Þunglyndi þarf ekki að vera tabú – „Ég endaði í andlegu gjaldþroti“

Vala Sigríður er klassísk menntuð söngkona í tónsmíðanámi í LHÍ. Hún heldur úti bloggi og skrifaði þessa færslu nú á dögunum þar sem hún tjáir sig um veikindi sín. Flott færsla hjá þessari stúlku:

Ég heiti Vala og ég er þunglynd.
Þunglyndi er ennþá tabú í þjóðfélaginu og mjög misskilinn sjúkdómur.
Oft ruglað við aumingjaskap eða leti.
Mig langar að stuðla að viðhorfsbreytingu hvað þetta varðar og hef ég í þessu skyni ákveðið að segja frá minni baráttu við þennan sjúkdóm.

Ég tel að það gæti gert mikið fyrir þjóðfélagið að stuðla að meiri úrlausnum fyrir fólk sem glímir við þennan sjúkdóm, því ef við erum öll upp á okkar besta þá hlýtur það að fæða af sér orkumeiri starfskrafta með meiri lífskraft og innblástur.

Hjálpumst að til að gera hvort annað að bestu útgáfu okkar sjálfs.
Elskum okkur sjálf, elskum hvort annað. Eflum hvort annað, styrkjum og hvetjum.

Við erum öll eins, og við þurfum öll sömu hlutina.
Ef við erum duglegri að veita okkur sjálfum og hvoru öðru þessa hluti þá eru möguleikarnir endalausir!!

Hefur lengi glímt við þunglyndi

Ég komst að því nýverið að ég hef verið að glíma við alvarlegt þunglyndi allt mitt líf. Síðan ég var unglingur nánar tiltekið. Reyndar vissi ég að ég væri þunglynd þegar ég var orðin tvítug og hef barist við þetta síðan þá, en ég fékk ekki að sjá á hversu alvarlegu stigi það væri fyrr en nýverið.

Þegar ég komst að þessu upplifði ég blendnar tilfinningar. Ég upplifði mikla sorg yfir því að ég væri virkilega á svona slæmum stað og að glíma við svona alvarleg veikindi. En ég fann líka til mikillar vonar vegna þess að þá loksins sá ég fram á það að ég gæti unnið bug á þessum djöfli, og loksins LOKSINS orðið sú manneskja sem ég veit að býr innra með mér. Sú manneskja sem mig hefur alltaf langað til að vera, en aldrei komist nema hálfa leið í að gera að raunveruleika.

Er að kynnast fjölskyldunni á nýjan hátt

Síðustu mánuði hef ég barist við þennan sjúkdóm af allri minni orku. Ég fór lengra niður en ég hef nokkru sinni farið, en núna er ég að komast á stað sem ég hef aldrei verið á áður. Ég hef unnið mig út úr vandamálum sem hafa dregið mig niður allt mitt líf og ég hef öðlast meiri skilning á lífinu, lífskraft, þakklæti, ánægju, og umfram allt sálarró. Ég er að verða þess aðnjótandi að kynnast fjölskyldu minni og vinum á nýjan hátt, nánari og afslappaðri. Mér líður gífurlega vel með þeim, og ég er að læra að elska. Virkilega elska, þannig að ég finni það innra með mér, hita og hamingju. Ég er að læra að taka á móti ást frá þeim sem í kring um mig eru, sem ég lengi vel ýtti frá mér eftir mesta megni – þó þess aðnjótandi að sjá þessa hegðun og útskýra fyrir fólki af hverju ég gerði þetta. Ég á marga góða og yndislega að og nú er ég loksins að fá tækifæri til að virkilega taka á móti þessari ást og njóta hennar – og gefa ást á móti af öllu hjarta. Hún styrkir mig, og ég er EILÍFLEGA þakklát öllum sem hafa staðið með mér í gegn um árin. Án ykkar hefði ég ekki komist hingað.

