveg hver það var sem benti mér á þetta fyrst en meðal þeirra sem talaði um þetta var góð vinkona mín sem var að eignast tvíbura-bróðurbörn og sagði hún mér að bróðir hennar og mágkona notuðu svona heimagerðar blautþurrkur og þær væru ekki bara góðar fyrir viðkvæma húð barnsins heldur eru þær góðar fyrir budduna líka og hver er ekki að elska það!

Þessi „uppskrift“ er eins og ég hef gert þetta en þetta er svona einfalt:

½ liter af heitu vatni (ég hef hitað það í katli að suðumarki
1 -1 ½ msk kókosolía
ca. ¾ af grisjupakka (ég hef keypt þá í rekstrarlandi)

Leggið grisjurnar í box (Tupperware eru með mjög góð box sem eru gerð fyrir svona). Setjið kókosolíuna út í vatnið og hrærið þangað til hún er alveg leyst upp. Olía og vatn skilja sig að sjálfsögðu, þannig að ég hef hrært hraustlega alveg þangað til ég helli yfir grisjurnar, vatnið er í raun enn á hreyfingu þegar ég helli. Reynið að hella jafnt yfir grisjurnar og svo nota ég skeiðina sem ég hræri með til að þjappa vel til að vera viss um að allar grisjurnar séu vel blautar, en þó ekki of blautar.

Ég mæli alveg hiklaust með þessu, og ekki síður vegna þess að hægt er nota þessar þurrkur líka í andlit og á hendur án nokkurs samviskubist því við vitum með vissu að engin eiturefni eru í þeim.

Vonandi verðið þið jafn ánægð með þetta og ég því þær hafa reynst mér rosalega vel!

SHARE