Hvað er rósroði?

Rósroði (e. rosacea) er sjúkdómur/kvilli í húð sem hrjáir fullorðið fólk, en líkist einna helst bólóttri húð unglinga. Rósroði kemur yfirleitt ekki fram hjá fólki fyrr en eftir þrítugt. Þetta kemur fyrst fram sem roði á höku, kinnum, nefi eða enni og til að byrja með er þessi roði að koma og fara. Þessi fyrstu einkenni eru því oft tekin sem eitthvað tilfallandi, sólbruni eða eitthvað slíkt og því hunsuð.

Ef ekkert er að gert verður roðinn varanlegri, háræðarnar fara að verða sýnilegar og bólur og fílapenslar koma fram. Nefið getur orðið rautt og bólgið sérstaklega hjá karlmönnum. Í sumum tilfellum verða augun viðkvæm, jafnvel vökvakennd og blóðhlaupin.

Rósroða er ekki hægt að lækna, en það er hægt að draga úr einkennunum og jafnvel halda þeim niðri með lyfjum og breyttum lífsstíl.

Það eru nokkur atriði sem einstaklingur með rósroða ætti að hafa í huga, sem geta komið einkennum af stað eða ýtt undir þau. Hér í þessari grein verða talin upp nokkur þeirra.

Veður

Mikil sól, hiti og raki, kuldi og vindur eru þekktir áhrifavaldar.

Forðastu alltaf að láta sólina skína á andlitið.

Haltu þig innandyra í kældu rými á heitum og rökum dögum.

Hafðu trefil um andlitið í miklum kulda ef þú þarft að fara út.

Notaðu rakakrem daglega þegar kalt er í veðri.

Álag

Álag er einn af áhrifavöldunum og er talinn hafa mikil áhrif. Flestum einstaklingum sem eru undir miklu álagi hefur reynst vel að nota hinar ýmsu slökunaraðferðir. Til að reyna að fyriryggja það að álagið verði of mikið, getur þú prófað eitthvað af eftirfarandi:

Hugsaðu vel um sjálfa þig. Borðaðu heilsusamlega, hreyfðu þig hæfilega, sofðu nóg og minnkaðu koffín neyslu.

Prófaðu djúpöndun undir miklu álagi, andaðu inn teldu einn, andaðu út og teldu upp að tíu. Endurtaktu þetta nokkrum sinnum.

Leggstu niður og slakaðu á öllum vöðvum líkamans, byrjaðu efst í hársverðinum og enninu og endaðu í tánum, skildu ekkert eftir.

Notaðu ímyndunaraflið, lokaðu augum og ímyndaðu þér rólegan stað eða mynd og njóttu þess í nokkrar mínútur að upplifa friðinn í kyrrð þessa staðar.

Sjá einnig: Hvað er til ráða við appelsínuhúð

Mataræði

Mataræði getur haft mikil áhrif á Rósroða og getur einstaka drykkur eða matur komið kasti af stað.

Heitt kaffi eða súpa, kryddað nachos, glas af víni – Það er afar mismunandi eftir einstaklingum hvað kemur kasti af stað. Hver og einn verður í raun að finna út hvað það er sem hentar honum og hvað hentar ekki. Það er þó vitað að t.d. sterkur matur og áfengi koma í mörgum tilfellum af stað roða.

Eftirfarandi getur hugsanlega hjálpað þér við að velja þér mataræði.

Þú verður að fylgjast sérstaklega vel með því hvernig rósroðinn hjá þér bregst við áfengi. Ef áfengi kemur af stað roða hjá þér skaltu minnka áfengismagnið sem þú drekkur hverju sinni eða jafnvel hætta alveg að nota áfengi.

Forðastu sterk krydd eins og svartan og hvítan pipar, cayenne og paprikukrydd, þessi krydd eru þekkt fyrir að koma kasti af stað.

Minnkaðu hitann, það getur verið nóg að minnka hitann á kaffinu, súkkulaðinu og teinu til þess að geta notið þess án þess að eiga á hætu að fá kast.

Síðan verður þú yfirhöfuð að fylgjast vel með því hvaða matur orsakar kast hjá þér, það er mjög margt sem hefur verið skráð að geti valdið kasti, en það virðist vera afar einstaklingsbundið.

Æfingar

Þrátt fyrir að æfingar geti verið hluti af heilbrigðum lífsstíl, þá geta of miklar æfingar verið slæmar fyrir einstakling með rósroða.

Forðastu erfiðar og hraðar æfingar sem valda því að þú hitnir mikið og roðnir í framan.

Reyndu frekar að gera æfingar stutt í einu t.d. 15 mínútur í senn 3x á dag í staðinn fyrir að gera allt í einu.

Ef þú vilt hreyfa þig utandyra t.d. skokka, þá skaltu forðast að gera það þegar mjög heitt er í veðri.

Það þarf að vera góð loftræsting innandyra þar sem æfingar eru gerðar.

Reyndu að halda þér eins köldum og þú getur á meðan þú æfir. Hafa rakt kalt handklæði um hálsinn, sjúga ísmola, bleita andlitið reglulega með köldu vatni, þetta getur allt hjálpað til.

Andlitshreinsun

Einstaklingar með rósroða þurfa að hugsa meira um það hvernig þeir hreinsa andlit sitt en aðrir, eftirfarandi ráðleggingar geta hjálpað.

Forðastu heitt vatn á andlitið, heita potta og sauna.

Byrjaðu hvern dag á góðri og mjúkri andlitshreinsun, mikilvægt að nota eingöngu mjúkar vörur, forðast harða þvottaklúta bursta og annað slíkt.

Aldrei toga, ýta, kreista, rispa eða á nokkurn annan hátt meðhöndla andlit þitt harkalega.

Láttu andlit þitt þorna vel af sjálfu sér áður en þú berð á það krem eða annað slíkt.

Karlmenn ættu að nota bestu sköfu sem völ er á hverju sinni og skipta ört um hnífa og bera milt krem á andlitið eftir rakstur, forðast rakspíra eða sterk krem sem svíður undan.

Rósroðasjúklingar ættu að varast að nota mikið af sterakremum, en þau eru oft gefin vegna exems sem er fylgifiskur sjúkdómsins.  Sterarnir valda því að með tímanum geta áræðarnar víkkað og húðin þynnst.

Sjá einnig: 5 atriði sem stuðla að hreinni & heilbrigðri húð

Húðkrem og snyrtivörur

Krem og snyrtivörur eru nauðsynlegar fyrir þá sem eru með Rósroða, en það getur skipt miklu máli hvaða vörur eru notaðar og getur hver einstaklingur þurft að prófa margt áður en hann finnur það sem hentar. Hér eru örlitlar leiðeiningar við val.

Varastu andlitskrem sem svíður undan eða valda roða. Það geta t.d. verið krem sem innihalda: alcohol, mentol, piparmintu og ólívuolíu svo eitthvað sé nefnt.

Notaðu helst eingöngu lyktarlausar vörur.

Forðastu púður.

Meðferð

Reynslan sýnir að lasermeðferð getur hjálpað heilmikið (photoderm), en sú meðferð eyðir háræðunum.  Ýmis lyf eru notuð en meðferð er yfirleitt stýrt af húðsjúkdómalækni.

 

Fleiri heilsutengdar greinar má finna á doktor.is logo

 

SHARE