Fylgdu litlu röddinni innra með þér

Eitt af því sem ég er að tileinka mér er að hlusta á innsæið mitt, því ég trúi því að geri maður það rati maður á þann stað sem manni er ætlað að vera. Áreynslulaust. Upp að vissu marki, auðvitað þarf maður stundum að leggja eitthvað á sig! En ég trúi því að fari maður að fylgja þessari litlu rödd þá komi til manns hlutir sem mann óraði ekki fyrir. Hlutir sem leiða mann á þá braut sem fyrir manni sé ætluð. Braut velgengni, hamingju og þakklætis.

Eftirfarandi er lýsing á ástandinu sem ég upplifði sem þunglyndissjúklingur. Ég vona að með því að deila þessu fái ég tækifæri til að vekja fólk til umhugsunar varðandi þennan alvarlega og þó afar algenga sjúkdóm.

Með því að ræða hlutina opinskátt tel ég að hægt sé að vinna að því markmiði að útrýma fordómum og sýna fólki með sjúkdóminn skilning, umburðarlyndi og kærleika. Við eigum öll okkar kosti og galla en öll eigum við það skilið að vera elskuð. Það er ekkert flóknara!

Ég vil taka það fram að eftirfarandi orð eru ekki skoðanir mínar, heldur sjúkdómurinn að tala í gegn um mig. Hugsanirnar komu fram þegar ég var langt niðri, yfirtóku mig og gerðu mér ókleift að takast á við þær eða bæja þeim frá.

„Kannski á ég þetta skilið af því pabbi minn er aumingi“

Ég var orðin það langt leidd að ég var í alvöru farin að hugsa: „Kannski á ég ekkert að vera að ætlast til þess að ég megi fá hjálp við að vinna mig út úr þessari óhamingju.“ „Kannski á ég þetta skilið af því pabbi minn er aumingi og það er okkur sjálfum að kenna fyrir að vera svona miklir aumingjar í þessari fjölskyldu að við lifum í volæði. Að það sé ekki vandamál ríka fólksins þó að pabbi minn hafi komið þannig fram við mig að ég fékk mörg áföll í æsku sem urðu smám saman til þess að áföllin urðu fleiri í lífi mínu sem gerðu það að verkum að ég var algjörlega ófær um að lifa eðlilegu lífi, sjá fyrir mér og öðlast þá hamingju og ná þeim markmiðum sem mig dreymdi um að ná.“

„Kannski er eðlilegt að ég sé verri en fólkið sem á peninga“

„Kannski er bara eðlilegt að það sé misjöfnuður í samfélaginu og mér var útdeilt það hlutverk að vera aumingi af því ég fæddist í þannig fjölskyldu. Þá eigi ég bara að taka þessu hlutverki og ekki ætlast til þess að ég fái nokkra hjálp við það að koma mér út úr því hlutverki, að ég sé verri en fólkið sem á peninga og lifir fallegu og eðlilegu lífi og skortir ekkert, og getur vaknað á morgnana og unnið fyrir peningunum. Sem hefur þann lífskraft vegna þess að enginn hefur barið hann niður í þeim, til þess að eltast við draumana sína, þá orku innra með sér til að sjá fyrir sér eitthvað sem þau geta unnið úr höndum og geta gert það. Geta stofnað þetta fyrirtæki t.d, og komið því í gang og stjórnað því. Eignast alla peningana sem því fylgir.“

„Verið svona duglegt fólk sem á skilið að sitja á öllum auðæfunum sem þau eiga, af því þau voru svo dugleg að vinna fyrir þeim. Að það sé ekki þeim að kenna að þau hafi alist upp í fjölskyldum þar sem þau fengu stuðning, þar sem fólkið í kring um þau voru líka svona duglegt fólk svo þau ólust upp með það fyrir augunum allan daginn að ef þú vilt gera eitthvað þá geturðu gert það, þau eru með það fyrir augunum á sér allan daginn að ef þú hefur trú á sjálfum þér og ætlar þér eitthvað og ert tilbúinn að vinna fyrir því, þá er það hægt.“

„50% orkunnar minnar fór í að rífa mig niður“

En ekki eins og ég sem ólst upp með það fyrir augunum að lífið væri erfitt og ómögulegt og sama hvað ég reyndi þá yrði ekkert úr mér. Ég trúði því ekki alveg svo ég reyndi smá. En ég reyndi bara 50% af því hin 50% orkunnar fóru í að rífa mig niður, svo ég var alltaf ógeðslega þreytt og veik og hafði oft ekki tök á því að gefa mig 100% í neitt.

