Mikilvægt að velja réttan öryggisbúnað fyrir börn

Ef notaður búnaður er valinn er nauðsynlegt að hann sé ekki útrunnunninn eða hafi lent í tjóni.

Þegar öryggisbúnaður fyrir barn í bíl er valinn er mikilvægt að gefa sér góðan tíma til að kynna sér hvað í boði. Búnaðurinn þarf nefnilega bæði að passa barninu og bílnum. Hægt er að fá upplýsingar á heimasíðum framleiðenda eða í bæklingi sem fylgir honum um hvort búnaðurinn passi í tiltekinn bíl.
Flest börn nota þrjár tegundir af öryggisbúnaði um ævina áður en þau nota bílbeltið eitt og sér.

Ungbarnabílstóll
Fyrsti stóllinn er í flestum tilvikum gerður fyrir börn upp að 13 kílóum. Slíka stóla er hægt að nota sem burðarstóla. Einnig er hægt að fá stóla sem henta frá fæðingu þar til barnið er orðið 18 kíló, en þeir henta ekki til burðar og eru því hafðir fastir í bílnum.
Vert er að hafa í huga að aldrei má setja barn undir eins árs í framvísandi barnabílstól, en mælt er með notkun bakvísandi bílstóla til þriggja ára aldurs. Það er talið öruggara vegna þess að höfuð barnsins er hlutfallslega stórt og þungt og hálsliðir þess ekki fullþroskaðir. Með því að nota bakvísandi barnabílstól eru minni líkur á alvarlegum áverkum á mænu og heila.

Barnabílstóll
Þegar barn vex upp úr ungbarnabílstól er tímabært að flytja það í stól sem hentar börnum upp í 18 eða 25 kíló. Þeir stólar eru festir í bílinn með bílbelti eða ISOFIX festingum, en barnið sjálft er fest í stólinn með fimm punkta belti.

Bílpúði með baki
Eftir að barn hefur náð 18 til 25 kílóa þyngd er óhætt að setja það á bílpúða með baki. Athugið að sum merki framleiða bílpúða með baki fyrir börn frá 15 kílóum en þó er ekki ráðlegt að setja börn mjög ung á bílpúða með baki.
Ekki er mælt með notkun bílpúða án baks. Bæði veitir bakið hliðarárekstrarvörn og eins kemur það í veg fyrir að bílpúðinn renni undan barninu. Á bakinu eru auk þess lykkjur eða hök til að festa beltið í sem tryggir að það falli rétt að líkama barnsins. Bílpúða með baki skal nota þar til barnið er 36 kíló eða 10 til 12 ára.

 

 

Er notaður búnaður öruggur?
Margir freista þess að spara peninga með því að kaupa notaðan barnabílstól, leigja eða fá lánaðan, en það getur verið varhugavert. Miðstöð slysavarna barna mælir ekki með því að notaður sé öryggisbúnaður keyptur af ókunnugum þar sem ekki er hægt að kanna með vissu hvort hann hefur lent í tjóni.

Hvað leigu á barnabílstólum varðar þá er mikilvægt fyrir foreldra að vita að ekkert eftirlit er með fyrirtækjum sem leigja öryggisbúnað hér á landi.

Ef barnabílstóll er endurnýttur frá eldra barni eða fenginn að láni frá ættingjum og vinum er mikilvægt að kanna aldur búnaðarins og fá á hreint að hann hafi ekki lengt í árekstri. Hafi það gerst er búnaðurinn ónýtur, þó ekki sjáist á honum skemmdir.
Miðað er við að ungbarnabílstólar endist í 5 ár frá söludegi vegna þess hvað þeir eru í mikilli notkun, bæði undir barnið í bílnum og ekki síst sem burðarstóll. Allt þetta hefur áhrif á burðarþol hans. Öryggisbúnaður fyrir eldri börn endist í 8-10 ár. Framleiðsludagsetningu barnabílstóla er hægt að finna aftan á stólunum.

Farðu vel yfir allar festingar á notuðum bílstólum, til dæmis beltisfestingarnar. Ef plastið er upplitað í kringum festingarnar þá er búnaðurinn ekki í lagi. Einnig þarf að kanna beltin í honum, að þau séu ekki trosnuð og að spennan sé í lagi (hún á ekki að opnast öðruvísi en að ýtt sé á lásinn).
Barn í bíl
Mikilvægt er að búnaðurinn passi bæði barninu og bílnum.

 

Heimildir: Fréttatíminn

SHARE