Strigaskórnir heitir sama hvernig viðrar

Húrra Reykjavík hefur nú opnað kvenfataverslun á Hverfisgötu 78. Ætla að bjóða upp á landsins mesta úrval af strigaskóm.
Húrra Reykjavík opnaði í gær kvenfataverslun með pomp og pragt, en margar tískudrottningar höfðu beðið eftir þessum tímamótum af mikilli eftirvæntingu. Herrafataverslun Húrra hefur verið starfandi í tæp tvö ár og hefur vöruúrvalið lokkað margan íslenskan herrann til sín.

Gamlar týpur endurvaktar

„Strákarnir hafa náð að skapa ákveðna sérstöðu í herrabúðinni og við ætlum að heimafæra það yfir á kvenfataverslun,“ segir Andrea Röfn Jónsdóttir, verslunarstjóri nýju verslunarinnar. „Við ætlum að bjóða upp vinsælustu „street wear“ merkin í Evrópu í dag. Það er mjög skandinavískur blær yfir þessu hjá okkur, en svo erum við líka með merki sem koma annars staðar frá. Svo munum við bjóða upp á besta úrvalið af „sneakers“ á landinu, en „sneakers“ senan er búin að vera mjög ört vaxandi síðustu ár.“

Andrea segir Húrra ætla að svara þessari miklu eftirspurn sem skapast hefur eftir góðu úrvali af flottum strigaskóm. Þannig fólk þurfi ekki að leita út fyrir landsteinana. „Við spyrjum okkur oft sjálf hvar við vorum að kaupa þessari vörur áður en Húrra varð til. Við ætlum því að leggja mikið upp úr því að vera með besta úrvalið. Það eru mörg merki sem eru að vakna til lífsins aftur og það er verið að endurvekja gamlar týpur.

Við viljum vera á sama stað og flottar „sneakers“ búðir úti í heimi og erum að fá týpur sem getur verið erfitt að fá.“ Andrea segir að þau hjá Húrra njóti einmitt töluverðar virðingar úti í heimi vegna þess hve langt þau hafa náð í innkaupum á vörum á skömmum tíma.

Öll smáatriði útpæld

Tilkynnt var í byrjun febrúar að til stæði að opna Húrra kvenfataverslunin og Andrea segir að strax í kjölfarið hafi hún farið að finna fyrir eftirvæntingu. „Það er búin að vera gríðarleg spenna, bæði í okkar nærumhverfi og hjá fólki úti í bæ sem fílar það sem við bjóðum upp á. En það var reyndar við því að búast, miðað við móttökurnar á herrabúðinni.“

Andrea segir undirbúninginn hafa gengið mjög vel og að þau hafi gefið sér góðan tíma til að spá í hverju einasta smáatriði. „Við pöntuðum til dæmis danskan við í innréttingar og svo erum við með danska ull í hengjunum fyrir mátunaklefana. Þetta er eitthvað sem við gengum frá fyrir löngu. Það er mikil spenna í gangi hjá okkur og við erum að átta okkur á því að fyrirtækið okkar er að stækka um helming.“

Yfirhafnir í hlýjum litum

En hvað verður svo heitast í haust og vetur fyrir konurnar? „Það verður mikið um ullarflíkur í merkjunum sem við erum að panta. Hágæða merino ull. Við erum að fá ullarkjóla, ullarsett – buxur og rúllukragaboli. Svo er sama hvernig viðrar þá eru strigaskórnir alltaf heitir, úr alls konar efnum. Það er ekki þannig lengur að maður leggur strigaskónum á veturna og fer í vetrarstígvél. Svo verðum við með mikið úrval af fallegum yfirhöfnum í hlýjum litum, ekki bara svartar.

 

SHARE