„Í gærkvöldi íhugaði ég sjálfsvíg“

Í gærkvöldi íhugaði ég sjálfsvíg, í þriðja skiptið á hálfu ári. Einu sinni lét ég verða af því en var bjargað. Alla daga, alltaf geng ég dimma dali sjálfseyðileggingarinnar sem þunglyndi og kvíði er. Ég hef aldrei og mun aldrei verða í mínum huga nógu góð fyrir þá sem standa mér næst. Í mínum huga er ég ein stór mistök sem hefðu aldrei átt að verða til. Ég varð til samt, hef eignast 4 börn og á dásamlegan eiginmann og í raun finnst mér því verkefni, eða takmarki mínu í hinu veraldlega lífi lokið. Ég er engin manneskja til að standa mig í hlutverki móður, dóttur, systur, eiginkonu né móður.

Þó svo að það sé lág rödd aftast í heila mér sem veit betur, þá nær hún ekki yfirhöndinni. Mér finnst ég vera baggi og ekkert nema vandamál/hugarangur allra í kring um mig. Eins mikil gunga og ég er, á ég eflaust aldrei eftir að öðlast kjarkinn til að klára þetta sjálf. En ég held samt að ef að á heildina er litið myndu mínir nánustu, þó þeir eflaust syrgðu mig, eiga bjartari framtíð, lausa við drama og áhyggjur ef ég væri ekki hér.

Sjá einnig: Það mega bara tvær koma heim til mín – Þjóðarsálin

Einn af stærstu steinunum sem ég ber í mínum samviskubunka, sem er orðinn ansi stór eru endalausar fjárhagsáhyggjur. Ég, og við höfum aldrei staðið vel fjárhagslega, en eftir að þunglyndis og kvíðapúkinn tók öll völd hefur allt hreinlega farið til fjandans. Ég hef nefnilega fram að þessum tíma, getað aflað einhverra tekna inn á heimilið, með íhlaupavinnu og sölustörfum. Eftir að ég varð, hreinlega grænmeti, hef ég ekki haft heilsu í að skeina mitt eigið rassgat, hvað þá heilsu eða sjálfsöryggi í að afla tekna. Ég hef selt allt út af heimilinu sem mögulega einhverjir peningar eru í en það dugar ekki. Eftir sjúkrahúsdvalir mínar kem ég heim með grjót í maga og kökk í hálsi, maðurinn minn nánast tekjulaus vegna endalausra veikinda/fjarvista út af mér og mínum sjúkdómi.

Vegna þess að við erum bæði á vanskilaskrá vegna gamalla húsnæðislána höfum við ekki lánstraust og erum orðin háðari og háðari reddingum frá vinum og fjölskyldum. Skuldum við því peninga í allar áttir og sjáum ekki hvernig við komumst fram úr þessu þar sem innkoma dugar enganvegin fyrir útgjöldum.

Get ég því ekki annað, eins og í gærkvöldi, en hugsað hversu léttara það væri ef ég væri ekki hér. Maðurinn minn fengi hærri barnabætur, hærri húsaleigubætur og kostnaðurinn við mig og minn sjúkdóm, lyf og annað rugl myndi hverfa. Mér finnst ég hafa lagt eins mikið og meira en hægt er á hann og fólkið mitt. Börnin mín eru það ung að þau eiga erfitt með að skilja að mamma þeirra sé veik þó hún sé ekki með hita né slösuð. Þeim finnst líka, skiljanlega, ótrúlega leiðinlegt og ósanngjarnt að megin uppistaðan í eldhúsinu heima er brauð, núðlur, ostur og skinka. Ég sem hélt að börn gætu, liggur við, endalaust borðað núðlur og ristaðar samlokur með skinku og osti, svo er skinkan skorin í tvennt hver sneið og það er bara í boði að setja ost öðru megin þegar brauðið er grillað.

