Hummus – Uppskrift frá Café Sigrún

Sigrún klikkar aldrei þegar kemur að matargerð og treysti ég henni í blindni þegar matur er annars vegar. Fyrir utan hvað uppskriftirnar hennar eru ljúfengar og bragðgóðar þá eru þær allar án sykurs, hveiti og gers.

Með góðfúslegu leyfi hennar deili ég þessari ljúfengu uppskrift af hummus frá heimasíðu hennar og mæli eindregið að þið lítið þar við á cafesigrun.is

Uppskriftin er:

•    Án glúteins
•    Án mjólkur
•    Án eggja
•    Án hneta en með fræjum
•    Án hneta
•    Vegan

Athugið að uppskriftin er merkt sem án hneta en hún inniheldur tahini sem er unnið úr sesamfræjum sem sumir hafa ofnæmi fyrir.


Innihald fyrir 3-4

•    1 dós (240 g án vökvans) soðnar/niðursoðnar kjúklingabaunir, hellið vatninu af
•    2 msk tahini (sesammauk)
•    1,5 msk sítrónusafi
•    0,25 tsk cumin (ekki kúmen)
•    Smá klípa cayennepipar eða paprika
•    1-2 stór hvítlauksrif, afhýdd og söxuð smátt
•    2 msk eða meira af vatni eða sojamjólk (má sleppa)
•    1-2 msk ólífuolía (sumir nota meiri ólífuolíu)
•    1 tsk tamarisósa
•    Svartur pipar eftir smekk


Aðferð

1.    Ef maður hefur nægan tíma er gott að losa hýðið af niðursoðnu kjúklingabaununum. Mér finnst bragðið verða betra en þetta er algjörlega smekksatriði og ekki nauðsynlegt að gera. Til að losa hýðið af kjúklingabaunum er gott að leggja þær í um 5 mínútur í skál með vatni og nudda þær varlega með fingrunum. Við það flýtur hýðið upp á yfirborðið. Það þarf ekki að gera þetta en er samt mjög gott, mér finnst hummusinn verða betri svoleiðis. Ekki hugsa mikið um notaðar augnlinsur meðan þið gerið þetta, maður gæti misst matarlystina!!

2.    Hellið öllu vatni af kjúklingabaununum og setjið þær í matvinnsluvél. Maukið í 10 sekúndur.

3.    Afhýðið hvítlaukinn, saxið hann smátt/pressið hann og bætið honum út í ásamt cayennepipar, cumin, sítrónusafa, tamarisósu og tahini.

4.    Maukið allt saman í um 30 sekúndur eða skemur ef þið viljið grófari áferð.

5.    Kryddið með meiri tamarisósu og svörtum pipar. Einnig má bæta aðeins við af tahini ef þið viljið meira bragð af því.

6.    Ef þið viljið hummusinn aðeins mýkri, má bæta vatni eða sojamjólk út í hummusinn.

7.    Berið fram í skál og dreifið smá klípu af cayenne pipar yfir. Einnig er gott að setja 1 tsk af ólífuolíu í miðjuna á hummusinum (búið til smá dæld í hummusinn og hellið ofan í).


Gott að hafa í huga

•    Berið fram með grófu nýbökuðu brauði, eða grófu speltbrauði og fullt af grænmeti; gúrkum, tómötum, maískorni, papriku, sveppum, jöklakáli osfrv.

•    Hummus er æðislegur innan í vefjur.

•    Það er gott að setja grænmeti, niðurskorið á diska svo að hver og einn geti raðað í sitt brauð eða í sína vefju.

•    Það er líka æðislega gott að rista pítubrauð mjög vel (eða grilla í ofni) og brjóta svo í bita og nota til að dýfa í hummusinn! Athugið þó að pítubrauð inniheldur ger.

•    Hummus passar einnig vel með hrískökum, hrökkbrauði, flatkökum og svo mætti lengi telja.

•    Tahini (sesammauk) fæst í heilsubúðum og heilsudeildum matvöruverslanna. Ég nota yfirleitt dökkt tahini en einnig má nota ljóst (ekki eins hollt og það dökka).

 

SHARE