„Þú þarft enga tilvísun, kona; ég sé bara um þetta …”

Já já. Það er ægilega flókið stundum að búa í útlandi. Norræna heilbrigðiskerfið og allt það; sú undursamlega útópía sem meginland Skandinavíu nú í raun er.

Þá er einnig útlit fyrir að bróðurpartur næstu mánaðarlauna fari í að styrkja einkavætt heilbrigðiskerfið hér í Noregi – sem ég hef nýverið afhjúpað, mér til ómældrar gleði. Hér, í landi ríkisstyrktra heilbrigðisstofnanna, er nefnilega hægt að sneiða hjá ægilöngum biðlistum eftir viðtali við sérfræðinga á ríkisreknum stofnunum og … haldið ykkur fast … panta tíma á einkastofu.

Þetta hefur tekið mig heil þrjú ár að grafa upp; heilbrigðiskerfið í Noregi er tvískipt – ríkis- OG einkarekið. Mér finnst þetta ægilega spennandi, enda einungis vön ríkisreknu heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga. Þið vitið – maður bara pantar tíma, skráir dagsetninguna niður og stormar svo í Glæsibæ þegar stundin rennur upp. Eða upp á Borgarspítala – íslenskir læknar (þeir sem enn eru á landinu) er svo víðförlir nefnilega.

Rifjast þá upp fyrir mér grimmlyndir stöðumælarnir við Háskólasjúkrahúsið í Reykjavík og í laumi felli ég tár …

Að vísu kosta 20 mínútur í faðmi eins færasta innkirtlasérfræðings á Oslóarsvæðinu litlar 58.000 íslenskar krónur. Tímann panta ég á netinu og allar skriftur eru óþarfar. Ég slæ bara inn kennitöluna, vel hentuga dagsetningu og set stút á varirnar áður en ég ýti á ENTER.

Mér er alveg sama. Ekki um rafrænt bókunarkerfið sem minnir helst á skráningarsíður hótela, (morgunverður innifalinn í verðinu) heldur um aurinn. Svo mikið er mér í mun að bera manninn augum að ég ætla að tæma sparibaukinn, dusta rykið af gömlum blóðprufum … fara í betri kápuna, mæla með djúpri röddu þegar ég legg niðurstöðublöðin á borðið og hvísla svo:

„Compare these results, please.”

Auðvitað á ensku líka, Norðmenn eru ekkert ólíkir Íslendingum nefnilega. Ég finn ávallt örla fyrir ógreinilegri lotningu þegar ég mæli á öðru máli en þjóðtungunni.

Ég er útlendingur. Ágætlega gefin og kona fyrir allan peninginn.

Maðurinn hlýtur að falla fyrir þessu. Fræða mig um flæði hormóna, stöðuna á skjaldkirtlinum og skoða augun á mér í ofanálag. Það hlýtur eiginlega bara að vera – litlar tuttugu mínútur á stofu mannsins kosta 58.000 íslenskar krónur og ég er því eflaust á leið til fundar við ljúflyndan milljarðamæring sem fann upp hormónastarfsemi kvenna og veit hvernig á að hafa hemil á flæðinu í ofanálag.

Að vísu var ofangreind ákvörðun ekki léttvæg. Áður en ég hvessti augun og festi sjónar á fokdýra innkirtlasérfræðingnum hafði ég – útlendingurinn – nefnilega reynt allt sem mér kom til hugar til að sannfæra heimilislækninn um nauðsyn þess að skrifa tilvísun á innkirtlasérfræðing, svo hægt yrði að skera úr um hvort ég er enn með ofvirkan skjaldkirtil.

„Þú þarft enga tilvísun, kona; ég sé bara um þetta …”

Svona hafa nú undanfarnir 36 mánuðir liðið án þess að blessaður heimilislæknirinn hafi gert nokkuð nema fitla vandræðalegur við niðurstöðublöð, gefa fleiri ávísanir á blóðprufur hinu megin við ganginn og strjúka makindalegur yfir gráan makkann.

Enn hef ég engin önnur svör fengið en: „Þú þarft enga tilvísun; ég sé bara um þetta …” – lyfin sem íslenski sérfræðingurinn ritaði samviskusamlega upp á eru vitaskuld löngu búin, Neo Mercazole er minningin ein og skjaldkirtillinn er orðinn á stærð við ungabarn.

Svo ég vatt kvæði mínu í kross, smellti í góm (án tilvísunar) og bókaði tíma hjá einum færasta innkirtlasérfræðing Noregs (sem fann sennilega upp hormónakerfi kvenna) og er nú búin að tæma alla sparibauka heimilsins – bíð í ofvæni eftir að reiða fram 58.000 íslenskar krónur og stíga um leið fæti í alfyrsta sinn á ævi minni inn á einkarekna læknastofu – keimlíka þeirri sem Íslendingar hafa stöðugt í hótunum um að opna á Íslandi, verði ekki gengið rakleiðis í að lagfæra þann skort sem heilbrigðiskerfið heima fyrir hefur mátt þola, þann gengdarlausa niðurskurð sem hefur dunið á íslensku þjóðinni og olli verkfalli lækna, nú fyrir skemmstu.

Hvort ég svo muni eiga fyrir mjólk á næstu misserum er annað mál … auðvitað er einnig hægt að kreista út tilvísun eftir krókaleiðum, en ætli ég mér að bíða tíma hjá innkirtlasérfræðing sem starfar á vegum hins opinbera, er allt eins líklegt að þegar tíminn loks rennur upp, verði skjaldkirtillinn orðinn að sjálfstæðri manneskju sem er mér ósammála í flestu.

Þannig að ég púnga bara út andvirði Íslandsferðar og skrepp til sérfræðings í Osló á næstu vikum, fullviss um að þeir íslensku séu eflaust á leið hingað yfir haf af þeirri einföldu ástæðu að það kostar skildinginn sinn að komast úr sporunum hér í landi.

Þið hélduð þó varla að það væri allt ókeypis hérna í útlandinu … 

Tengdar greinar:

„Ég hef verið mjög þreytt í mörg ár“ – Kristjana Marín segir okkur sína sögu

Íslendingar – Fallegir áhættufíklar með mikilmennskubrjálæði

Af hverju eru börn í Frakklandi ekki greind með ADHD?

SHARE