Starfaði með förðunarfræðingi stjarnanna

Kristjana fékk að starfa með Lisu Eldridge, sem er einn eftirsóttasti förðunarfræðingur í heimi. Á hverju ári fer hún í próf til að halda titli sínum sem alþjóðlegur förðunarfræðingur.
Kristjana Rúnarsdóttir förðunarfræðingur, sem sér um Lancôme á Íslandi, dvaldi í London á dögunum þar sem hún fékk að starfa með Lisu Eldridge í nokkra daga. Óhætt er að fullyrða að Lisa sé einn eftirsóttasti og virtasti förðunarfræðingur í heimi og það var Kristjönu því mikill heiður að fá þetta tækifæri.

Farðar Kim Kardashian

„Lisa er förðunarfræðingur flestra stóru stjarnanna í dag. Eins og Kate Winslet, Natalie Portman og Kim Kardashian. Hún sér líka mjög oft um Vouge forsíðurnar. Hún fær allar stærstu forsíðurnar, líka í Asíu,“ segir Kristjana og heldur áfram: „Maður lærir svo mikið af henni og fær innblástur. Ég hef farðað með mörgum risanöfnum en með Lisu er ég ekki að byggja mig upp til að sanna mig fyrir henni. Við erum að vinna saman. Innblásturinn er gagnkvæmur.“

Lisa er einnig listrænn stjórnandi Lancôme og kemur að þróun nýrra vara. „Hún kemur bókstaflega að öllu. Þess vegna ferðast hún líka mikið um Asíu. Tískan byrjar nefnilega þar og við fylgjum eftir. Þetta var öfugt, en hefur breyst,“ útskýrir Kristjana.

27219 - Kristjana og Lisa

Fer í strangt próf á hverju ári

Tilgangurinn með Londonferðinni var þó ekki bara að hitta Lisu, heldur sótti Kristjana markaðsfundi ásamt því að fara í árlegt próf til að halda titli sínum sem alþjóðlegur förðunarfræðingur. Hún þarf að fá yfir 9 í einkunn, annars missir hún titilinn.

„Þetta er gríðarlega mikið álag en ég tek þessu öðruvísi núna en fyrst. Það fer bara sem fer. Það er auðvitað mikið í húfi. Maður er í prófi alveg frá því maður mætir á staðinn. Prófið snýr að allri hegðun manns, framkomu og hvernig maður kennir. Fyrst þegar ég fór í þetta próf var dómnefndin franska Vouge og Maire Claire. Nú voru í dómnefndinni fagmenn innan Lancôme og Loréal Lux sem tóku meðal annars út persónuleikann og orkuna sem maður gaf frá sér. Maður þarf að hafa algjöra ástríðu fyrir því sem maður er að gera,“ segir Kristjana og hana skortir svo sannarlega ekki ástríðuna. Hún ljómar öll þegar hún talar um starfið – sem hún sinnir af mikilli kostgæfni. Enda hefur henni alltaf gengið vel í prófunum og hefur haldið titlinum frá því hún fékk hann – fyrst íslenskra förðunarfræðinga.

Sér um stóru stjörnurnar

En hvaða þýðingu hefur það fyrir hana að vera alþjóðlegur förðunarfræðingur? „Ég hef verið kölluð út í verkefni út um allt. Hef til dæmis starfað í New York og París. Ísland er auðvitað minn aðalstaður og hér á landi er ég í ýmsum förðunarverkefnum. Meðal annars fyrir blöð og tímarit. Svo þegar einhverjar stórar stjörnur koma til landsins þá er ég fengin til að farða þær. Allar farðanir frá Lancôme fara í gegnum mig á Íslandi. Ég veit kröfurnar þeirra og fæ líka að hafa áhrif.“

Eftir að hafa prófað að vinna með Lisu getur Kristjana líka alltaf átt von á því að vera kölluð út til að sinna verkefnum með henni. „Samband okkar Lisu er mjög gott og við náum vel saman. Hún er einstaklega ljúf og góð og kurteis. Alveg frábær kona og mikill listamaður. Það er alveg frábært að hafa hana með sér í liði.“

27219 - Kristjana

 

Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE