Var „dömpað“ fyrir að vera feit

Beta missti fyrst 40 kg á 4 árum og svo 20 kg á 2 árum. Hún áttaði sig á því að hún væri matarfíkill eftir hafa upplifað tímabil þar sem hún fór ein á KFC og grét yfir því að geta ekki hætt að borða.

„Ég er búin að vera í átta ár í 12 spora samtökum fyrir matarfíkla. Það er lausnin sem ég fann,“ segir Elísabet Ólafsdóttir, sem margir kannast við sem Betu rokk. Beta missti fyrst 40 kíló á fjórum árum og svo 20 á tveimur árum, en hún hafði þá bætt aftur á sig þegar hún gekk með yngri son sinn árið 2014. Hún er ekki ennþá komin í sína kjörþyngd, en veit að hún mun verða komin þangað á næsta ári. Hún borðar hvorki sykur né sterkju og vigtar allt sem hún lætur ofan í sig. „Þetta virkar fyrir mig því beikon er leyfilegt,“ segir hún og skellir upp úr. „Ég á alltaf beikon í ísskápnum. Í dag er ég á leiðinni að verða mjó og get borðað pakka af beikoni í kvöldmat,“ bætir hún kímin við.

Varð fyndna feita stelpan

Þegar Beta fór inn í samtök matarfíkla var hún bæði hætt að drekka og reykja og hafði um tíma verið að reyna að taka til í lífi sínu. Hana langaði að léttast, ekki síður af heilsufarsástæðum en útlitslegum ástæðum. „Ég var búin að búa til allskonar prógrömm fyrir mig til að telja kalóríur og reyna að borða minna en ég brenndi. Ég var raun búin að vera í megrun frá því ég var ellefu ára,“ segir Beta en þá sendi fimleikaþjálfarinn hennar blað með henni heim með upplýsingum um hvað hún mátti ekki borða ásamt fyrirmælum um að hún ætti að léttast um 5 til 7 kíló. „Það var þá sem þetta byrjaði; að vera endalaust í megrun, endalaust samviskubit og sjálfshatur,“ útskýrir hún.

„En svo varð ég fyndna feita stelpan og var aldrei á neinum bömmer yfir því. Ég var í kringum 80 kíló, var í hljómsveit og fékk alla þá athygli sem ég vildi. Ég fékk alltaf að fara í sleik þegar ég vildi það. Þannig að þyngdin var ekkert að trufla mig sérstaklega mikið.“ En það átti eftir að breytast. Árið 2004 kynntist hún manni í gegnum internetið og urðu þau fljótt mjög ástfangin.

„Við vorum saman í gegnum netið í þrjá mánuði en þegar við hittumst loksins fékk hann flog yfir því hvað ég var feit. Honum fannst ég bara ekki sexí, langaði ekki í mig og fannst þetta ekki ganga – af því ég var of feit.“

Drakk til að finnast hún sæt

Þetta var töluvert áfall fyrir Betu, sem vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið, enda höfðu ástarjátningarnar flogið þeirra á milli vikum saman. „Ég var 27 ára og var „dömpað“ fyrir að vera feit. Það var þá sem þetta fór fyrst að hafa veruleg áhrif á mig. Og þá fór ég að þyngjast. Ég var auðvitað alltaf þunga stelpan en gat samt ekki borðað meira en tvær beikonsneiðar án þess að líða illa yfir því. Ég man eftir því að hafa reynt að drekka þangað til ég var nógu sæt til að fara út. Einu sinni drapst ég meira að segja áfengisdauða heima hjá mér því ég náði ekki að verða nógu sæt til að komast út. Það er ógeðslega glatað.“

Beta þyngdist jafnt og þétt á næstu árin. Sérstaklega við tímamót eins og að skipta um vinnu, þá hlóðust kílóin upp. Og einn daginn var hún orðin 104 kíló, 166 sentimetrar á hæð. „Fólk þekkti mig ekki niðri í bæ,“ segir Beta sem þá var meira að segja búin að vera án áfengis í heilt ár, án þess að léttast. Alltaf að passa sig, endalaust á hnefanum og reyndi við hina ýmsu líkamsrækt þrátt fyrir að finnast það drepleiðinlegt, en ekkert skilaði árangri. Og heilsan var eftir því.

