Ólöf Sverrisdóttir gefur út bókina um Sólu dóttur Grýlu gömlu

Ólöf Sverrisdóttir leikkona hefur glatt mörg börnin í hlutverkinu sem Sóla sem kemur á sögubílnum Æringja í leikskóla og frístundaheimili. Þar segir hún börnunum kyngimagnaðar sögur af uppeldi sínu með Grýlu, Leppalúða og jólasveinunum. Börnin þekkja vel sögubílinn Æringja sem borgabókasafn Reykjavíkur rekur en í sögustundinni er börnunum boðið að sitja inni í bílnum þar sem sögustundin fer fram.

Nú er að koma út bók um Sólu eftir Ólöfu og verður sérstakt útgáfuteiti í Borgarbókasafninu á Tryggvagötu á morgun, sunnudaginn 30. nóvember klukkan 15.00.

Við spjölluðum aðeins við Ólöfu og fengum að kynnast Sólu aðeins og lífi hennar með jólasveinunum.

10341576_10205056151625023_4133497159418836264_n

Hver er Sóla?
„Sóla er dóttir Grýlu og þessi bók fjallar um það þegar Sóla var barn og sólin týndist. Hún fjallar um ferðalag Sólu þegar hún fór að leita að sólinni. Hún hittir nátttröll, hrímþurs, ísbjörn, ref  og ýmsar þjóðsagnapersónur og sumir vilja nú alls ekkert fá sólina aftur… en Sóla gefst ekki upp. Sóla var líka í Stundinni okkar fyrir nokkrum árum þar sem krumminn hennar Kári kom líka við sögu.“

1962725_10205056149864979_4469420429965962495_n

Er Sóla ennþá í fjöllunum hjá Grýlu og jólasveinunum?
„Sóla strauk úr Grýluhelli þegar hún var unglingur og fór með skipi til útlanda og var þar í 100 ár. Hún fór fyrst til Skotlands en hefur þvælst um allan heim og unnið á leikskólum og heyrt margar skemmtilega sögur. Svo eftir að hún kom heim aftur fékk hún vinnu í sögubílnum við að segja sögur. Hún á nú samt ennþá kærasta í Skotlandi,“ segir Ólöf brosandi.

Það getur ekki hafa verið auðvelt að alast upp hjá Grýlu og Leppalúða í köldum fjallahelli. Ólöf segir að oft hafi verið mikil læti og óeirðir í hellinum þannig að Sóla hafi á endanum þurft að flytja til útlanda. En ríkir sátt og samlyndi milli systkinanna í hellinum í dag?

„Já Grýla og Leppalúði eru auðvitað dauð en Sóla var nú aldrei ósátt við jólasveinana. Nei, nei það var kannski aðallega Leiðindaskjóða sem er svo leiðinleg sem er enn í ónáðinni hjá Sólu.

En það er auðvitað Sólu að þakka að jólasveinarnir eru í rauðum fötum svona spari. Þegar Sóla var í Skotlandi þá fékk hún gefins þessi rauðu og grænu föt sem hún er ennþá í og þá sá hún líka jólasveina detta ofanúr strompinum sem voru í rauðum fötum og létu gjafir í sokkana.  Þá sendi hún bréfdúfu til íslands og sagði jólasveinunum frá þessu. Eftir þetta fóru þeir að sjást í rauðum fötum og fljótlega fóru þeir að setja dót í skóinn.“

Útgáfuhátíð í Borgarsafninu á morgun sunnudag klukkan þrjú.
Sóla verður með útgáfuhátíð í Borgarbókasafni Aðalsafni Tryggvagötu 15, á morgun sunnudaginn 30. nóvember klukkan 15.00.

224926_10205105766825372_235355486074872019_n

Þar mun Sóla sjálf lesa upp úr bókinni Sóla og sólin og svo verður boðið upp á veitingar. Ólöf segir að stemningin verði bæði ljúf og skemmtileg. „Aðalsteinn Ásberg kemur og spilar og syngur lög fyrir börn og fullorðna.

Sólu hlakkar afskaplega mikið til að sjá alla og á útgáfuhátíðinni verða bækurnar auðvitað á tilboðsverði svo endilega komið þá og fáið kaffi og djús og fleira góðgæti. Já og það þarf auðvitað ekki að taka fram að Sóla er afskaplega góð við börn og lík bræðrum sínum að því leiti. Og ætli hún syngi ekki einhver jólalög á sunnudaginn þar sem það er fyrsti dagur aðventu.“

Þess má geta að Sóla verður líka í Árbæjarkirkju laugardaginn 6. des kl 15.00 að lesa úr bókinni og mun heimsækja leikskóla í Breiðholtinu fram að jólum. Hver veit nema hún lesi eitthvað úr bókinni annarsstaðar líka.

Viðburðurinn á Facebook

Þú getur nælt þér í eintak af bókinni. Það eina sem þú þarft að gera er að skrifa „JÓLA SÓLA“ í athugasemd hér að neðan. Tveir heppnir fá splúnkunýtt eintak í hendurnar.

Við drögum á morgun!

SHARE