Vikumatseðill 25. ágúst – 1. sept

Við þekkjum öll umræðuna um það „hvað á að vera í matinn í kvöld“ og hversu leiðinleg þessi umræða getur verið. Ein aðferð til þess að sporna við því að þurfa að ræða þetta aftur og aftur, er að gera matseðil fyrir alla vikuna sem hægt er að fylgja. Þá sleppur þú við að taka þessa ákvörðun á hverjum degi og kemst líka hagstæðar frá matarinnkaupunum.

Hér er matseðill fyrir þessa viku:

Mánudagur

blaðlauk

Blaðlaukssúpa

2 msk smjör
2 msk hveiti
1 l kjötsoð
100 gr rjómaostur
1-2 dl rjómi
1 blaðlaukur
Salt og pipar

Bræðið smjörið í potti og hrærið hveitinu saman við, hellið 1/4 af soðinu út í og hrærið vel. Látið svo restina af soðinu út í og leyfið suðunni að koma upp. Setjið ostinn í smá bitum út í og svo rjómann. Látið ostinn bráðna og látið malla við vægan hita í um 5 min. Skerið blaðlaukinn í sneiðar og setjið út í og látið sjóða í 1 mínútu kryddið með salti og pipar eftir smekk.

brauð

Hollar og góðar brauðbollur

200 gr fínt spelt
100 gr heilhveiti
50 gr hveitikím
100 gr haframjöl
3 tsk vínsteinslyftiduft
½ tsk salt
30 gr sesamfræ
30 gr sólblómafræ
30 gr graskersfræ
4 dl ab mjólk
1 msk ólífuolía
Egg til penslunar

Aðferð

1. Setjið öll þurrefni saman í skál og hrærið.

2. Bætið AB mjólkinni við ásamt olíu og hrærið áfram þar til deigið hættir að klístrast við skál eða putta. Gott er að bæta henni í dl fyrir dl til að sjá hvort þið þurfið minna eða meira af henni.

3. Hnoðið á borði og mótið 8-9 meðalstórar bollur.

4. Penslið með eggi og dreifið sesam- og/eða graskersfræjum yfir.

5. Bakið í 180 gráðu heitum ofni í 20-25 mínútur eða þar til þær verða fallega brúnar.

 

Þriðjudagur

fisk

Fiskur í ofni með sveppum og papriku

Fyrir 2-3
2 dl hrísgrjón
2 flök af hvítum fiski (ýsu, þorski, steinbíti o.s.frv.)
paprika
sveppir
rifinn ostur

Sósa:
½ – 1 dós rækjusmurostur
½ laukur
1 gott hvítlauksrif
¼ kjúklingateningur
svartur pipar eftir smekk
mjólk til að þynna

Laukur og hvítlaukur eru saxaðir smátt og steiktir í olíu eða smjöri þangað til laukurinn er orðin glær. Kjúklingateningur og pipar sett útí. Osturinn er settur útí og látinn bráðna, þynnt með mjólk þar til allt lítur vel út en ekki láta mjólkina sjóða lengi. Hrísgrjónin soðin og sett í eldfast mót, helmingnum af sósunni hellt yfir. Fiskurinn er skorinn í bita og raðað í mótið. Paprika og sveppir grófskorið og sett í mótið og restin af sósunni fer yfir allt saman og síðast rifinn ostur.

Bakað við 180°C í 25 mínútur, borið fram með salati og/eða hvítlauksbrauði.

 

Miðvikudagur

sætar

 

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

3 sætar kartöflur ca 500 g stykkið
700 g kjúklingabringur frá Rose Poultry, skornar í fremur litla bita
1 stór rauðlaukur, skorinn í sneiðar
1 msk ólífuolía + ólífuolía til penslunar og steikingar
saltflögur (ég notaði Falksalt)
grófmalaður svartur pipar
2-4 msk Thai red curry paste frá Blue dragon
Litil dós kókosmjólk frá Blue Dragon (165 ml)
200 g rifinn ostur (ég notaði rifinn maribo á móti rifnum mozzarella osti)

Ofn hitaður í 200 gráður við undir og yfirhita. Sætu kartöflurnar eru skrúbbaðar og þvegnar vel. Því næst eru þær skornar í tvennt langsum. Kartöflurnar eru settar á ofnplötu með flötu hliðina niður í 200 gráðu heitan ofn í um það bil 20 – 30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru mjúkar í gegn. Á meðan er ein matskeið af ólífuolíu sett á pönnu eða í pott og laukurinn látinn malla við vægan hita í ca 20 mínútur (ég var með helluna á 4 af 9) þar til laukurinn hefur karamelluserast, hrærið í honum öðru hvoru á meðan.

