Vítahringur biturðar og karlrembu

Mig langar að deila með ykkur mínum hugmyndum um kynjajafnrétti, aðallega vegna þess að mér finnst jafnréttismálin oft vera af allt öðrum toga en þær hugmyndir sem ég hef. Að sjálfsögðu eru mínar hugmyndir ekki yfir aðrar hafnar, en mig langaði samt að fá fólk til að íhuga þetta sem ég hef að segja. Þessi grein átti að vera í styttri kantinum til að fólk myndi nenna að lesa en mér tókst ekki að koma öllu almennilega frá mér nema með smá skrifum.

Ég ætla að byrja á því að útskýra fyrir ykkur svona „kynlægt persónuleikaróf“ sem ég hef verið að spá í lengi. Það er svolítið eins og pólitískt vinstri-hægri róf, til eru öfgar í báðar áttir og síðan allt þar á milli. Fólk dreifist á rófið og á aðra „ása“ líka. Í öðrum endanum er það sem er oft kallað kvenleiki og í hinum er karlmennskan. Þetta róf lýsir eiginleikum og þrám einstaklinga í þessum ákveðnu efnum.

Kvenleiki og karlmennska

Kvenleikinn samanstendur af fjölmörgum persónulegum eiginleikum eins og ást, samúð, tilfinningaríki, blíðleika og fleira. Mig langar að kalla þá einstaklinga sem eru hérna megin við miðlínuna; nærandi einstaklinga, þar sem þessir eiginleikar kalla svolítið á þrá fyrir ást sem gerir þá háða öðrum.

Karlmennskan er einnig samsett af mörgum eiginleikum eins og styrk, frama, kappsemi, sjálfstæði og fleira. Þeir einstaklingar sem falla hérna megin við miðlínuna kýs ég að kalla; verndandi einstaklinga þar sem þeirra eiginleikar kalla fram þörfina til að vernda þá sem þeir elska.

Þegar þú horfir á þessa eiginleika, án þess að tengja þá við eitthvað, þá liggur það í augum uppi að eiginleikar beggja pólanna eru góðir svona hver og einn. Mismunandi EN góðir. Maður hugsar kannski helst að jafnvægi á milli þessara póla væri ákjósanlegasti kosturinn. Ætli það ekki? Þurfum við þá að eyða þessum mun innra með okkur, eða getum við fundið jafnvægi í sambandi við aðra?

Nú langar mig að taka það fram að, eins og ég sagði að ofan, drefist fólk allstaðar á þetta róf, óháð líffræðilegu kyni. Þessir eiginleikar koma að einhverju leiti frá móður náttúru svo það er satt að líffræðilegar konur eru flestar kvenmegin við miðlínuna og líffræðilegir karlar karlmegin. En vegna þess að maðurinn er gagnrýninn á náttúruna og fær um að snúa á hana á rökréttan hátt þá langar mig að segja að það sé ekkert athugavert við líffræðilegan karlmann sem er svolítið kvenlægur eða öfugt, enda búa langflestir yfir eiginleikum frá báðum pólum og einhverjir eru algjörlega hlutlausir.

Eyðum þessum mun

Það sem mér finnst nútíma jafnrétti snúast um er að EYÐA þessum mun og aðalega þá eyða þessum nærandi einstaklingum og snúa öllum í verndandi. Þetta finnst mér sérstakt. Því annar póllinn er ekki yfir hinn hafinn, nærandi einstaklingar búa yfir miklum kostum og þeir verndnandi líka; jafngóðum kostum, en ólíkum. En þegar við reynum að útrýma eiginleika sem annað kynið býr yfir í meirihluta og heilla bara hina eiginleikana þá liggur það í augum uppi að annað kynið stendur uppi sem betra kyn.