Ég gaf mig 100% af því ég er dugleg og metnaðarfull, en þegar ég var búin að gefa mig 100% í eitthvað verkefni (sem ég gerði alltaf), þá þurfti ég langan tíma til að jafna mig sem þýddi að ég gaf 0% í einhvern annan þátt í lífi mínu, t.d. vini og fjölskyldu (sem þýddi minna af félagslegum tengslum og meira þunglyndi), í að vinna mér inn pening (keyrði mig út í skólanum og gat ekki verið í vinnu líka- eða ég var í vinnu og féll í skólanum), að halda hreinu í kring um mig og hugsa um mig að öðru leiti, t.d. elda (sem þýddi drasl sem þýddi niðurrif og enn meira þunglyndi.)

„Ég er aumingi, ég get ekki unnið með skólanum“

„En þetta er allt bara mitt vandamál, þetta er ekki neitt sem ríka fólkið á að spá í. Hvernig ég geti lifað af með 55 þúsund á mánuði. Ég meina, ég á það skilið er það ekki? Ég er aumingi. Ég get ekki unnið með skólanum, ég er 30 ára og er enn í námi. Tónlistarnámi meira að segja. Er það ekki bara mér að kenna líka að ég valdi tónlistarnám? Ég vissi að það væri óstöðugur bransi. Er það ekki bara fólkið sem er ótrúlega duglegt og getur verið í fullri vinnu og samið tónlist sem getur gert eitthvað í tónlist? Er ég ekki bara algjör hálfviti að hafa farið út í þetta, vitandi að ég sé svona mikill aumingi, að ég geti aldrei orðið þessi duglega sem meikar það. Á ekki bara fólk sem getur ekki meikað það að fara í eitthvað hagnýtt nám og vinna vinnu þar sem það gerir eitthvað fyrir samfélagið? Þarf nokkuð svona marga tónlistarmenn? Er ekki nóg að hafa bara þessa allra bestu, til að hafa nokkra geisladiska?“

„Ég er með sjúkdóm sem heitir þunglyndi“

En málið er að ég er ekki aumingi. Pabbi minn er það ekki heldur. Við erum bæði ótrúlega duglegt fólk. Hann var að díla við allskonar þegar ég var að alast upp og hann gerði sitt besta og ég er með sjúkdóm sem heitir þunglyndi. Ég veit ekki hvort ég fékk þennan sjúkdóm í gegnum blóðið frá pabba mínum eða hvort það var vegna þeirra aðstæðna sem ég ólst upp í. Kannski er það blanda af þessu hvoru tveggja. Líklega.

Hreif alla með sér í ævintýraheima og hló mikið

En ég hafði alla burði til að ná langt þegar ég var lítil. Ég var orkumikil, jákvæð, vinsæl og hugmyndarík, og hafði stjórnunarhæfileika. Ég stjórnaði fullorðna fólkinu og börnunum. Ég hreif alla með mér inn í ævintýraheima sem ég bjó til. Ég hló mikið, lék mér, ég söng og dansaði og ég var alltaf að teikna. Ég var hæfileikarík, teiknaði mjög vel og var músíkölsk. Ég var klár og fljót að læra að lesa. Foreldrar mínir hvöttu mig áfram og hjálpuðu mér með heimanámið svo það varð hluti af daglegu lífi að vinna heimavinnuna. Þegar ég varð eldri fékk ég hátt á prófum og stóð mig mjög vel í náminu. Sem unglingur var ég hávaxin og grönn og falleg.

