Hvað er hvítsveppasýking í húð?
Sýking í húðinni sem orsakast af þruskusveppi (candida albicans).
Hvernig myndast hvítsveppasýking í húð?
Nauðsynlegt er að gera sér ljóst að allskyns örverur, þar á meðal sveppir þrífast á líkamanum og í honum. Margar örverurnar eru nauðsynlegar í ákveðnu magni og ákveðnum hlutföllum og þeirra verður ekki vart fyrr en samsetning þeirra breytist þannig að ein tegund byrjar að fjölga sér hömlulaust. Þá myndast sýking, t.d. hvítsveppasýking. Hvítsveppasýking getur orðið hvar sem er á húð og slímhúð. Sveppurinn lifir best í raka og hita. Smithætta stafar af hvítsveppasýkingu og sérstaklega sveppasýkingu á slímhúð, t.d. á kynfærum. Sýking smitast við snertingu eins og við samfarir og óbeina snertingu, t.d. við að nota sama handklæði eða sömu föt.
Hver eru einkennin?
Sveppurinn fjölgar sér yfirleitt í húðfellingum, undir brjóstum, í nára og á kynfærum sem og í kringum endaþarm og kemur fram á húðinni:
- klæjandi rauðum útbrotum sem líkjast exemi.
- í hársverðinum, þar getur myndast þrálát flasa.
- frá kynfærunum, þar getur auk þess verið hvítleit kekkjótt útferð samfara kláðanum, á það sérstaklega við um konur.
- með útbrotum ásamt blöðrumyndunum sem minna einna helst á bólur.
Áhættuhópar:
- ungabörn með exem á bleiusvæði.
- einstaklingar með sykursýki eða aðra efnaskiptasjúkdóma.
- of þungir einstaklingar.
- þungaðar konur og konur sem nota eldri gerð getnaðarvarnapillu.
- einstaklingar sem vinna við mikinn raka og bleytu.
- HIV jákvæðir og einstaklingar með ónæmisbælingu.
Holl ráð
Hreinlæti og góð heilsa minnka líkur á sveppasýkingu þótt sumir einstaklingar séu móttækilegri en aðrir og fái sveppasýkingar mun oftar. Í þeim tilfellum er hvorki hægt að kenna um sóðaskap eða heilsuleysi.
- Þvoið ykkur reglulega (þó ekki óhóflega oft þar sem það getur líka raskað eðlilegum hlutföllum örvera á húðinni), og þurrkið ykkur vel á eftir. Ef viðkomandi er í yfirvigt er mikilvægt að þurrka vel allar húðfellingar.
- Forðist að nota annarra manna handklæði.
- Klæðist bómullar- eða ullarfötum sem leyfa húðinni að anda og halda ekki að henni raka. Skiptið reglulega um föt og sokka þannig að fötin séu alltaf þurr.
- Gangið í sandölum eða leðurskóm fremur en gúmmískóm.
- Þvoið ykkur vel um hendurnar ef þið hafið snert sýkt svæði, einnig ef þið hafið borið á ykkur sveppakrem stuttu áður.
Sjá einnig: Hver eru einkenni sveppasýkingar í hársverði?
Á hverju byggist sjúkdómsgreiningin?
Greiningin byggist bæði á sjúkdómseinkennunum og sýnatöku . Mikilvægt er að reyna að finna orsök vandans.
Hvað ber að varast?
Hjá þeim sem vinna í röku umhverfi getur þruskusveppurinn leitt til húðbreytinga í lófum sem líkjast exemi. Þar að auki getur sýkingin farið í neglur sem nánast molna. Hvítsveppasýking hjá einstaklingum með ónæmisbælingu getur dreifst um allan líkamann og myndað viðvarandi slímhúðar sveppasýkingu en það ástand getur orðið lífshættulegt ef sýkingin berst í blóðið.
Batahorfur
Í mörgum tilfellum duga lyf við hvítsveppasýkingu til að uppræta sýkinguna. Þruskuveppasýking getur verið þrálátt vandamál og tekið sig upp aftur og er mikilvægt að vera undir það búinn.
Hver er meðferðin?
Í fyrsta lagi þarf að finna orakir sýkingarinnar og uppræta þær. Meðferðin getur beinst að því að léttast og breyta hreinlætisvenjum eða að lagfæra sykursýkismeðferð. Auk þess er hægt að grípa til sveppalyfja, sem eru oft í formi krema eða smyrsla. Í sum sveppalyf er blandað bólgueyðandi hormónum (sterum) sem vinna á útbrotunum og ertingunni og bæta líðan einstaklingsins. Í erfiðum tilvikum eða ef sýkingin dreifist er hægt að fá lyf til inntöku og jafnvel lyfjagjöf í æð.
Fleiri heilsutengdar greinar má finna á