Þessi tilraun til að eyða þessum mun og líta á nærandi einstaklinga sem veikari einstaklinga kemur niður á öllum. Hjá karlmönnum kemur það sterkt fram í því hvernig þeir bókstaflega óttast kvenleikana sína, sem eru með öllu eðlilegir. Þeir reyna eins og þeir geta að halda í við karlmennskuna sína og snúa óttanum í vörn. Nærandi karlmenn verða þar af leiðandi fyrir miklu aðkasti ef þeir sýna sínu réttu hliðar og verndandi karlmenn hætta að geta flokkast sem verndandi og verða eiginlega frekar kúgandi vegna brenglaðra hugmynda um karlmennsku sem myndast af ótta við kvenleikann innra með þeim.

Kvenmenn finna fyrir þessu líka auðvitað. Nærandi konur reyna í sífellu að bæla niður þessa eiginleika því þær eru merki um kúguðu konur feðraveldisins og reyna að lifa í endalausu kappi við verndnandi einstaklinga og sýna þeim að þær séu þeim jafnar í eiginleikum verndandi einstaklinga. Þetta ójafnvægi í þrám og gjörðum skilar sér í bara í biturð og eymd. Verndnandi einstaklingar sem reyna að finna jafnvægi þurfa alltaf að fjarlægast kvenleikan meira þar sem þeir nærandi reyna að skora þá á hólm í karlmennskunni.

Jafnvægi í samböndum

Nú er ég ekki að segja að við eigum að fara aftur í tímann þar sem konurnar voru hlíðnar heima hjá sér og lifðu fyrir það eitt að þjóna manni sínum, sama hvernig hann kom fram við hana. Það er ekki merki um karlmennsku og kvenleika heldur karlrembu og kúgun. Það var kannski það sem gerði fólk svo hrætt við kvenleikann til að byrja með – tengdi hann við kúgun? Við eigum að einbeita okkur að því að virða eiginleika beggja pólanna og rækta þá, því samfélagið þarfnast beggja. Einstaklingar sem finna þetta jafnvægi í samböndum, jafnvægi sem myndast vegna raunverulegra eiginleika og tilfinninga en ekki vegna leikaraskaps, hlýtur að líða betur en þeim sem keppast við að sýna sjálfstæði, burt séð frá því hvort þetta sjálfstæði sé það sem þeir þrá fram yfir annað.

Þeir einstaklingar sem finna sig öðru hvoru megin við miðlínuna leita oft í maka sem skapar jafnvægi þarna á milli og þá þróast góð sambönd sem saman standa af virðingu við ólíku eiginleikanna og þar af leiðandi virðingu og ást á makanum. Þar sem verndnandi einstaklingarnir fá sínum þrám fullnægt með því að vernda, sjá fyrir og virða nærandi maka sinn og nærandi einstaklingurinn fær sínum þrám fullnægt með endalausri ást og umhyggju. Svo ástæðan fyrir þessum rýg á milli kynja í samböndum nútímans er kannski vegna þess að við leyfum okkur ekki að vera við sjálf? Nærandi einstaklingar draga hulu yfir styrkleika sína og þrár og verða aldrei hamingjusamir á meðan verndnandi einstaklingarnir hafa enga til að vega á móti þeim í leit af jafnvægi. Þannig tvinnast þetta endalaust upp og verður að vítahring karlrembu og biturðar.

Verum við sjálf!

Mér finnst það þarft mál að finna nýjar leiðir til jafnréttis kynjanna en að reyna eyða þessum mun sem býr innra með okkur. Verum við sjálf og ræktum okkar góðu eiginleika hvort sem þeir flokkast sem karlmannlegir, kvenlegir eða eitthvað annað. Leyfum börnum að rækta með sér sína meðfæddu eiginleika; ekki gera lítið úr ungum drengjum sem sýna kvenleika það kallar á vanvirðingu fyrir kvenlegum eiginleikum. Þetta skilar sér kannski í gagnkvæmri virðingu og meiri hamingju í náinni framtíð.

Ást og friður <3

SHARE