Leyfir engum að heyra tónlistina sína

 Hinir ástsælu söngvarar Páll Rósinkranz og Margrét Eir taka nú höndum saman og gefa út plötuna If I needed you, með þekktum amerískum þjóðlögum. Bæði eiga þau að baki langan og farsælan feril í íslensku tónlistarlífi og hafa gefið frá sér ótal plötur, jafnt sem sólóistar og í samstarfi við helstu tónlistarmenn landsins.

„Þessi tónlist sækir í sálina,“ segir Margrét Eir og heldur áfram. „Hún krefst mikillar einlægni og næmni af okkur. Þegar þú hefur mikla reynslu þá getur gleymst að sækja í það og stundum er maður aðeins of mikið í vinnunni.“

Sjálf hefur Margrét mest sungið með hljómsveitinni Thin Jim upp á síðkastið auk þess sem hún talsetur barnaefni, leikur á sviði og rekur söngskóla. Einnig er Margrét í ströngu gítarnámi og augljóst að hin fjölhæfa listakona hefur í nægu að snúast. „Ég er líka að semja tónlist sjálf, en leyfi engum að heyra hana! Ég veit ekki eftir hverju ég er að bíða eða við hvað ég er hrædd.“ Þau Páll og Margrét hafa sungið saman í gegnum árin en þykir samstarf þeirra ná nýjum hæðum á plötunni sem væntanleg er í verslanir á næstu dögum.

Í nóvember munu þau halda í tónleikaferð um landið og koma fram á eftirfarandi stöðum:

Gamla Kaupfélagið, Akranesi – 6.nóvember kl 21:00
Kaffi Rauðka, Siglufirði – 7. nóvember kl 21:00
Græni hatturinn, Akureyri – 8.nóvember kl 22:00
Háaloftið, Vestmannaeyjum – 14.nóv kl 21:00
Duus hús, Reykjanesbæ – 21.nóv 21:00
Bæjarbíó, Hafnarfirði – 29.nóv 20:00

SHARE