Þetta var ekki mér að kenna!

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

————————

Þegar ég var 10 ára skildu mamma mín og pabbi. Ég tók ekkert af þessu inná mig eins og þetta væri mér að kenna, ég var alltaf að heyra þau rífast og ég vissi að þau væru óhamingjusöm saman.

Stundum vann pabbi fram eftir til að geta verið aðeins einn í smástund, áður en hann kæmi heim og þurfti að takast á við erfiðleikana heima.Ég hitti kærastann hennar mömmu og strákinn hans sem var þá 6 ára þegar ég var 12 ára. Hann var mjög indæll maður og kom fram við mig eins og ég væri dóttir hans. Hann fór alltaf með okkur í bíó og sund og var alltaf til í að gera allt með mér og bróður mínum. Ég elskaði hann mjög mikið og hann var mér eins og alvöru faðir. Pabbi minn flutti í burtu þannig ég þurfti að vera aðrahverja helgi hjá honum svo ég gæti hitt vini mína og verið áfram í skólanum. Mér fannst það ótrúlega leiðinlegt því ég vildi alltaf vera með pabba.

Eftir að mamma og kærastinn hennar fluttu inn saman fór ég að taka eftir smá breytingum á skapi hans. Hann fór að hugsa minna um mig og hugsaði bara um bróður minn. Mamma var bara rúmliggjandi alla daga vegna þunglyndis og veikinda. Í fyrra eyðilagðist gjörsamlega líf mitt. Mamma og kærastinn hennar byrjuðu að drekka mjög mikið, ég heyrði dósina opnast um 2 og kassarnir tveir sem hefðu verið keyptir um daginn kláraðir um 8 og pelinn eins og fólk kallar þetta kláraður í örfáum sopum.

Mig langaði ekki að vera heima, langaði helst bara að búa hjá pabba alltaf. Þannig ég byrjaði að hlaupa, fór alltaf út að hlaupa og hljóp marga marga kílómetra. Hljóp bæði frá þessu fólki sem ég þekkti ekki lengur og hljóp frá hugsunum mínum. Svo kom ég heim og hætti ekki að hlaupa fyrr en ég var komin inn í herbergi. Stundum tók ég strætó og fór bara eitthvert án þess að þau vissu það. Litli bróðir minn fattaði þetta ekkert og hafði ennþá gaman þarna og leið vel þannig mig langaði ekkert að láta honum líða illa með þetta þannig ég fór bara ein. Ég fór bara eitthvert á daginn og kom ekki heim fyrr en um kvöldið. Ég grét mig í svefn á hverju kvöldi. Svo loksins gat ég farið til pabba þessa helgi sem mér leið alltaf vel. Ég spurði pabba hvort ég mætti vera hjá honum viku og viku frekar en aðra hvora helgi. Ég sagði ekki alvöru ástæðuna heldur sagði ég að það væri af því að ég saknaði hans svo mikið og ég fékk það en ég vissi alltaf að það biði mín erfið vika handan við hornið, að kljást við heimilisaðstæðurnar á hinu heimilinu mínu.

Svo var ég farin að vera meira hjá pabba heldur en ég átti að vera og ég fékk ekki að vita afhverju. Á þessum tíma átti ég fullt af vinkonum sem ég gat farið til og talað við en ég gerði það ekki. Svo kom kvöldið sem ég mun aldrei gleyma og get ekki eytt úr hugsunum mínum.

Ég fór heim til mömmu til að sækja fleiri föt og hún tók á móti mér, það var enginn heima nema hún, þannig ég kallaði á hana og hún kom á móti mér, öll marin og bólgin gjörsamlega útum allt. Með sprungna vör og glóðurauga og það stóð út svona kúla á hendinni hennar. Mér hefur aldrei brugðið jafn mikið á ævi minni, þegar hún sagði mér hvað hafi gerst, að svokallaði fósturpabbi minn sem ég elskaði og dýrkaði hafði barið hana svona harkalega. Maður gat séð handaförin hans um úlnliðinn hennar eins og hann hafi haldið henni niðri.