Kjúklingurinn er kryddaður með salti og pipar og steiktur á pönnu þar til hann hefur fengið góða húð. Þá er rauða karrímaukinu bætt út á pönnuna, best er að prófa sig áfram með magnið. Ef notaðar eru 2 matskeiðar verður rétturinn fremur mildur. Þá er kókósmjólkinni bætt út á pönnuna. Látið malla í um það bil 5 mínútur. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar eru þær teknar úr ofninu og þegar þær eru nógu kaldar að hægt sé að koma við þær eru kartöflurnar skafnar innan úr hýðinu, gott er að skilja eftir um það bil 5 cm kant. Hýðið er sett aftur á ofnplötuna þannig að það snúi upp. Hýðið er penslað með ólífuolíu og kryddað með saltflögum og pipar. Sett aftur inn í ofn í ca. 12 mínútur.

Á meðan eru kartöflurnar stappaðar létt og kryddaðar með salti og pipar. Því næst er tæplega helmingnum af rifna ostinum bætt út í kartöflublönduna ásamt kjúklingnum og lauknum. Öllu er blandað saman. Þá er blöndunni deilt á milli kartöfluhýðanna og afgangnum af rifna ostinu dreift yfir.

Bakað áfram í ofninum í ca. 12-15 mínútur. Undir lokin er hægt að stilla ofninn á grill til þess að ná góðum lit á ostinn.

Afar gott er að bera fram með þessu ferskt salat og raita jógúrtsósu.

Raita jógúrtsósa:

2 dl hrein jógúrt eða grísk jógúrt
1 lítil gúrka
1 hvítlauksrif, pressað
fersk mynta, söxuð smátt – ég notaði ca. 2 msk
1 tsk fljótandi hunang
salt og svartur pipar

Gúrkan er skoluð og rifin niður með rifjárni. Mesti vökvinn er pressaður úr gúrkunni. Henni er svo blandað saman við jógúrt, hvítlauk, myntu og hunang. Sósan er svo smökkuð til með salti og pipar. Ef notuð er grísk jógúrt er sósan þynnt með dálitlu vatni, ca. 1/2 dl, sósan á að vera fremur þunn.

 

Fimmtudagur

kjúklingasal

Kjúklingasalat og hvítlauksbrauð

klettasalat og eitthvað annað salat blandað saman
2 hvítlauksgeirar (eða meira eftir smekk)
4 msk. olífuolía
2 msk sítrónusafi
80 gr. parmesanostur
2 kjúklingabringur
salt og pipar
Baguette brauð
100 gr. smjör
ca 4 hvítlauksgeirar (eða meira eftir smekk)
5 msk. olía
steinselja og parmesanostur.
Saxa hvítlauk og blanda saman við olífuolíuna og sítrónusafann. Rífa parmesanostinn niður og blanda öllu vel saman. Setja salatið í skál og blanda salatsósunni saman við.

Aðferð

Skerið kjúklingabringurnar í sneiðar og steikið, kryddið með limepipar og salti. Raðið á salatið.

Skera baguette brauðið. Búa til hvítlaukssmjör úr smjöri, hvítlauk, olíu og steinselju. Smyrja brauðið með hvítlaukssmjörinu og rista í ofni. Strá síðan nýrifnum parmesanosti yfir brauðið um leið og það er tekið úr ofninum.

 

Föstudagur

mexikó

Mexíkóskur kjúklingaborgari að hætti Lólý.is

2 kjúklingabringur(fer auðvitað eftir fjölda)
1 kúla ferskur mozzarella ostur
1 bréf fajitas krydd
2 hamborgarabrauð
kál
tómatar
rauðlaukur
hvítlaukssósa
salsasósa(fyrir þá sem vilja)

Takið kjúklingabringurnar og lemjið þær með kjöthamri þannig að þær verði þunnar og góðar, ekki nota samt alla kraftana svo að kjúklingabringurnar detti ekki í sundur. Kryddið með ólífuolíu, mjög gott að nota hvítlauksolíu og kryddið með fajitas kryddinu. Steikið á pönnu þangað til þær eru gegnsteiktar en passið þó upp á að ofsteikja ekki svo að þær verði ekki þurrar. Takið af hitanum og skerið mozzarella ostinn í sneiðar og raðið ofan á bringurnar og leyfið ostinum aðeins að bráðna.
Hitið brauðið í ofninum og skerið niður grænmetið sem þið ætlið að hafa á honum. Nú svo er bara að raða á borgarann eftir sínum smekk. Nú svo getið þið auðvitað bara haft hvaða sósur sem er, nú aðalatriðið er að hafa það sem fjölskyldumeðlimum finnst best. Verið búin að gera Guacomole fyrst og berið fram með því hún er algjörlega ómissandi hluti af mexíkóskum kjúklingaborgara.

