Magakrampi – hvað er til ráða?

Þegar barn fær magakrampa verður ófremdarástand á heimilinu þar til barnið losnar við magakrampann. Því fylgir gífurlegt álag ef ungbarnið grætur og er óhuggandi, og vita að maður getur ekkert gert. En það eru lítil atriði, sem geta gert gagn, ýmist fyrir barnið eða foreldrana. Bara það að gera eitthvað, að hafa eitthvað fyrir stafni, getur hjálpað!

Hafið hugfast: magakrampinn mun taka enda!

Hvað er magakrampi?

Það versta við magakrampa er að ekki er almennilega vitað af hverju hann stafar. Ýmsar tilgátur eru í gangi en engin þeirra hefur verið sönnuð ennþá eða leitt til nothæfrar meðferðar, samt fá 10 – 15% ungbarna magakrampa.

Algengasta kenningin gerir ráð fyrir því að of starfsemi sé í þörmum barnsins, og örar hreyfingar þarmanna líkist þarmakrampa. Önnur tilgáta er á þá lund að starfsemi þarmanna sé of hæg þannig að loft safnist fyrir og valdi sársauka þegar það þenst út í þörmum barnsins. Aðrir halda því fram að það tengist því hverst hratt barnið borðar, að það borði of mikið eða gleypi of mikið loft og ropi ekki nóg. Ný kenning felst í að samband geti verið milli magakrampa og neyslu móðurinnar á kúamjólk.

Hvernig veistu hvort barnið er með magakrampa?

Magakrampi þekkist á ýmsum dæmigerðum einkennum.

Magakrampi kemur fram þegar barnið er 2-4 vikna og kvelur barnið í u.þ.b. 3 mánuði.

Barnið grætur sárt í 2-3 klukkustundir og er óhuggandi. Þetta gerist yfirleitt á sama tíma dags, oftast 1-2 sinnum á sólarhring.

Barnið er með magakvalir, dregur undir sig fæturna og kreppir hnefana.

Sum börn fá hávært garnagaul og eru með mikið loft í þörmunum.

Gakktu út skugga um að það sé raunverulega magakrampi sem amar að barninu. Sár, langvarandi og óhuggandi grátur þarf alltaf athugunar við áður en því er slegið föstu að barnið sé með magakrampa. Aðrir sjúkdómar geta einnig valdið sárum, langvarandi gráti, til dæmis garnaflækja, aðkreppt eista eða utanaðkomandi sársauki. Ef þú ert í vafa skaltu alltaf hafa samband við lækni.

Hættir barnið að fá magakramps ef móðirin breytir um mataræði?

Því hefur verið haldið fram að magakrampi geti komið fram eða versnað ef móðirin borðar mat sem veldur vindgangi.

Matvæli sem geta valdið vindgangi eru: appelsínusafi, grænmeti, sérstaklega laukur og kál, ávextir eins og epli og plómur, sterkt kryddaður matur, súkkulaði, kaffi og te.

Það eina, sem hægt er að gera, er að prófa sig áfram. Prófaðu eitt í einu og athugaðu hvort þú finnur mun á barninu. Best er að láta líða tvo daga milli nýrra matartegunda, sem þú borðar, svo að þú vitir hvaða áhrif þær hafa á barnið.

Hvað er hægt að gera fyrir barnið?

Enginn veit fyrir víst hvað veldur magakrampa, og því er ekki vitað hvað læknar hann. En nokkur ráð má þó reyna.

Mörg krampabörn róast svolítið ef þeim er ruggað fram og til baka. Það getur verið í vöggu, ruggustól, rólu eða á hnjánum.

Sumum börnum líður betur ef þau eru borin í magapoka. Þau róast við að hossast svolítið og við líkamshita fullorðnu manneskjunnar.

Sjá einnig: Hvernig veistu hvort barnið er með magakrampa?

Þegar barninu er gefið að borða má reyna að gefa því hægar, láta það ropa oft og láta það borða upprétt. Ef barnið fær þurrmjólk getur verið reynandi að skipta um tegund og athuga hvort það hefur eitthvað að segja.

Stundum róast börn með magakrampa af tónlist eða einhæfum hljóðum. Sumir foreldrar hafa tekið eftir því að barnið róast við ryksuguna eða við að fara í bíltúr. Einnig má reyna að syngja fyrir barnið. Foreldrarnir verða líka rólegri og finnst þeir vera að gera eitthvað fyrir barnið.

Börnum með magakrampa getur liðið betur ef þau eru nudduð. Ef barnið er nuddað létt yfir magann getur það linað þrautirnar og hjálpað því að leysa vind. Þegar þú nuddar yfir kvið barnsins er mikilvægt að gera það með hringhreyfingum frá vinstri til hægri (séð frá iljum barnsins). Það er vegna þess að ristillinn liggur í þá átt inni í barninu og þannig örvast þarmarnir í rétta átt og hjálpar því til að losna við loftið.

Sumum börnum finnst gott að láta vefja teppi þétt um sig eða að haldið sé fast utan um þau.
Minifom dropar sem fást í apótekum hjálpa mörgum börnum
Einnig er gott  að útiloka að barnið sé ekki undirliggjandi sjúkdóma eins og bakflæði,eyrnabólgu eða þvagfærasýkingu.

Prófaðu þig áfram. Ef þú ert í vafa spurðu þá hjúkrunarfræðinginn á heilsugæslustöðinni ráða.

Hvernig tekstu á við að annast barn með magakrampa?

Það reynir mikið á að eiga barn með magakrampa. Foreldrarnir finna hræðilega til með litla barninu sínu, sem er svona kvalið og grætur sárt tímunum saman.

Það má þó hafa í huga að barnið er heilbrigt og að magakrampinn eldist af því á nokkrum mánuðum. Magakrampinn hefur ekki varanleg áhrif á þroska barnsins. Þvert á móti, krampabörn örvast mjög!

Þú verður að fara vel með þig á þessu tímabili. Foreldrar krampabarna ættu að skiptast á að annast barnið af og til svo að hitt geti hvílst á meðan. Einnig getur verið nauðsynlegt að leita liðssinnis vina og fjölskyldu. Það er betra að biðja um aðstoð en að þumbast áfram í slíkum erfiðleikum. Það er líka léttir að tala um hvað það geti verið erfitt að vera foreldri. Talið saman um raunir ykkar og vonbrigðin yfir því að frumbernska barnsins er ekki eins rómantískur tími og vonir stóðu til, einnig um þá óútskýranlegu og óraunhæfu sektarkennd sem hrjáir ykkur, en magakrampinn er ekki ykkur að kenna! Einnig getur verið til bóta að ræða við aðra foreldra sem búa yfir sömu reynslu. Ef þið þekkið engan er athugandi að hjúkrunarfræðingurinn geti haft um það milligöngu.

 

Fleiri heilsutengdar greinar má finna á doktor.is logo

SHARE