Ég fór útí bíl til pabba og hágrét, mér leið eins og allt væri svart og umkringdi mig þannig ég fékk innilokunarkennd. Ég gat ekki hætt að hugsa útí þetta, þessa mynd sem var föst í höfðinu á mér. Að það sé til svona skrímsli í heiminum. Mamma fór frá honum og flutti inn til mín og pabba. Í fyrstu var ég mjög ánægð með það. Þangað til að hún fór alltaf á djammið með vinkonu sinni og bauð djamminu heim bara.

Eitt kvöldið fór hún í bíltúr og sagði að hún myndi koma heim eftir svona klukkutíma. Hún fór á föstudeginum og kom ekki heim fyrr en á sunnudeginum. Við pabbi heyrðum ekkert frá henni fyrr en hún kom heim. Hún útskýrði ekkert. Hún sagði ekkert hvað hún gerði eða af hverju hún gerði þetta. Eftir þetta hætti ég að tala við hana. Það sem kærasti mömmu hafði eyðilagt mig, þá eyðilagði hún mig meira. Ég hef alltaf reynt að tala við hana um manninn en hún neitaði að tala við mig og lokaði á mig, eitthvað sem enginn mamma á að gera og enginn á skilið að lenda í. Ég hafði ekki bara misst fósturpabba minn heldur var ég að missa mömmu mína líka.

Mér var farið að líða svo illa að ég fann enga aðra leið í að slaka á sársaukanum en að meiða sjálfa mig og það var það sem ég gerði. Ég meiddi sjálfa mig svo ég þyrfti ekki að finna þennan hræðilega sársauka fyrir innan. Það virkaði ekki. Ég fann ennþá sársauka en núna andlega og líkamlega.

Ég kenndi sjálfri mér um það sem kom fyrir mömmu, ef ég hefði verið heima þetta kvöld, þá hefði hann kannski ekki gert þetta? Ég hugsa þetta enn í dag. Ég fór að ýta vinkonum mínum í burtu frá mér því ég vildi ekki að þær særðust útaf mér. Mér fannst að allt sem ég elskaði myndi særast. Ég ákvað að finna hjálp því ég vissi ekki hvað ég átti að gera ég var stjórnlaus, svaf ekki á nóttunni, talaði ekki við vinkonur mínar og gjörsamlega lokaði mig af. Fór að meiða sjálfa mig á hverjum degi. Ég sá engan tilgang í lífinu. Mig langaði aldrei að drepa mig. En til hvers að lifa ef ég var dauð að innan? Það var búið að drepa mig að innan. Ég var ekki lengur glaða og káta stelpan sem allir elskuðu og fannst gaman að vera í kringum. Ég vissi að ég gat ekki gert fjölskyldunni minni þetta og sérstaklega ekki pabba mínum.

Þannig að ég fékk hjálp, ég fór til kennara í skólanum mínum og sagði henni frá. Það var mögulega það besta sem ég hef gert fyrir sjálfan mig. Því núna er ég að hitta sálfræðing ég er byrjuð að taka eitt skref í einu. Ég hitti vinkonur mínar og mér líður svo mikið betur. Brotna hjartað mitt límist smátt og smátt saman.

Ég vil sérstaklega þakka þessum æðislega kennara sem ég eftir að vera ævinlega þakklát þar sem eftir er lífs míns. Ég hef ekki elskað neinn kennara jafn mikið og ég elska hana.
Ég vil líka segja öllum sem eiga erfitt að það er alltaf hægt að fá hjálp, það er alltaf einhver sem er reiðubúinn að hjálpa þér. Sama hvort það sé kennari í skólanum þínum eða fólkið sem er alltaf við símann í 1717 sem er hjálparsími Rauða krossins. Ef þú átt í erfiðu aðstæðum heima hjá þér eða í félagslífinu, ekki gefast upp. Þú átt allt lífið framundan. Þótt þetta muni alltaf vera partur af lífi þínu. Þá geturðu lifað með þessu. Því þetta var ekki þér að kenna. Þetta var ekki mér að kenna.

SHARE