Ég hafði í raun alla burði til að ná langt í lífinu. En ég fékk þennan sjúkdóm sem unglingur og vegna þess að það var aldrei gripið inn og blaðinu snúið við, þá grasseraði hann endalaust.

Tók próf um þunglyndi og áttaði sig á veikindunum

Ég sá í raun aldrei hversu rosalega veik ég var fyrr en loksins fyrir nokkrum mánuðum síðan þegar ég fór í þunglyndispróf. Þá sá ég að þetta er rosalegur sjúkdómur sem ég hef dragnast með í gegn um árin og hann dregið úr mér allan þrótt. Ég ákvað líka að ég myndi ekki slaka á fyrr en ég væri búin að reyna öll ráð sem mér dytti í hug til að vinna bug á þessum sjúkdómi. Ég er svo ÓTRÚLEGA heppin að eiga móður sem styður mig í einu og öllu, og hefur hún verið mér ómetanleg hjálp í þessari baráttu þar sem hún var tilbúin að styrkja mig fjárhagslega til að takast á við þetta. Það er mikill peningur sem fer í þetta.

Síðustu mánuði hef ég verið óvinnufær vegna þessara veikinda, samt dragnaðist ég í gegn um skólann, með miklum herkjum, vegna þess að starfsmenn skólans sýndu mér skilning og vegna þess að móðir mín gat stutt mig fjárhagslega. Annars hefði ég þurft að fresta náminu og lifa á bótum. Það var ekkert annað sem ég gat gert þessa mánuði nema vinna mig út úr erfiðleikunum. Það var vinnan mín.

En fyrsta skrefið er að átta sig á vandamálinu. Vegna þess að ég áttaði mig ekki á hversu stórt vandamál ég var að glíma við og vegna þess að samfélagið segir okkur að þunglyndi sé aumingjaskapur og aumingjaskapur sé eitthvað til að skammast sín yfir, að við eigum að geta gert allt sem við viljum ef við erum nógu ákveðin, og vegna þess að ég er ótrúlega ákveðin manneskja, þá einhvernveginn drattaðist ég í gegn um lífið, haldandi að ég væri alveg eðlileg eins og allir hinir, að ég eigi að geta lifað lífinu eins og þeir og gert það sem þeir gera. Og alltaf þegar það tókst ekki þá reif ég mig niður fyrir aumingjaskapinn. Þetta er eilífur vítahringur.

Ég endaði í andlegu gjaldþroti. Ég fékk taugaáfall.

Ákveðnin bjargaði lífi hennar

Þetta spinnur endalaust upp á sig. En ég hef ýmsa kosti sem hafa bjargað lífi mínu, t.d. það hvað ég er ákveðin. Ég neitaði að gefast upp. Ef ég hefði ekki þennan eiginleika hefði ég kannski ákveðið að taka eigið líf einhvern tíman á lífsleiðinni. Þá væri ég ekki hér til að segja þessa sögu.

Hversu margir hafa ekki mömmu til að styðja sig andlega og fjárhagslega? Hversu margir búa ekki við þá blessun að hafa fengið ómetanlegan stuðning í barnæsku sem þau búa við alla ævi vegna þess að það skapaði ákveðni sem drífur þau áfram?

Hversu margir gefast upp?

Hversu margir telja það vera þeim að kenna að þeir lentu hér, eða að minnsta kosti að þau eigi það skilið og engin leið sé til að grafa sig upp úr því?

Það er örugglega erfiðasta verkefni sem nokkur þarf að glíma við, að vinna sig út úr svona áföllum. Að rifja upp hluti sem er svo sárt að hugsa um að maður verður veikur við það. Við getum ekki tekist á við þessa hluti nema við fáum gífurlegan stuðning frá einhverjum, hvort sem það eru manns nánustu eða einhver utanaðkomandi t.d. sálfræðingur. Það er ekki fyrr en þá sem við getum loksins fundið fyrir þeim frið og þeirri ró sem felst í því að trúa því innilega að maður sé öruggur, algjörlega öruggur.

