Nú er sumarið að líða undir lok og börn og ungmenni víða um land fara að hefja skólagöngu á ný. Margir foreldrar kannast við það hversu erfitt getur verið að koma rútínunni í gang og fá börnin til að vakna snemma og fara að sofa á skikkanlegum tíma.
Þetta er ekki einungis erfitt fyrir börnin því foreldrarnir þurfa sjálfir að stilla eigin takt og vakna fyrr en venjulega til að gera allt klárt fyrir daginn og komast til vinnu á réttum tíma.
Hér eru nokkur hagnýt ráð um það hvernig auðvelda má þetta ferli:
- Byrjaðu að rétta af taktinn nokkrum dögum áður en skólarnir byrja. Gott er að byrja rólega og fara á fætur hálftíma fyrr fyrsta daginn, svo er hægt að stilla vekjaraklukkuna aðeins fyrr með hverjum deginum þar til þið eruð farin að vakna á þeim tíma sem þarf
- Þegar þú hefur náð að koma upp ásættanlegum svefntímum skaltu reyna að halda þeirri rútínu, líka um helgar.
- Hlustaðu á líkamann – farðu í rúmið þegar þú finnur fyrir syfju!
- Bæði börn og fullorðnir ættu að forðast sjónvarpsgláp og tölvu – og símanotkun síðasta klukkutímann áður en farið er að sofa.
- Þegar unglingar eru með eigin síma er góð regla að skilja símann eftir frammi þegar farið er í rúmið – þannig minnka líkurnar á því að freistast til að kíkja á netið eða senda sms eftir að ljósin hafa verið slökkt. Þetta er líka góð regla fyrir fullorðna.
- Reynið að klára heimaverkefni og húsverk snemma kvölds. Líkami og hugur þurfa tíma til að komast í ró áður en farið er í rúmið.
- Komið upp rólegri kvöldrútínu á heimilinu. Minnkið ljósmagn smám saman þegar líða fer á kvöldið, takið til föt, skóladót og nesti fyrir morgundaginn, farið í heitt bað eða lesið góða bók. Ef gerð er svipuð rútína öll kvöld verður það fljótt vísbending fyir líkama og sál að senn líði að háttatíma og auðveldara verður að slaka á og sofna.
- Forðist að neyta koffeins eftir hádegi. Passið uppá að unglingar séu ekki að drekka gos eða orkudrykki sem innhalda koffein.
- Passið upp á að í svefnherbergjum séu góð myrkvatjöld og svalt loft.
- Gerið góða hausthreingerningu í svefnherbergjum, skiptið á rúmum og athugið hvort sængur og koddar séu í góðu lagi.
Birt með leyfi Betrisvefn.is