Njóttu þess að hlaupa í vetrarkuldanum

Það eru nokkur atriði sem mikilvægt er að hafa í huga ef fólk ætlar að stunda útihlaup á veturna.

 

Eitt það frábæra við útihlaup er að þau er hægt að stunda allan ársins hring, sama hvort það er sól og sumar eða hávetur. En á veturna er mikilvægt að búa sig rétt, bæði hvað fatnað og skóbúnað varðar. Þá eru nokkrir aðrir þættir sem mikilvægt er að hafa í huga, eins og sýnileiki og rétt upphitun. Hér er nokkrar ábendingar sem gott er að fylgja til að fá sem mest út úr vetrarhlaupum.

Klæddu þig rétt

Hvernig þú klæðir þig getur haft úrslitaáhrif varðandi það hvort þú hefur ánægju af hlaupunum eða ekki, því það er fátt verra en að vera of kalt eða heitt þegar hlaupið er.
Vertu í nokkrum lögum af þunnum fötum. Það hjálpar til við að fanga líkamshitann og er því mun hlýrra heldur en ein þykk flík. Þetta á líka við um sokka. Vertu frekar í tvennum þunnum sokkum en einum þykkum. Réttu efnin skipta líka máli. Hægt er að fá sérstakan hlaupafatnað sem hentar vel til að hlaupa í kulda. Þá er líka gott að nota ullina, hún heldur líkamanum þurrum. Forðastu bómullarflíkur, þær einangra lítið og verða þungar og kaldar um leið og þær blotna. Gott er að hafa ysta lagið vind- og vatnshelt og er Gore-Tex góður kostur í þeim efnum. Nylon gerir einnig sitt gagn og það er töluvert ódýrara.
Svo er mikilvægt að muna eftir góðri húfu og vettlingum, og í raun að hylja eins mikið af líkamanum og hægt er. Þannig nýtist líkamshitinn best í kuldanum. En gott er að bera vaselín á þau svæði sem standa út, til að forðast frostbit.

Veldu góða skó

Góðir skór eru mikilvægir í vetrarhlaupum, sérstaklega þegar snjór er yfir öllu og lúmsk hálka getur leynst víða. Það er bæði hægt að kaupa sérstaklega hlaupaskó með nöglum eða láta setja nagla í gamla skó, fyrir betra grip. Þá er mikilvægt að skórnir séu þokkalega vatnsheldir, því blautir fætur komast ekki langt. Þá kemur Gore-tex aftur sterkt inn. Þá er sniðugt að vatnsverja skó með sílikonspreyi sem fæst í flestum skóbúðum og stórmörkuðum.

Vertu sýnileg/ur

Þegar hlaupið er í myrkri er mikilvægt að vera í sýnilegum fatnaði. Skærum litum og með endurskinsmerki. Það er mikilvægt að aðrir hlauparar, hjólreiðamenn og bílstjórar sjái þig. Mikið af hlaupafatnaði kemur með áföstum endurskinsmerkjum, en áberandi litir eru góð viðbót við sýnileikann. Ef lýsingin er takmörkuð á hlaupasvæðinu getur verið gott að vera með höfuðljós til að sjá vel það sem framundan er.

Hitaðu upp

Gott er að hita sig aðeins upp innandyra áður en haldið er út í kuldann að hlaupa. Þá eru minni líkur á því að þér nái að verða kalt í upphafi hlaups. Hlauptu til dæmis nokkrum sinnum upp og niður stiga áður en þú ferð út. Ef þú ert hluti af hlaupahópi, ekki standa úti í kuldanum og spjalla við félagana fyrir hlaupið. Bíðið inni þangað til hlaupið er af stað.

Leiktu á vindinn

Ef það er vindur úti, byrjaðu þá á því að hlaupa á móti vindi og kláraðu hlaupið með vindinn í bakið. Hljómar kannski kjánalega, en með því að gera það þá kemurðu í veg fyrir að nístingskaldur vindurinn bíti í þig þegar þú ert orðin/n sveitt/ur eftir hlaupin. Það getur líka verið sniðugt að hlaupa á móti vindinum í tíu mínútur, snúa svo við og hlaupa með vindinn í bakið í fimm mínútur. Og endurtaka þetta meðan á hlaupunum stendur.

Farðu strax inn

Þú byrjar að kólna um leið og þú hættir að hlaupa. Þess vegna er mikilvægt að komast inn og í ný föt strax að hlaupi loknu. Sérstaklega ef þú hefur náð að svitna duglega. Þá getur líka verið gott að drekka eitthvað heitt til að koma hita í kólnandi kroppinn. Svo er ágætt að hafa það í huga að bíða með hlaupin ef frost er mjög mikið eða veður vont. Ekki fá samviskubit yfir því.

 

Greinin birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE