Mér var sagt að pabbi vildi ekki hitta mig – Ég veit betur í dag

Þegar ég var barn átti ég fyrst um sinn mömmu og líka pabba. Mamma og pabbi bjuggu ásamt mér í lítilli íbúð í Reykjavík, það er ekki langt síðan þetta var, það er líklega ágætt að taka það fram að við bjuggum enn saman fyrir um 10 árum síðan. Ég og pabbi gerðum stundum skemmtilega hluti saman, ég man eftir því að við fórum í veiðiferðir, göngutúra og stundum tók hann mig með að horfa á fótboltaleik. Ég elskaði pabba og mömmu jafn mikið eins og flest börn gera.

Ég varð stundum var við leiðindi milli mömmu og pabba og ég man eftir rifrildum en ég hélt að það væri bara eitthvað sem væri eðlilegt af og til. Eftir eitt rifrildið sagði mamma mér svo að pabbi væri fluttur frá okkur. Ég skildi ekki alveg af hverju og leið eins og hann væri að yfirgefa okkur. Daginn eftir, eftir að ég kom heim úr skólanum kom pabbi heim, mamma var að vinna svo við vorum bara tveir. Hann sagði mér að mamma og hann gætu ekki búið saman lengur en að það þýddi ekki að við myndum ekki hittast og að ég mætti koma til hans þegar ég vildi. Þetta róaði mig aðeins og mér leið ekki lengur eins og pabbi hefði yfirgefið okkur.

Fyrst um sinn kom pabbi alltaf að sækja mig í skólann á föstudögum en ég fékk bara að vera hjá honum til mánudags. Ég fann það mjög fljótt að mömmu var ekki vel við að ég færi til pabba, ég heyrði hana oftar en ekki tala illa um hann við vinkonur sínar og ég fékk stundum að heyra um hvað pabbi minn væri mikill vesælingur. Þetta særði mig mikið og gerði það að verkum að ég þorði aldrei að segja mömmu frá neinu skemmtilegu sem ég gerði hjá pabba vegna þess að ég fékk alltaf slæm viðbrögð, eins og ég hefði sært hana og stundum fór hún að gráta og sagði mér hvað pabbi væri vondur. Ég sagði mömmu að ég vildi fá að vera lengur hjá pabba en aðra hverja helgi frá föstudegi til mánudags. Ég vildi fá að vera jafn mikið hjá þeim báðum en hún sagði að það væri ekki hægt og sagði að það væri betra fyrir mig að vera hjá henni.

Þegar ég fór til pabba á föstudögum fékk ég aldrei að fara í fötunum sem ég var vanalega í, ég þurft að fara í gömlum og jafnvel rifnum fötum og skóm sem ég notaði ekki lengur. Svona gekk þetta í nokkra mánuði þar til allt í einu mér var sagt að ég gæti ekki farið til pabba lengur og ég og mamma fluttum í annað bæjarfélag. Mamma sagði mér að pabbi væri kominn með nýja konu og vildi ekki hitta mig lengur. Hún sagði mér að hún hefði alltaf þurft að pína pabba til að hitta mig þau skipti sem við hittumst en nú segði hann bara nei. Ég vildi fá að hringja í pabba en fékk það ekki. Mér leið ömurlega, mér fannst eins og ein uppáhaldsmanneskjan í mínu lífi hefði hafnað mér. Pabbi vildi ekki hitta mig.

Ég fékk reglulega að heyra ljóta hluti um pabba.. hvað hann væri sjálfselskur, að hann ynni of mikið, að hann væri aumingi, vesælingur og að ég væri heppinn að þurfa ekki að alast upp með honum. Þessir hlutir voru ekki endilega sagðir við mig beint, heldur voru þessir hlutir ræddir með mig viðstaddann. Þetta særði mig mikið en með tímanum fór ég að trúa þessu og varð reiður við pabba. Ég nefninlega vissi það ekki að meðan á þessu stóð var pabbi að berjast fyrir því að fá að hitta mig.

Pabbi kom stundum á leikvöllinn þar sem ég lék mér og heilsaði upp á mig, hann hefur þá gert sér sérferð í bæinn sem ég bjó í til að hitta mig. Ég var varkár þegar ég hitti hann þar sem ég mundi allt sem mamma og fjölskyldan mín hafði sagt um pabba. Pabbi náði að hafa samband við mig af og til og sendi mér alltaf pakka á afmælum og jólum, það var alltaf eitthvað að því sem hann gaf mér skv. mömmu og það var aldrei nógu gott.

