Kólesterólhækkun í blóði

Hvað þýðir kólesterólhækkun í blóði

Kólesterólhækkun í blóði er í sjálfu sér ekki sjúkdómur en hinsvegar er hún ein aðalorsök æðakölkunar. Það er sérstaklega hið skæða LDL kólesteról sem sest innan á æðarnar og veldur æðakölkun. HDL kólesteról er hinsvegar gagnlegt og veitir vörn gegn æðakölkun ef gildi þess er nógu hátt. Hlutfallið milli LDL og HDL kólesteróls skiptir því máli við þróun æðakölkunar. Hægt er að draga úr LDL kólesteróli með réttu mataræði og lyfjum einnig er hægt að auka HDL-kólesterólið með hreyfingu og breyttu mataræði. Konur hafa hærra gildi HDL kólesteróls en karlar.

Hvað er kólesteról

Kólesteról og þríglýseríðar eru helstu blóðfitur líkamans. Þau eru mikilvæg byggingarefni fyrir frumurnar og einnig nauðsynleg við myndun sumra hormóna. Kólesterólmagnið í blóðinu er háð mataræði og framleiðslu lifrarinnar á því. Kólesteról er flutt um líkamann bundið mismunandi próteinum.

Hvað er „kólesterólgildið“

Þegar heildarkólesteról er mælt í blóði eru mældar helstu kólesterótegundirnar m.a. HDL og LDL kólesteról. Kólesterólmagnið í blóðinu eykst með aldrinum þannig að allt að 50% Íslendinga sem eru eldri en 45 ára eru með kólesteróltölu yfir viðmiðunarmörkum.

  • Stuðst er við eftirfarandi viðmiðunargildi:
    • Æskilegt heildarkólesterólgildi í blóðinu er minna en 5,0 –5,5 mmól/L:
    • Á bilinu 5,6-6,4 mmól/L er talað um væga hækkun.
    • Á bilinu 6,5-7,9 mmól/L er talað um mikla hækkun.

    Meira en 7,9 mmól/L; þá er hækkunin orðin mjög svæsin og hættuleg. Eins og áður sagði skiptir hlutfallið milli HDL og LDL í heildarkólesterólinu máli. Æskilegt er að HDL kólesteról sé 1,0-2,0 mmól/L, helst hærra en 1,5. Efri mörk LDL kólesteróls verða því 3,0-3,5 mmól/L. Efri mörk þríglýseriða í blóði eru 2,5 mmól/L.

Hver er orsökin

Bæði erfðir og umhverfi hafa áhrif á kólesteról í blóði. Í dag eru mun fleiri tilfelli en áður, þar sem LDL kólesteról er mikið hækkað, tengd erfðum og fjölskyldusögu. Almennt er kólesteról í blóði norður Evrópubúa hærra en íbúa í suður Evrópu og mikliu hærra en íbúa í Asíu. Kólesterólhækkun er einnig tengd öðrum sjúkdómum, t.d. truflunum í efnaskiptum, nýrnasjúkdómum og sykursýki, einnig hefur misnotkun áfengis áhrif á kólesteról í blóði.

Hver eru einkennin

Engin einkenni fylgja sjálfri kólesterólhækkuninni en hinsvegar fylgja einkenni fylgikvillunum, sem eru æðakölkun og þar af leiðandi kransæðasjúkdómar. Einkennin lýsa sér með þungum verk bak við bringubeinið, sem leiðir jafnvel út í handleggi eða upp í háls, við líkamlega áreynslu, kulda og jafnvel rok hjartaöng – hjartakveisa). Ef einkennin verða mjög mikil eða ef þau koma í hvíld getur það verið merki um kransæðastíflu. Önnur einkenni geta verið verkir í fótum við gang sem hverfa í hvíld (Claudicatio intermittens) og svimi. Æðakölkun hefst í raun mjög snemma á lífsleiðinni. Með tímanum þrengjast æðar og yfirborð þeirra verður óreglulegt. Þannig kemst blóðið ekki leiðar sinnar og blóðtappi getur myndast. Þegar blóðflæði til vefjanna minnkar eykst hætta á skemmdum í þeim. Þannig að ef blóðtappi myndast í kransæðum hjartans getur sá hluti hjartavöðvans sem er handan við tappann skemmst. Þá myndast örvefur sem dregur úr starfsemi hjartans.