Borðaði KFC og grét

„Ég hélt á tímabili að ég væri komin með áunna sykursýki og ákvað að fara til læknis. Ég hugsaði með mér að ef læknirinn segði að ég væri með sykursýki þá myndi ég ganga í samtök matarfíkla sem ég hafði kynnst í gegnum vinkonu mína. Svo rann upp fyrir mér hvað þetta var galið hjá mér. Þá höfðu liðið tveir mánuðir sem ég upplifði mig sem algjöran fíkil. Ég lagði fyrir utan KFC, borðaði ein og grét yfir því að geta ekki hætt. Ég gerði mér þarna grein fyrir því að ég væri fíkill. Ég þurfti ekki að bíða eftir einhverri niðurstöðu. Ég bara byrjaði.“

Um leið og Beta kom fór inn í samtökin breyttist sýn hennar á mat og matarræði. Hún sá strax beinu brautina sem hún þurfti að feta til að ná árangri. „Ég hætti að pæla í því hvað ég væri þung, hvað væri hollt, kalóríum og samviskubiti. Auðvitað var ég alveg „spinnegal“ í tvær vikur á meðan sykurinn var að fara úr líkamanum, ég var dofin í puttunum og með mikil fráhvörf. En svo náði líkaminn jafnvægi, ég hætti að finna þessa þörf og fór að taka eftir lífinu. Ég léttist kannski ekki nema um 900 grömm á mánuði, en ég gerði það í 40 mánuði.“

Líkaminn höndlaði ekki fíknina

Þegar Beta var svo alveg að ná kjörþyngd ákvað hún að taka sér smá hlé frá lífsstílnum sem hún hafði tileinkað sér. „Ég var búin að vera mjó í korter og sagði sjálfri mér að ég væri bara með þetta. Mér fannst ég ógeðslega mjó og sæt og þar sem ég var að skreppa til Brussel fannst mér ég verða að leyfa mér allavega smá belgískt konfekt,“ segir hún og hlær. „Ég sagði sponsornum mínum frá þessu, hún ráðlagði mér frá því, en eðlilega gat hún ekki stoppað mig. Ég var búin að ákveða þetta fyrirfram. Ég reyndi að byrja hægt og rólega. Fékk mér fyrst indverskan mat hérna heima með manninum mínum og það var ótrúlega skrýtið að taka fyrsta bitann. Úti í Brussel hafði ég svo enga stjórn á mér. Ég var í tvo tíma yfir morgunverðarhlaðborðinu því ég varð að smakka allt. Svo sofnaði ég með ís í annarri og súkkulaði í hinni eftir að hafa borðað hamborgara. Ég fékk ekkert í magann af þessu en ég var með 100 í púls allan tímann. Hjartað hamaðist og hamaðist. Það ætlaði að rifna úr brjóstinu á mér.“

Betu fannst þetta mjög óþægileg aukaverkun og hræddist afleiðingarnar ef hún héldi áfram á þessari braut. „Ég fann að ég gat ekki lifað þessu lífi, ég yrði að snúa aftur í fráhaldið mitt, annars myndi ég deyja fyrir fimmtugt. Fyrir utan sjálfshatrið og vanlíðanina þá fann ég að líkaminn höndlaði ekki fíknina mína. Þetta snýst því í raun ekki um agann sem okkur í samtökunum er svo oft hrósað fyrir, þetta snýst bara um að lifa af.“

Ekki fara í ræktina til að grennast

Það sem er kannski athyglisverðast við sögu Betu er að hún hreyfði sig lítið á meðan hún var að missa öll þessi kíló, enda fannst henni það bæði leiðinlegt og erfitt. Löngunin til að hreyfa sig kom ekki yfir hana fyrr hún var að nálgast kjörþyngd.

„Ég byrjaði að hreyfa mig af því ég var hætt að svitna við að labba og vera til. Þeir sem eru svona þungir þurfa ekki að fara í líkamsrækt. Það er nógu erfitt fyrir þessa einstaklinga að labba. Það er svo mikið af fólki sem er í ræktinni án þess að nenna því og mig svíður í hjartað yfir þessum stóra misskilningi. Fólk á ekki að fara ræktina til að grennast. Það er gott að fara í ræktina til að bæta andlega líðan og til að styrkja sig, en ekki til að léttast. Gúglið það. Maturinn skiptir öllu. Og ef þú ætlar að taka út sykur og sterkju, einbeittu þér þá að því, ekki neinu öðru. Hreyfingin kemur þegar líkaminn kallar á hana,“ segir hún ákveðin og vísar til eigin reynslu.

Lífsstíll til frambúðar

Á heimili Betu er til allskonar sykraður matur og sælgæti, enda maðurinn hennar og synir á hefðbundnu matarræði. Á borðinu fyrir framan okkur stendur til dæmis skál með súkkulaðimolum og kexi, en henni er alveg sama. Fólkið í kringum hana er smám saman að læra að hún er ekki bara í megrun eða átaki, heldur er þetta lífsstíll sem hún er búin að tileinka sér og ætlar að viðhalda honum til frambúðar.

„Ég skil vel að það geti verið erfitt að fá fólk eins og mig í mat, en ég redda mér sjálf. Svo hringi ég á veitingastaði áður en ég mæti og kokkum finnst ég yfirleitt bara skemmtileg áskorun,“ segir Beta glöð í bragði. Henni líður vel í eigin skinni og er himinlifandi með að vera laus undan samviskubiti og sjálfshatri yfir því að vera ekki í ræktinni.

Mynd/Hari

SHARE