Pug rekur óboðinn gest út af heimili

Pug-hundurinn Lúlli tók aldeilis á honum stóra sínum á þriðjudagskvöldið þegar hann hrakti burt óboðinn gest af heimili sínu. Að sögn allra sem þekkja Lúlla er hann hinn blíðasti hundur og lætur sjaldnast í sér heyra. Það breyttist aldeilis um tvöleytið aðfaranótt miðvikudags þegar Lúlli og eigandi hans lágu í makindum í svefnherbergi hússins, á leið til rekkju. Skyndilega tryllist Lúlli og geltir og urrar svo grimmt að eigandanum Agnesi varð ekki um sel. Þar sem skap Lúlla virtist beinast að íbúðinni opnaði hún fram og Lúlli tók samstundis á rás að eldhúsinu. Það sem þar sést kom Agnesi gjörsamlega í opna skjöldu: Í eldhúsinu stendur ókunnugur maður sem hleypur við þetta út jafn hratt og Lúlli hljóp að honum úr svefnherberginu.
Að sögn Agnesar tekur Lúlli jafnan fagnandi á móti gestum, en þessi boðflenna reyndist undantekning á þeirri reglu. Lúlli var þó ekki skelkaður eftir atvikið, heldur snerist á hæli um leið og maðurinn var hlaupinn út, inn í svefnherbergið aftur og fór rakleiðis að sofa.
Lúlli er sex ára gamall og hefur búið alla ævi hjá Agnesi og segir hún viðbrögð hans við boðflennunni hafa komið sér mjög á óvart, enda hafði hún aldrei talið hann varðhund fyrr. Í kjölfar hetjudáðarinnar hefur hins vegar jafnvel móðir Agnesar, sem aldrei áður hafði þótt mikið til Lúlla koma, tekið hann í sátt.

 

Birtist fyrst í amk, nýju fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE