„Mig langar að deyja“ – Hulda Hvönn segir sögu sína

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

Ég er ekki mjög gefin fyrir að skrifa um sjálfa mig eða almennt að tjá miklar tilfinningar. Ég forðast það að horfa á raunveruleikasjónvarp þar sem „tilfinningaklámið“ er alls ráðandi og ég notast við hugtök eins og „Hollywood-rúnk“ og „að krútta yfir sig“. Ég hins vegar, því miður, hef tilfinningar líkt og aðrir og líklegast jafnmikla þörf á að tjá þær og flestir, þótt ég reyni mitt besta við að halda aftur að því.

Ég ætti kannski að byrja á því að minnast á það að ég er ekki beinlínis grannvaxin. Ég hef þurft að berjast fyrir því, frá því að ég var barn, að halda mér í kjörþyngd og er þá alltaf í efri mörkum. Þetta væl fer yfirleitt í taugarnar á mér í blaðagreinum og öðrum vettvangi tilfinningalegra yfirlýsinga, en þetta spilar stóran þátt í lífi margra svo oft er erfitt að komast hjá því að minnast á holdafar manns, sérstaklega í samfélaginu okkar í dag. Þjóðfélagið er nefnilega haldið ákveðinni þráhyggju varðandi þetta og mikið hefur borið á því í umræðunni. Nýlegasta dæmið er hvort læri kvenna „megi“ snertast eða ekki þegar þær standa með fætur saman. Ég get fullvissað þig um það, kæri lesandi, að lærin mín búa við gott samlífi (einum of náið fyrir minn smekk) og hafa gert það síðan ég man eftir mér. Mér varð það ekki einu sinni ljóst fyrr en nýlega að það væru yfir höfuð til konur sem væru ekki með samsnertandi læri – ef svo mætti að orði komast.

Þótt ég hafi aldrei upplifað þá algleymings sælu að vera með aðskilin læri þá hef ég vissulega verið bæði þyngri og grennri en ég er í dag. Núna nýlega tókst mér að léttast umtals vert, miðað við mig að minnsta kosti, og bara í vor var ég sjálf farin að sjá mun á mér, sem gerist sjaldan. Það skrítna var hins vegar að ég hef sjaldan verið jafnvansæl og síðastliðið vor. Margt hafði gerst, orsökin skiptir kannski ekki öllu og þeir vita sem það vita, hinir þurfa þess ekki. Í stuttu máli þá var ég sjálf helsta ástæða eigin vansældar og ég vissi upp á mig sökina. Ég hafði brotið af mér á svo marga vegu og á svo mörgum sem mér þótti vænt um að ég endaði á því að skrá mig inn á bráðamóttöku geðdeildar. Ég skammaðist mín svo mikið að ég reyndi að segja ekki nokkrum manni frá því, en þar sem ég á barn sem þarfnaðist umönnunar í fjarveru minni varð ég fljótlega að gera mínum nánustu það ljóst hvar ég héldi mig yfir daginn.

Nú kunna sumir að halda að þeir sjái í gegnum plottið, að ég í eymd minni og volæði hafi svelt mig og lést þannig óeðlilega mikið á stuttum tíma en svo er ekki. Ég hef aldrei verið þannig gerð að andleg líðan mín hafi áhrif á matarræðið. Ég var á þessum tíma aðeins að borða mjög hollt og eðlilega, stundaði mína líkamsrækt af natni og reyndi að lifa sem heilbrigðast. Þið þekkið alveg þessa rullu, þú borðar hollt 6 daga vikunnar en 1 dag máttu nota eins og þú vilt. Voða sniðugt, voða effektíft. Þar var að minnsta kosti eitt svið í mínu lífi sem ég hafði stjórn á, þegar allar aðrar brýr virtust brenndar. Samt…  Samt, þrátt fyrir aðeins betra líkamlegt ástand og betra líferni, leið mér svo illa að ég sá mig sjálfa knúna til að keyra vælandi upp á bráðamóttöku geðdeildar og skrifa í einhverju histerísku sjálfsvorkunnarkasti á eyðublað sem mér var rétt: „mig langar að deyja, gerðu það hjálpaðu mér, ég á lítið barn.“

