Kærasta eða hjásvæfa?

Ég sat á veitingastað um daginn með hóp af skemmtilegu fólki. Við spjölluðum um allt og ekkert og upp spratt umræða um stelpur og hvernig menn horfa á þær. Ég skrifaði einu sinni pistil um það hvernig menn raða stelpum í flokka – annaðhvort eru þær kærustuefni eða bara bólfélagi. Hvað er það samt sem gerir það að verkum að sumar stelpur virðast alltaf enda á þvi að vera „notaðar“ af strákum – þegar það eina sem þær vilja er samband. Þær enda alltaf með sárt ennið og fatta oft ekkert af hverju, en aðrar stelpur geta gert nánast hvaða karlmann sem er að kærasta sínum og oft lenda þær í því að strákar verða jafnvel of ágengir við þær því oft vilja þessar stelpur ekki einu sinni kærasta.

Þetta er ekkert erfitt: Ef þú ert ein af þessum stelpum sem lendir alltaf í hlutverki „bólfélagans“ þá er kannski eitthvað í hegðunarmynstri þínu sem væri ágætt að breyta. Það er ástæða fyrir því að karlmenn hafa áhuga á að deita sumar stelpur en bara sofa hjá öðrum. Þú ert ekkert að fara að negla karlmann niður bara með góðu kynlífi. Hvernig líta menn á þig? Horfa þeir á þig sem „druslu“ vegna þess að þú ert búin að sofa hjá öllum vinahópnum hans? Eða horfa þeir á þig sem stelpu sem þá langar að bjóða út að borða, eyða heilum degi með og jafnvel vakna með? það er nefninlega ekkert það sama að vilja sofa hjá stelpu eða vilja vakna með henni.

Það getur vel verið að þið hafið verið að hittast í einhverja mánuði, það þarf samt ekki að þýða að þú skiptir manninn einhverju máli, fyrir honum getur þú alveg ennþá bara verið fínn dráttur.

Bólfélagatýpan er oft stelpan sem strákurinn býður heim í „kúr“ – það að strákur bjóði þér heim i kúr ætti að vera fyrsta merki um að hlaupa ef þig langar í eitthvað alvarlegra en bara kynlíf. Ef karlmanni myndi virkilega lítast vel á þig myndi hann nú hafa fyrir því að bjóða þér allavega á deit eða kaffihús eða bara eitthvað annað en augljóslega bjóða þér heim í kynlíf. Ef þú segir já og sefur hjá manninum í fyrsta skiptið sem þú hittir hann getur þú alveg búist við því að hann líti ekki á þig sem neitt meira en hjásvæfuefni.

Ef að þú ert of auðveld missir maðurinn ósjálfrátt virðingu fyrir þér, það er bara þannig. Hann langar ekkert að eignast börn með konunni sem var svo auðveld að hún fór með honum heim og gaf honum „hell of a ride“ sama dag og hún hitti hann fyrst. Þá hugsa þeir: Ef það var svona auðvelt fyrir mig að sofa hjá henni, hversu mörgum öðrum hefur hún sofið hjá ?

Býður hann þér út? Þá er ég ekki að tala um út á rúntinn og stoppa hjá aktu taktu, heldur út að borða? Það getur vel verið að hann eigi ekki mikinn pening, en hann hefur liklega efni á því að fara á djammið með vinum sínum, eða hvað það nú er sem hann eyðir í svo að hann hlýtur nú, andskotinn hafi það, að geta haft smá metnað til að tríta þig smá. Ef þetta er eitthvað sem vantar ættir þú að láta þig hverfa, þú ert ekkert nema dráttur fyrir hann.

Ertu traust? Ef þú ert að sms-a fullt af ‘back up’ strákum á sama tíma og þú ert að tala við hann er ekki líklegt að hann hafi áhuga a því að setja þig í kærustuhlutverkið, körlum finnst ekkert voðalega heillandi þegar stelpur eru með marga í takinu.

Kynnir hann þig fyrir fjölskyldu sinni? Ef hann gerir það þá skiptir þú hann líklega einhverju máli, ef hann forðast að minnast á þig við mömmu sina er þetta ekkert að fara að verða neitt hjá ykkur, strákar kynna konu ekki fyrir mömmu sinni nema þeim sé alvara.

Þegar allt kemur til alls skiptir það alltaf máli að bera virðingu fyrir sjálfri sér. Þegar maður byrjar að bera virðingu fyrir sjálfum sér byrja aðrir að gera það líka. Ef maður laðar alltaf að sér „skíthæla“ þarf maður kannski bara að vinna aðeins í sjálfum sér því að hver getur elskað þig ef þú elskar þig ekki sjálf?

Svo virðist það vera stór misskilningur hjá ungum stelpum að það sé eftirsóknarvert að þykjast vera heimsk og láta sér fátt finnast um það sem er að gerast í heiminum – Það er auðvitað bara akkúrat það sem mun gera það að verkum að þú verður álitin „hjásvæfa“ en ekkert meira. Kynntu þér málin og ekki liggja á skoðunum þínum. Strax og gaurinn sér að þú ert gáfuð og veist um hvað þú ert að tala finnst honum þú áhugaverð og langar að kynnast þér betur.

Það er bara staðreynd að stelpur tengja kynlíf meira við tilfinningar en strákar og karlmenn eiga auðveldara með að stunda svo til tilfinningalaust kynlíf, sama hvað við berjumst við að reyna að sannfæra sjálfar okkur um annað þá er það ekki jafn auðvelt fyrir stelpur. Þess vegna enda stelpurnar oft eftir sárar. Sérstaklega stelpur með lágt sjálfsálit.

Ég held að eina ástæðan fyrir því að sumar stelpur eru hjásvæfur en aðrar kærustur sé sjálfsálit og sjálfsvirðing. Strax og þú ert komin með virðingu fyrir sjálfri þer breytist allt í kringum þig. Einnig strákamálin.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here