Til stúlkunnar sem sat fyrir aftan mig á kaffihúsinu í bænum….

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

Ég sat síðustu helgi með vinkonu minni á kaffihúsi í bænum. Fyrir aftan mig sátu tvær stelpur á spjalli og fór ég að hlusta þegar ég heyrði aðra þeirra spyrja vinkonu sína hvort það væri einhver möguleiki á því að bakka úr skilnaði þegar það væri liðin svo langur tími. Ég svo sem ætla ekki að leggja dóm á aðra enda geta aðstæður verið mjög misjafnar hjá pörum eða fyrrverandi pörum. Vinkona hennar sagði nei það væri ekki hægt. Mig langaði því til þess að segja aðeins mína sögu, og vona að stelpan sem sat fyrir aftan mig lesi þetta.
Ég og maðurinn minn skildum. Það var ekkert rifrildi eða neitt slíkt, við bara elskuðum ekki hvort annað, eða ég allavega elskaði hann ekki. Við vorum eiginlega bara orðnir rosalega góðir vinir. Það var engin kynferðisleg spenna á milli okkar og það gerði allt mjög erfitt. Hann vildi kynlíf sem ég bara var ekki tilbúin til að veita honum. Við vorum bara föst í einhverju fari sem við virtumst ekki ná okkur út úr, en reyndum að halda okkur saman fyrir börnin okkar. Ég tók ákvörðun um að skilja við hann í byrjun sumars og hann flutti út. Ég get kannski ekki sagt að skilnaðurinn hafi verið mjög erfiður, nema auðvitað tilfinningarlega var þetta ekkert auðvelt, hjá hvorugum okkar. Við vorum vinir eina stundina en rifumst heiftarlega hina. Fjölmörg símtöl og skilaboð sem hvorugt okkar var stolt af að hafa látið frá okkur. Mörg ljót orð voru látin falla og erfitt var að gleyma. Svona gekk þetta í dálítinn tíma.

Eftir að við fórum í lokaskilnað hjá sýslumanni þá urðu hlutirnir auðveldari. Ég byrjaði að hitta strák og hann var með einhverri stelpu. Þetta varð allt svolítið þægilegra. Auðvitað kom stundum upp sú hugsun að ég saknaði hans og ég sá stundum eftir því að hafa skilið við hann, en það entist ekki lengi. Fyrir jólin í fyrra þá kom upp söknuður. Ég hugsaði að það hefði verið mikið auðveldara fyrir alla ef ég hefði bara ekki tekið þessa ákvörðun en fannst það bara vera of seint að hugsa svoleiðis enda vorum við búin að vera skilin í rúmlega eitt og hálft ár.

Ég var svo að tala við vinkonu mína og ákvað að segja henni frá því hvernig mér leið. Sú vinkona mín horfði á mig og spurði hverju ég hefði að tapa að spjalla við hann. Ég gretti mig og sagðist ekki vita það. Vinkona mín sagði mér að það versta sem gæti komið úr því samtali væri að ég yrði með sært stolt, og hún minnti mig á öll þau skipti þar sem hann hafði reynt að fá mig til baka og ég hafði hafnað honum. Hún sagði að þar hefði hann ekkert hugsað út í stoltið og verið sama þó það yrði sært. Ég var enganvegin sammála henni, og ég hugsaði að hún vissi ekkert um hvað hefði gengið á á milli okkar, öll ljótu orðin og símtölin, strákurinn sem ég hafði verið að hitta (en var hætta með honum þá) og stelpan sem hann var að hitta. Ég hugsaði um þetta í nokkra daga stanslaust. Það var svo um miðjan desember að við vorum að tala saman til að skipuleggja aðfangadagskvöld en við ætluðum að vera saman með börnin. Þegar símtalinu var lokið þá sendi ég honum sms um að ég saknaði hans. Hann svaraði eftir kannski 5 mínútur en mér fannst líða klukkutími. Svarið hans var að hann saknaði mín líka. Ég fékk hjartslátt og prufaði að senda honum sms hvort hann vildi koma í heimsókn. Aftur liðu nokkrar mínútur og hann sagðist vera á leiðinni. Við töluðum saman í marga klukkutíma þetta kvöld og jú gerðum meira sem ég ætla ekki að fara nánar út í.

Til að gera langa sögu stutta. Þá erum við búin að gifta okkur aftur, bara við tvö hjá sýslumanni ásamt vinum okkar tveimur. Núna eru að koma jól og ég er svo hamingjusöm að ég er að springa. Ég elska manninn minn og hann mig mun meira en áður, öll vandamálin eru leyst og við erum mikið betri í að leysa þau vandamál sem upp koma því við vitum bæði að við viljum ekki skilja. Við pössum okkur á að hugsa um hvort annað, hjálpast að og taka tíma í okkur. Það var ekkert auðvelt að vinna úr þeim tíma sem við vorum aðskilin en við erum sammála um að ræða það bara ekki. Við ákváðum bara að fyrirgefa og láta þar við sitja. Auðvitað hugsa ég stundum út í þessa stelpu sem hann var með og hann örugglega strákinn sem ég var með. Mesta vandamálið var kannski fjölskyldur okkar sem hristu hausinn yfir okkur, en okkur var alveg sama og núna eru þau orðin sátt.
Þannig ég vil segja við stelpuna sem sat fyrir aftan mig á kaffihúsinu. Ef þú vilt biðja manninn þinn um að taka sambandið upp aftur. Kyngdu stoltinu og gerðu það. Þú átt það skilið og börnin þín eiga það skilið. Það skiptir ekki máli hversu langur tími hefur liðið á milli. Kannski þroskuðust þið saman á þessum tíma en ekki í sundur. Ég get allavega sagt þér að þetta virkaði fyrir mig og ég hef aldrei verið hamingjusamari. Þegar ég verð reið út í hann og langar til þess að kyrkja hann, þá rifja ég bara upp þann tíma sem við vorum skilin og sé að það var ekki þess virði. Núna elska ég hann meira en þegar við kynntumst og hann er ennþá besti vinur minn.

SHARE