Ég hlífi ykkur við frekari frásögn af sumrinu sem tók við, af lyfjunum og einangruninni og öðru miður skemmtilegu, aðallega af þeim ótta við að þeir sem þekki mig og lesa þetta hugsi: „Æ, góða, þú átt ekkert bágt. Hættu að vorkenna sjálfri þér.“ Það má líka vel vera, þegar ég horfi til baka sé ég að ég vorkenndi sjálfri mér óþarflega mikið og var á tímabili fórnarlamb í eigin lífi. Breytir því hins vegar ekki að ég hef séð betri daga en þá. En það er hvort eð er ekki punkturinn. Punkturinn er þessi: kemur hamingjan með réttu holdafari?

Þegar ég var 17 ára skeði eitt það leiðinlegasta atvik sem ég hef þurft að upplifa. Ég hef sagt flestum mínum nánustu frá þessu svo þetta ætti ekki að vera neinar nýjar fréttir í þeirra eyrum. Betur þekkt sem bókasafnssagan þá hefst frásögnin á bókasafni, sem kemur kannski engum á óvart. Ég var með kærastanum mínum (núverandi barnsföður og fyrrverandi eiginmanni) í einum af básunum á bókasafni skólans að læra. Hann var með tölvuna sína og eins og hvert annað par á þessum aldri og þessu stigi sambands þá vorum við þarna í einhverjum faðmlögum, gott ef ég stóð ekki fyrir aftan hann og hélt utan um hann, horfði á tölvuskjáinn og var raunar fáum til ama, að mínu mati. Það skeði svo að hópur stráka sem ég hafði farið með í grunnskóla gekk inn og plantaði sér niður, tveimur básum frá okkur. Þeir voru nokkrir saman, man ekki alveg hversu margir, en nóg til þess að geta kallað þá hóp. Ég var ekki stór aðdáandi þeirra, var enda leiðinlegur krakki og grunnskólaganga mín eftir því, svo ég reyndi eins og ég gat að hunsa tilvist þeirra. Ég gat þó ekki annað en sperrt eyrun þegar ég heyrði mig nefnda í samræðum þeirra. Þeir stóðu ekki meira en svona 1 og ½ meter frá okkur svo þeir hafa væntanlega gert sér grein fyrir því að ég heyrði það sem milli þeirra fór. Samræðurnar voru svo sem ekki ýkja merkilegar, snerust aðallega að því hvað þeim „þótti ótrúlegt að manneskja eins og ég gæti átt kærasta“, að þeim „þætti tilhugsunin við að snerta mig ógeðsleg“, að það væri „fáránlegt að ég gæti sannfært nokkurn mann um að sofa hjá mér“, að ég væri „viðbjóðsleg“ og þessi „strákur sem ég var að deita hlyti að vera virkilega desperate“.

Ég spurði kærasta minn hvort hann heyrði það sem þeir væru að tala um en hann var of djúpt sokkinn í verkefnið sitt til þess að heyra og stóð nokkurn veginn á sama þótt ég segði honum frá því sem ég heyrði. Hann bað mig bara um að hunsa þá og láta eins og ég heyrði þetta ekki. Hvað sem ég reyndi samt þá fannst mér erfitt að gefa því ekki gaum sem fram fór á milli þeirra og enn þá erfiðara þótti mér það þegar einn þeirra missti símann sinn í gólfið og hann datt í sundur við tærnar á mér. Ég beygði mig niður, tók brotin upp og rétti honum. Eigandi símans tók hann hlæjandi að mér. Hvað hann sagði við mig man ég ekki, hvort hann hreytti framan í mig „takk“ eða einhverju öðru en hvað sem það var þá hló hann framan í andlitið á mér. Ég á erfitt með að segja af hverju, kannski fannst honum undirgefni mín aðhlátursverð eða kannski var það bara andlitið á mér sem kallaði fram þessi viðbrögð. Það skiptir svo sem ekki öllu.