Það komu helgar af og til þar sem ég fékk að hitta hann, þá oft hafði ég beðið um að fá að hitta hann. Þessar helgar voru góðar en ég var samt sem áður alltaf með þá hugsun að það væri eitthvað að pabba, sú hugsun hafði verið innprentuð í mig. Svo liðu mánuðir þar sem ég fékk ekki að hitta hann og allan tímann hélt ég að það væri vegna þess að hann vildi það ekki.

Mamma var góð við mig, en í dag er ég reiður við hana fyrir þann tíma sem hún rændi af mér og pabba.

Eftir að ég varð unglingur náði pabbi að hafa samband við mig þar sem allt var orðið auðveldara, Myspace og Facebook var komið til sögunnar sem auðveldaði okkur margt. Ég vildi í fyrstu ekkert mikið af honum vita þar sem það var enn innprentað í mig að hann væri slæmur maður en ég hafði samt alltaf þennan vilja til að eiga samskipti við pabba minn sem ég elskaði ennþá, þrátt fyrir alla ljótu hlutina sem um hann höfðu verið sagðir. Ég flutti til Reykjavíkur og þá breyttist allt. Ég var orðinn 18 ára og því sjálfráða og nú voru mér og pabba allar dyr opnar. Pabbi hafði mikið samband við mig og bauð mér að búa hjá sér og konunni sinni og tveimur systkinum mínum sem ég hafði aldrei almennilega fengið að kynnast. Ég þáði það og eftir það endurnýjuðum við okkar samband. Pabbi hefur aldrei talað illa um mömmu en það kom að því að ég spurði af hverju hann hefði ekki viljað hitta mig. Það var þá fyrst sem ég fékk að vita hvernig hlutirnir hefðu í raun og veru verið.

Mamma og pabbi skildu eftir að hafa reynt að hanga saman í 1 ár eftir framhjáhald mömmu. Það gekk ekki upp og mamma endaði sambandið á endanum. Eftir að sambandið var á enda var alltaf erfitt fyrir pabba að fá að hitta mig en eftir að hann eignaðist konu varð allt brjálað og þá fyrst bannaði mamma pabba fyrir alvöru að hitta mig. Pabbi reyndi að sameiginlega umgengni en fékk það ekki eftir að mamma hafði flutt okkur til annars bæjarfélags og því var það ekki lengur hagkvæmt fyrir barn í skóla að fá að vera viku hjá pabba sínum og viku hjá mömmu sinni. Pabbi átti að fá að hafa mig aðra hverja helgi en það var svikið nánast alltaf. Mamma sagði honum að ég vildi ekki hitta sig og að ég hefði ekki gott af því að umgangast hann. Pabbi reyndi alltaf að fá að eiga samskipti við mig og þetta tók mikinn toll af hans fjölskyldu allri. Hann átti þá aðra konu og 2 börn en það vantaði alltaf mig, barnið sem hann fékk ekki að hitta.

Í dag er ég nýlfuttur út frá pabba, hann hjálpaði mér að koma mér fyrir í leiguíbúð sem ég bý í hér í Reykjavík og við eigum í daglegum samskiptum. Ég elska mömmu líka en ég er enn í dag sár út í hana að hafa rænt mig þessum tíma með pabba. Mamma var ekki sátt við samskipti okkar pabba fyrst en í dag hefur hún sætt sig við þau og beðið mig afsökunar á hegðun sinni. Sú afsökunarbeiðni breytir samt ekki öllum særindunum í æsku og öllum þeim tíma sem ég missti af með pabba og systkinum mínum. Ég upplifði mikla höfnunartilfinningu sem barn vegna þess að ég hélt að pabbi vildi ekkert með mig hafa. Í dag veit ég betur.

Mig langar bara að benda þeim foreldrum sem ekki eru saman á það að sá sem særist mest er barnið. Barninu þykir jafn vænt um báða foreldra og á rétt á því að umgangast báða foreldra. Kerfið í dag er mæðrum í hag en sem betur fer hef ég heyrt og séð að þetta er að breytast, réttindi feðra eru að aukast en þó vantar enn mikið upp á. Þessi atvik gerðust bara fyrir nokkrum árum, ég er fæddur 1992. Það skiptir engu máli þó særindi séu á milli fyrrverandi maka, það á ekki að bitna á barninu. Það eina sem þú uppskerð með því að beita umgengnisforeldri tálmum er gremja á seinni árum þegar barnið er orðið eldra og áttar sig á hlutunum. Það að tala illa um annað foreldrið er ekkert nema ofbeldi gegn barninu því að því þykir líka vænt um hitt foreldrið.

Munum þetta fyrst og fremst: Barnið á rétt á að umgangast báða foreldra jafn mikið.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here