Það á ekki að lifa lífinu í ótta

Það er ekkert líf að lifa í ótta alla daga. Ég óska þess ekki neinni sál. Og ég skil vel að fólk sjái sér ekkert annað fært en að taka eigið líf vegna þess að það ræður ekki við að takast á við þetta hjálparlaust.

Mér finnst alveg hræðilegt hvernig samfélagið hefur þróast, og þessar viðteknu venjur og hugmyndir um duglegt fólk og aumingja. Við erum öll bara fólk. Mannlegar verur. Lífverur. Í alvöru, við erum ÖLL EINS. Við lifum ólíkum lífum, við fáum ólík tækifæri, það er eini munurinn. Við erum öll frábær, við erum öll hæfileikarík og dugleg, ef við fáum tækifæri til að sjá það og trúa því, og tækifæri til að blómstra.

Eigum við sem erum í þeirri stöðu að þurfa að vinna okkur út úr erfiðleikum í alvöru skilið að lifa verra lífi? Er það bara allt í lagi að við fremjum sjálfsmorð? Lifum í eymd?

„Ég gerði ekkert rangt“

Sú hjálp sem nú er til staðar er aðeins til fyrir tilstilli mikilla barrátta í gegnum söguna. Verkalýðsfélög, ódýr læknisþjónusta, og bætur. Það er ekki sjálfsagt og sífellt er verið að reyna að gera lítið úr þessu og draga þetta til baka. Einkavæða allt. Tala um skatta á neikvæðan máta.

Hvað þýðir misjöfnuður? Fyrir fólk sem situr á sínum háa hesti með sínar gullhrúgur þá er það bara jákvætt er það ekki? En hafið þið hugsað út í hvað þetta þýðir fyrir fólk með geðræn vandamál? Er það í alvörunni í lagi að fólk þjáist allt sitt líf?

Ég gerði ekkert rangt. Ég fæddist og ég lifði. Og ég er einhvern vegin og eitthvað gerðist. Og ég kom út sem taugahrúga. Ég valdi það ekki. Ég kann ekki að stjórna því.

Ef þessi þróun heldur áfram þá þýðir það bara enn fremur að fólk eins og ég hefur engin tól til að takast á við sína erfiðleika, og við fremjum sjálfsmorð eða lifum í eymd allt okkar líf. Eða eitthvað ennþá verra, eins og þegar fólk leiðist út í glæpi og eiturlyf. Þá er fólk beinlínis farið að vinna samfélaginu mein.

Þunglyndi er ekki aumingjaskapur

Af hverju ekki frekar að reyna að efla þessar og fleiri lausnir fyrir fólk, gera hlutina þannig að það verði aðeins auðveldara að vinna sig út úr erfiðleikunum því ég get alveg sagt ykkur af eigin raun að það er ÓGEÐSLEGA erfitt að takast á við svona hluti. Það er margra ára vinna, og tekur á andlega og líkamlega.

Hversu mikið betra fyrir samfélagið væri það, ef þessu fólki væri veittur sá stuðningur sem þau þurfa til að hjúkra sér aftur til heilsu og styrks. Til að finna hvar hæfileikar þeirra liggja og efla þannig efnahaginn? Í stað þess að þau séu „byrði á samfélaginu” vegna „aumingjaskapar síns”.

Ég er kannski draumóramanneskja en ég held að þetta sé hægt.

Ég ætla að enda á tilvitnun úr einu ástsælasta barnaleikriti okkar Íslendinga, sem við notum gjarnan til að kenna börnunum okkar fallegar og réttar hugsanir (sem við erum miður dugleg að tileinka okkur sjálf!!)

“Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir.”

Ást og friður til ykkar allra <3

P.s. Ef þið viljið deila greininni á facebook til þess að stuðla að viðhorfsbreytingu varðandi sjúkdóminn eða þið teljið hana geta hjálpað einhverjum er það guðvelkomið <3

  • author_icon_34063
SHARE