Stjúpmamma segir frá sinni reynslu: „Þetta er hægara sagt en gert“

ATH. Þessi grein er aðsend. Lesendum er frjálst að senda inn greinar undir nafnleynd í Þjóðarsálina, en þær skoðanir sem birtast hér í Þjóðarsálinni endurspegla hvorki ritstjórnarstefnu né skoðanir HÚN.IS 

Þegar ég var lítil stúlka var mín hugmynd um það, þegar ég yrði fullorðin, að ég myndi eiga mann, barn eða tvö, íbúð, bíl og vinnu. Líf mitt er ekki alveg þannig. Það er eiginlega ekkert líkt þessu.

Þegar ég var 20 ára kynntist ég manni og við urðum rosalega ástfangin. Ég var viss. Þetta yrði maðurinn sem passaði fullkomlega inn í „fjölskyldumyndina“ sem ég hafði alltaf ímyndað mér. Mamma og pabbi fíluðu hann og systkini mín voru ótrúlega ánægð með þessa viðbót í fjölskylduna. Allt lék í lyndi og ég varð ófrísk. Við keyptum íbúð, áttum tvo bíla og barn á leiðinni.

Til að gera langa sögu stutta, þá var þetta ekki svona einfalt. Ég varð fyrir því að fá fæðingarþunglyndi og það reyndi mikið á sambandið og þetta endaði með því að við skildum. Ekki misskilja mig, hann reyndist ótrúlega vel á þessum tíma, en það var bara svo margt sem gekk ekki upp eftir að við eignuðumst litla strákinn okkar.

Við ákváðum að hafa strákinn viku og viku og það gekk eins og í sögu. Mig langaði auðvitað að hafa hann alltaf hjá mér en ég ákvað að setja drengsins hag fram fyrir minn eigin og leyfa honum að kynnast pabba sínum til jafns við mig. Annað fannst mér ekki sanngjarnt því pabbi hans var mikill pabbi og elskaði það hlutverk meira en allt í lífinu.

Tíminn leið og ég kynntist mönnum sem ég hitti í skamman tíma og kynnti aldrei fyrir syni mínum, þetta fór allt fram svo hann vissi ekki af þessu. Ég var aldrei tilbúin að blanda honum í þau mál. Eðlilega!

Svo kom að því!

Draumaprinsinn minn mætti á svæðið. 3 árum eldri en ég, skilinn og 2 barna faðir. Blessunarlega átti hann bæði börnin með sömu konunni. Við vorum að hittast í laumi fyrir strákunum til að byrja með, en hann á tvo stráka. Svo eftir rúmlega ár fluttum við saman í flotta íbúð í Vesturbænum. Þá byrjaði ballið, en það vita það allir sem eru í stjúpfjölskyldum að það er ekki auðvelt að púsla þessu öllu heim og saman og fyrsta árið var mjög erfitt.

Við vorum með öll börnin aðra hverja viku og það voru allskonar atriði sem komu uppá. Umgengni hans drengja var, að mínu mati, alls ekki ásættanleg. Ég var alltaf sú sem var „tuðandi“ og mér fannst það ekki skemmtilegt:

„Viltu taka upp fötin af baðherbergisgólfinu?“,

„Það á ekki að fara inn um allt í íbúðinni á blautum skóm!“,

„Gangið frá fötunum ykkar inni í herbergi, ekki skilja þau eftir á miðju stofugólfinu.“

„Diskurinn á að fara í vaskinn eftir matinn“

Ég var á stöðugu tuði en mér fannst að mitt hlutverk sem móðir hafði allt í einu orðið of mikið fyrir mig og ég var í því alla daga og kvöld að ganga frá eftir alla aðra og heimilið var orðið eins og vígvöllur. Við rifumst um uppeldisaðferðir, honum fannst ég alltof ströng og mér fannst hann ekki hafa neinn aga á sínum drengjum. Ég þoldi ekki hvernig hann gerði allt fyrir strákana sína og sagði það við hann, hann gekk undir þeim og það vantaði bara að hann mataði sinn yngri sem var 6 ára. Honum hinsvegar fannst ég vera með alltof margar reglur og „þetta væru nú börn“. Að mínu mati er það samvinna að halda heimili og mér fannst það ósanngjarnt að ég færi úr því að eiga einn dreng, í það að eiga 3 og breyta fallega heimilinu mínu í ruslahaug og mér fannst ég á stöðugum hlaupum að passa upp á að hlutir yrðu ekki eyðilagðir.

Þetta leit ekki vel út og við lentum æ oftar á vegg með samskipti okkar. Við elskuðum hvort annað samt svo mikið og áttum æðislegar stundir þá viku sem við vorum bara 2 saman. Ljótt að segja það, en við vorum bæði farin að kvíða fyrir barnavikunni, ekki vegna þess að við vildum ekki fá börnin, heldur af því að andrúmsloftið var orðið svo rafmagnað á heimilinu.

Við fórum því til ráðgjafa. Við sátum í einn og hálfan tíma hjá ráðgjafanum, ég grét og við létum allt flakka. Ráðgjafinn, sem var búin að sérhæfa sig í svona málum, þ.e. stjúpfjölskyldum, talaði bara hreint út við okkur. Við þurftum að fara milliveginn og aðlagast kröfum og þörfum hvors annars. Að öllu leyti. Ég þurfti að slaka á kröfunum og hann þurfti aðeins að herða sig. Ég þurfti að læra að tjá mig upp á nýtt og hann líka.

Þetta gekk upp! Allt þetta erfiði og leiðindi voru svo sannarlega þess virði og við erum öll svo hamingjusöm í dag. Við og börnin. Það er hægara sagt en gert að púsla saman tveimur fjölskyldum. Það leikur enginn vafi á því en ef þið elskið hvort annað, er alveg hægt að gera það og þið munuð uppskera stórkostlega.

 

Ég hef verið lengi að skrifa þetta og lét lesa yfir fyrir mig og allt og vona að þið sem eruð í sömu sporum og ég var, munið geta notað ykkur þetta eitthvað.

 

 

Tengdar greinar: 

Ert þú stjúpforeldri? – Hér eru nokkur frábær ráð fyrir þig!

Eru allir tilbúnir til þess að verða stjúpforeldrar?

„Stjúpmóður barnanna þinna er annt um börnin þín. Hún gerir sér fulla grein fyrir því að enginn kemur í þinn stað“

„Ég fæddist til að klúðra lífi mínu“

SHARE