Hvað er hægt að gera

Mikilvægt er að vera meðvitaður um að kólesterólhækkun er einungis einn af mörgum þáttum sem leiða til æðakölkunar. Fyrirbyggjandi aðgerðir ættu því meðal annars að beinast að kólesterólhækkuninni. Hætta að reykja. Nýleg rannsókn leiddi í ljós að miðaldra konur og menn sem reykja eru líklegri til þess að fá hjartaáfall en þeir sem ekki reykja. Áhættan er í raun meiri fyrir konur sem reykja en karla sem reykja þar sem hjartaáföll eru hvort sem er mun algengari meðal karla en kvenna.

Mataræðið er einnig mikilvægur þáttur. Mælt er með grófu brauðmeti, ávöxtum, grænmeti, mögru kjöti, fiski og ólífuolíu. Ef kólesterólríkrar fæðu, eins og eggja, skeldýra og innmatar er neytt í hófi mun það ekki hækka kólesterólmagnið í blóðinu þar sem framleiðslan í lifrinni minnkar. Hreyfing af einhverju tagi 3-4 sinnum í viku, helst 30 mínútur í senn, er æskileg. Það er nauðsynlegt að vera nálægt kjörþyngd og sérstaklega ætti að forðast að fita setjist á magann, sú fita er talin hættulegri en önnur.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn

Eftir 10 klukkustunda föstu er tekið blóðsýni til þess að mæla LDL- og HDL-kólesterólmagnið í blóðinu, einnig eru mæld þríglýseríð. Talað er um hækkað kólesteról ef það mælist meira en 5,5-6 mmol/L hjá fullorðnum einstakling í kjörþyngd sem hefur ekki sykursýki, nýrnasjúkdóm eða truflun á efnaskiptum. Vísbendingar um svæsna kólesterólhækkun: Kólesterólútfellingar (nokkurs konar hnútar) á sinum, t.d. á handarbaki, hásin eða í húðinni umh verfis augun. Læknirinn getur fengið grófa mynd af ástandi hjarta- og æðakerfis með því að taka hjartalínurit, hlusta hjartað og hálsæðar og þreifa eftir púls í útlimum.

Hver er meðferðin

Í flestum tilvikum er hægt að ná árangri með að breyta mataræðinu. Mikilvægt er að reyna að forðast harða fitu eða transfitu, skipta yfir í fjölómettaðar eða einómettaðar fitusýrur eins og ólífuolíu sem dæmi. Nota krydd og draga úr saltneyslu. Neyta fiskmetis, helst feitari fisktegunda, sneiða hjá humri og rækju. Kjöt ætti að vera frekar magurt og ekki oftar en einu sinni í viku, engar unnar kjötafurðir. Borða hnetur og ávexti, ferskt grænmeti helst eitthvað í öll mál. Varðandi kolvetni ætti að horfa til flóknari korntegunda eins og rúgur, bygg, spelt. Þá er hægt að nota stanolestera sem eru til dæmis í Benecol sem er mjólkurdrykkur. Rannsóknir hafa sýnt að svokallað miðjarðarhafsmataræði er líklegt til að hafa góð áhrif á kólesteról. Þar má einnig neyta áfengis í hófi en þá er miðað við að hámarki eitt glas 0,2l af rauðvíni á dag fyrir konur og 1,5 glös fyrir karla.

Algengt er að einstaklingar þurfi lyfjameðferð þrátt fyrir góða stjórn á mataræði og eru til margar tegundir lyfja í því efni og eru einnig vel þekktar aukaverkanir af þeim sem nauðsynlegt er að ræða við lækni sinn komi til meðferðar.

 

SHARE