Ég bar þetta fram með kartöflubátum sem ég var búin að setja í eldfast mót og krydda með ólífuolíu og kryddi sem heitir Garlic og Thyme frá Nicolas Vahé og fæst í völdum sérvöruverslunum á landinu. Þetta er hvítlauks og timían krydd sem passar alveg svakalega vel með kartöflum. En auðvitað getið þið nota bara hvítlauk, salt og pipar og timían.

 

Laugardagur

cill

Chilli Con Carne

500 gr fitusnautt nautahakk
500 gr fitusnautt svínahakk
2 dósir nýrnabaunir í chilisósu
2 dósir hakkaðir tómatar
2 stórir laukar, niðurskornir
1 græn paprika, niðurskorin
3 hvítlauksgeirar, kramdir
3 msk chiliduft
1 msk rauður pipar
2 msk sykur
3 msk hvítvínsedik
1 tsk kúmen

Steikið kjötið í potti. Setjið lauk, baunir og tómata (ásamt vökvanum), papriku, hvítlauk, chiliduft, rauðan pipar, sykur, edik og kúmen í pottinn. Látið malla í 30 mínútur, með loki á pottinum.

Hrærið í öðru hvoru svo þetta brenni ekki. Berið fram í djúpum diski með slettu af sýrðum rjóma og smávegis ost. Margir hafa líka hrísgrjón og/eða hvítlauksbrauð.

 

Sunnudagur

lamb

Páskalambalæri með rósmaríni, sítrónu og hvítlauk á djúsí kartöflum

1½ kg kartöflur, skrældar og skornar í þunnar sneiðar
2 laukar, skrældir og skornir í sneiðar
½ l vatn
50 g smjör
salt og nýmalaður pipar
1-1 ½ msk. lambakraftur
1 lambalæri, án lykilbeins
4-6 hvítlauksgeirar, skornir í báta
2-3 rósmaríngreinar
1 msk. rifinn sítrónubörkur

Setjið kartöflur og lauk í stórt eldfastmót, nógu stórt til að lambalærið passi ofan í það.

Setjið vatn í pott ásamt smjöri og lambakrafti og hleypið suðunni upp. Hellið soðinu yfir kartöflurnar og kryddið yfir með salti og pipar.
Blandið vel saman. Stingið 8-10 göt í lambalæri með góðum hníf og troðið hvítlauksbátum, rósmaríni og sítrónuberki í götin.
Kryddið lærið með salti og pipar. Leggið lærið ofan á kartöflurnar og bakið við 180°C í 1 klst. Takið þá lærið úr ofninum og haldið heitu.

Hækkið hitann í 220°C og bakið kartöflurnar í 10 mín. í viðbót.

Það þarf enga sósu með þessum rétti því að kartöflurnar eru svo bragðmiklar og safaríkar. Berið fram með blönduðu grænmeti og salati.

 

Eftirréttur

ban

Banana og karamellu eftirréttur

Royal Vanillubúðingur
2 bananar
Karamellusósa (t.d. einhver góð íssósa)
200 ml þeyttur rjómi
10 Hafrakexkökur (t.d. Graham crackers)
Smjör
Sykur

Útbúið búðinginn eins og uppskriftin á pakkanum segir til um. Bræðið 75 grömm af smjöri og myljið niður hafrakexið. Vinnið hafrakexið og smjörið saman og bætið við 1 tsk af sykri. Þrýstið u.þ.b. 2 tsk af kexmylsnublöndunni ofan í falleg glös. Setjið fyrsta lag af búðingi yfir kexmylsnunnar. Skerið bananann í sneiðar og raðið yfir búðinginn. Setjið rjóma yfir bananasneiðarnar. Dreifið kexmylsnu yfir rjómann og hellið karamellusósunni yfir.
Endurtakið 2-5 sinnum.
Kælið í 3 tíma áður en þið berið þetta fram.

 

 

SHARE