Jógúrtkökur

Munið þið eftir jógúrtkökunum með súkkulaðibitunum, þessum gömlu góðu?

Mig langaði ótrúlega mikið í svoleiðis um daginn svo ég fór heim til mömmu og fékk uppskriftina sem var notuð á okkar heimili.  Deigið smakkaðist alveg eins og mig minnti og fór því ekki alveg allt í formin.  Ég er búin að gera kökurnar tvisvar upp á síðkastið en í seinna skiptið prófaði ég að minnka sykurinn um helming og viti menn þær voru enn mjög sætar og góðar. Í upphaflegu uppskriftinni er 2 og ½ bolli af sykri en þegar ég gerði kökurnar þannig þá bókstaflega klístruðust þær við puttana á mér, sem var samt alveg mjög gott.

 

 

Jógúrtkökur

 

30-40 kökur

2 ½  bolli hveiti

2 ½  bolli sykur (eða 1 ¼ bolli)

½ tsk matarsódi

½ tsk salt

220g smjör

3 stór egg

1 tsk vanilludropar

1 dós kaffijógúrt

100g saxað súkkulaði

 

Hitið ofninn í 180°C.

 

Blandið þurrefnunum saman í skál og bætið svo smjöri, eggjum og vanilludropum út í. Þar næst er kaffijógúrtinu bætt út í og súkkulaðinu.  Ekki þarf hrærivél því hægt er að hræra allt með sleif.

IMG_3467

Setjið muffinsform á bökunarplötu og setjið deigið í með matskeiðum.

Bakið í um 12-15 mínútur eða þar til kökurnar eru orðnar gylltar og tannstöngull sem er stungið í þær kemur hreinn út.

 

SHARE