Sjá einnig: Þjóðarsálin: Í Guðs bænum hjálpaðu þeim sem eru þunglyndir

Þeim finnst líka skrítið og leiðinlegt að þurfa að byrja nýtt skólaár með stílabækur síðan í fyrra, þar sem notuðu blaðsíðurnar eru klipptar frá, með blýanta stubba síðan í fyrra og gömlum strokleðrum og liti á meðan að skólasystkini þeirra mæta með allt glænýtt í skólann. Þeim finnst líka ósanngjarnt og leiðinlegt að þau fá ekki að njóta sömu tómstunda og vinir þeirra. Eins er ósanngjarnt og leiðinlegt að við förum aldrei neitt öll saman, en það er af því að við eigum ekki bíl sem rúmar okkur öll. Ef ég myndi hverfa, kæmust þau öll í einn bíl. Ekki eigum við útilegubúnað, fellihýsi, tjaldvagn né tjald og engan bíl svo ekki komumst við í útilegur með fólkinu okkar úti á landi og það finnst börnunum líka ósanngjarnt. Þó svo við ættum útilegubúnað þá eflaust ættum við ekki bensín né bíl til að fara á mannamót. Þar sem stolt mitt eða feluleikur er ekki tilbúin að viðurkenna okkar vandamál fer ég að verða uppiskroppa með afsakanir fyrir því að við mætum aldrei neitt.

Síðastliðinn mánuð eyddi ég á spítala vegna minna veikinda. Lagði ég allt í hendur mannsins míns og annara aðstandenda og reyndi eftir fremsta megni að setja allan minn kraft í eigin heilsu. Allan tímann sem ég lá inn á þessum spítala var ég með nagandi samviskubit yfir því að eyða almannafé í mig, þegar allir aðrir hafa meiri rétt á þjónustunni en ég. Ég marg sagði sömu söguna, söguna mína, sem er samt svo asnalega óspennandi miðað við marga aðra og í hvert skipti var ég minnt á það að margir biðu eftir sömu þjónustu. Eftir að hafa verið send heim, minnkaði ekki samsviskubitið né vanlíðanin, að koma til baka, karlinn búinn að missa mikið úr vinnu, lánin við ættingja hækkað gríðarlega og börnin upptjúnuð eftir óskiljanlegan tíma þar sem mamma var í burtu.

Sjá einnig: Mér finnst ekki gaman að vera mamma – Þjóðarsálin

Ég, samt sem áður frá öllu því sem sagt er hér að ofan er blessunarlega laus við alla öfund og fordóma. Ég er ekki í því og mun aldrei horfa í annara manna mál né koppa og mín vandamál eru ekki í mínum huga sambærileg við aðra. Margir hafa það verra en ég og vanmet ég það ekki. Ég vill þó opna umræðu almennt um andleg veikindi „venjulegs“ fólks. Þó svo að einn af mínum stærstu samviskupúkum og steinum hlúti að peningaleysi vanmet ég hvorki, né fyrirlít, annara vandamál og veit ósköp vel að hvað sem er getur verið uppspretta andlegrar vanlíðanar. Ég ber fulla virðingu fyrir öllum lifandi verum, sama hverrar trúar viðkomandi er, litarháttar, uppruna eða hvers kyns eða kynhneigðar hver er. Við eigum okkur öll rétt á jarðríki og þó ég sé ekki tilbúin til þess að trúa á Guð eða æðri mátt, trúi ég samt sem áður á að öll okkar eigum okkur hlutverk og hvert og eitt okkar á sér tilgang.

Nú vilja allir bjarga og redda heiminum, ástandið í Sýrlandi o.sv.frv. En hver ætlar að sjá til þess að ég sjái tilganginn í því að lifa og vera til staðar fyrir börnin mín? Hver ætlar að sjá til þess að þessi heimilislausi sem er pabbi/afi/bróðir/frændi einhvers annars eignist heimili og haldi lífi?

Hver ætlar að hjálpa og aðstoða alla hina sem minna mega sín? Er í alvöru auðveldara að aðstoða út fyrir landsteinana en þeim sem búa okkur nær? Á Íslandi er til fullt, FULLT af fólki eins og ég, enn meira af fólki sem hefur það verra en ég OG við erum ótrúlega mörg sem sitjum föst í þeirri gryfju að það væri lausn á vandamálum ykkar ALLRA að við létum okkur hverfa. Við erum samt hér og hver er til í að hjálpa okkur?

 

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is. Ef þú hefur áhuga á að deila þinni reynslu, skoðun eða upplifun máttu senda hana á thjodarsalin@hun.is.

SHARE