Eftir þetta átti ég frekar erfitt uppdráttar svona sjálfsálitslega séð. Ég var sannfærð um að þetta væri af því að ég væri of feit. Strákum finnst feitar stelpur ógeðslegar, er það ekki? Það virtist rökrétt niðurstaða. Kannski hefði mér tekist betur að sannfæra mig um að það hefði ekki verið neitt til í þessu hjá þeim ef það hafði bara verið einn, kannski tveir sem hefðu verið að tala um mig. En þeir voru svo margir að í dag hef ég ekki einu sinni tölu á því. Speglaði álit þessara drengja almenningsálitið á mér? 17 ára er ekki auðveldur aldur til þess að vera á og þaðan af síður ef eitthvað svona hentir mann. Það er auðvelt að komast að fljótfærinni niðurstöðu sem dregur mann niður.

Það hjálpaði auðvitað ekki að aðeins nokkrum mánuðum síðar varð ég ófrísk. Konur virðast ekki beinlínis grennri ófrískar (þótt að ég hafi vissulega kastað upp í morgunógleðinni um það bil 5 kílóum af mér). Það þótti vissulega saga til næsta bæjar að einhver 17 ára stelpa væri ófrísk og allt í einu varð ég einhver sem allir þekktu, ekki á þann hátt sem ég kærði mig um. Í dag er dóttir mín að verða 17 mánaða og ég er enn að heyra kjaftasögur um það hvernig ég varð ólétt, að hún sé rangfeðruð, að mér hafi verið bannað að nota getnaðarvarnir, að ég sé ofsatrúarmanneskja, að ég hafi mikið farið á milli manna o.s.frv. Sögur sem ég er yfirleitt síðust til þess að heyra, sem er verra því mig langar yfirleitt mest að vita hvað ég var að gera sem er svo sjokkerandi að fólk sem ég hef ekki hugmynd um hvert er, veit að ég var að gera. En það er önnur saga.

Hvað sem því líður þá líður mér talsvert betur í dag en ég gerði í vor og fyrir það. Þetta hljómar eflaust fáránlega í eyrum margra en ég er fráskilin, einstæð móðir og ég er ekki orðin tvítug en það er langt síðan mér leið svona vel. Samt sem áður er ég ekki í einhverju „ideal“ formi eða í einhverri ákveðinni þyngd. Þýðir það í alvöru að ég sé ógeðsleg og það sé viðbjóðslegt tilhugsun að snerta mig? Kallið mig gamaldags, en mér finnst það ekki, þótt ég beri skilning til þess að það finnist ekki öllum ég eitthvað ofuraðlaðandi þá er hitt heldur gróft til orða tekið.

Mér finnst þetta hvorki beinast að stelpum né strákum því að samfélagið gerir miklar útlistlegar kröfur til beggja kynjanna en mér er það gleði að segja að ég hef sífellt meir og meir komist að því að samfélagið er ekki eins einsleitt og ég hélt það áður. Ég þekki alls konar fólk sem fýlar allar gerðir af fólki. Stelpur sem fýla lágvaxna, þykka gæja; stráka sem sækjast mest eftir „körví“ gellum, stelpur sem finnst það ekki aðlaðandi þegar strákar eru of massaðir; strákar sem eru ekki alveg á því máli að stór brjóst jafngildi góðum brjóstum. Og svo auðvitað allar blöndur af þessu og allt þarna á milli. Við erum mismunandi af því að við sækjumst eftir mismunandi týpum af fólki. Ef mannshugurinn væri svo einfaldur að einhver ein gerð af manneskju væri það eina sem þætti aðlaðandi þá værum við öll byggð á þann hátt. Sem betur fer er heimurinn bara ekki þannig.

Og eins klisjukennt og inntakið þess sem ég er að reyna að koma til skila kann að vera þá stendur það samt fyrir sínu. Samfélagið er kannski ekki eins einsleitt og maður hefði haldið, álit einhvers eins er ekki álit allra annarra og það álit sem mestu máli skiptir er þitt eigið.

-Hulda Hvönn Kristinsdóttir

 

SHARE