Kjúklingabaunasúpa með sætum kartöflum

Haustið er komið í allri sinni dýrð með kólnandi andvara og nú sem aldrei fyrr er úrval af fersku grænmeti í matvöruverslunum í hámarki eftir uppskeru sumarsins.   Þau ykkar sem hafa kynnst því að rækta sinn eigin matjurtargarð hafið eflaust upplifað ánægjuna sem fylgir því að nota sínar eigin afurðir til matargerðar. Það góða við grænmetissúpur er að hægt er að nota nánast allt það grænmeti sem til er hverju sinni. En hráefnið í súpuna sem ég ætla að deila með ykkur að þessu sinni kemur einmitt að hluta til úr matjurtargarðinum mínum.

Fyrir 4-5
Innihald
•    1 stór laukur, saxaður smátt
•    2 hvítlauksrif, söxuð smátt
•    2 msk kókosolía
•    8 gulrætur
•    5 meðalstórar kartöflur
•    1 stór sæt kartafla
•    400 g saxaðir tómatar (ferskir eða úr dós)
•    1 lítri vatn
•    200 g kjúklingabaunir í dós
•    100 g frosnar, grænar baunir
•    1 búnt af ferskum graslauk
•    1 búnt af fersku basil
•    2 gerlausir grænmetisteningar
•    1 tsk rautt karrímauk (meira eftir smekk)
•    1 tsk turmeric
•    1 tsk tandoori
•    1 tsk karri madras
•    Sjávarsalt
•    Svartur pipar

Aðferð
1.    Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið smátt.
2.    Skrælið kartöflur og gulrætur í smáa bita.
3.    Hitið kókosolíuna í stórum potti á meðalhita. Bætið lauknum og hvítlauk í pottinn og hitið í 5 mínútur eða þangað til laukurinn er farinn að mýkjast.
4.    Bætið gulrótum og kartöflum saman við ásamt kryddinu og hitið í nokkrar mínútur.
5.    Bætið vatni, tómötum, grænmetisteningunum og karrímaukinu saman við.
6.    Minnkið hitann og setjið lokið yfir. Hitið í 30 mínútur.
7.    Notið töfrasprota eða matvinnsluvél og maukið hluta af súpunni til að gera hana þykkari.
8.    Bætið kjúklingabaununum og grænum baununum út í og hitið í um 15 mínútur.
9.    Smakkið súpuna til með kryddinu.
10.    Fyrir sælkera er gott að bera súpuna fram með grískri jógúrt og totillaflögum.

Ljósmynd: Þóra Breiðfjörð

SHARE